22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh. skyldi ekki hafa látið þessi gögn, sem honum var svo tíðrætt um, fylgja við þessa umr. Hér er nefnilega um nýmæli að ræða, sem gengur út á að skattleggja sérstakan atvinnuveg landsins, síldveiðina. Áður en að því ráði er hnigið, virðist einsætt að afla nauðsynlegra upplýsinga og gagna og leggja þau fram. Ég vil þess vegna ítreka þau tilmæli mín til hæstv. ráðh., að hann leggi þessi gögn fram við 3. umr., svo að mönnum gefist kostur á að sjá þau.

Hv. 1. þm. S.-M. mælti gegn tveim atriðum í ræðu minni. Í fyrsta lagi því, að þetta kæmi sérstaklega hinum stærri skipum að haldi. Nú voru það alls ekki mín orð, að þetta kæmi hinnum stærri skipum að haldi, heldur hinum hraðskreiðari skipum. Ég þykist vita, að hv. þm. sé svo kunnugur þessum málum, að hann viti, að hin hraðskreiðari skip eru fyrri á vettvang en hin hægfara. Hinu er minna undir komið, hvort skipin eru stór eða smá.

Þá vildi hv. þm. reyna að hrekja þau ummæli mín, að síldarleit kæmi að litlu haldi, er stormur væri og bára. Vitnaði hann til reynslu Norðmanna í þeim efnum. Ég skal þá geta þess, að fjvn. átti tal um þetta við Geir skipstjóra Sigurðsson, sem er maður nákunnugur þessum hlutum, því hann flaug sumarið 1928 með „Súlunni“ og hafði því tækifæri til þess að athuga þetta. Hann var eindregið þeirrar skoðunar, að síldartorfur sæjust ekki úr flugvél, ef alda væri og vindur. Ég býst nú við, að erfitt muni reynast að hnekkja áliti og orðum þessa merka manns, og á þeim byggði ég þessi ummæli mín, og standa þau því algerlega óhrakin enn.

Hv. þm. sagði, að hugmyndin með þessu væri um leið sú, að skapa grundvöll undir flugferðir í framtíðinni. Hinsvegar hafa það verið höfuðrök þessa máls, að þessi skattur væri lagður á síldarútveginn eingöngu til þess að efla hann sjálfan. Ég verð þess vegna að taka undir með hv. þm. Vestm., að ef á að fara að skattleggja þessa atvinnugrein sérstaklega til þess að afla fjár til almennra þarfa, þá er það mjög varhugavert. Mér er ekki kunnugt um, hvaða áætlanir hafa verið gerðar um hæð skattsins. Vil ég biðja hv. form. n. að gefa mér upplýsingar um það, því ég geri fastlega ráð fyrir, að n. hafi gert sér einhverja grein fyrir því, Slíkt er vitanlega skylda hennar, svo að hún geti fremur horfzt í augu við sannleikann og byggt till. sínar og athuganir á skynsamlegum grundvelli.