22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Mér þykir það skorta á í þessu máli, að þessar „sterku óskir“ útgerðarmannanna, sem talað er um, skuli hvergi koma fram. Ég hefi a. m. k. ekki orðið var við þær, að öðru leyti en því, að í grg. frv. stendur, að „ýmsir af helztu útvegsmönnum hafi tjáð sig frv. þessu meðmælta“. Og svo mikið er víst, að mér hafa ekki borizt neinar áskoranir um að leggja skatt á síldarútveginn í þessu augnamiði frá síldarútvegsmönnum í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir.

Ég tek undir það með hv. þm. Vestm., enda staðfestist það af þeirri reynslu, sem þegar er fengin í þessu efni, að það er ekki nema nokkur hluti síldveiðaskipanna, sem kemur til með að hafa full not af leiðbeiningum flugvélarinnar um síldargöngur, og það þau skipin, sem hraðskreiðust eru og þannig hafa bezta aðstöðu til þess að komast fyrst á þann stað, sem flugvelin segir, að síldin sé í það og það sinnið.

Auk þessa vil ég benda á það — ég hefi það eftir einum útvegsmanni hér í bæ, sem er þaulkunnugur þessum málum —, að það kom í ljós í fyrra, að flugvélin getur einungis gefið leiðbeiningar í þessu efni, þegar logn er og ládeyða, vegna þess, að síldartorfurnar verða ekki séðar úr lofti í stormi og úfnum sjó. Nú hagar sjaldnast svo til, að logn sé, svo að hér verður því aðeins um stopular leiðbeiningar að ræða. Og þó að benda megi á nokkra reynslu um síldarleit frá síðastl. tveim árum, verður að gæta þess, að síðastl. sumar var eitthvert hið kyrrviðrasamasta sumar, sem sögur fara af, svo að út frá því er ekki hægt að dæma um nytsemi síldarleitar úr lofti.

Ég er þess vegna ekki ráðinn í því, hvort ég eigi að greiða þessu frv. atkv. mitt. Mér finnst vanta rökstutt álit um nytsemi þessarar starfsemi frá þeim útvegsmönnum, sem hér eiga hlut að máli.