27.01.1930
Neðri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (898)

24. mál, samskóli Reykjavíkur

Ásgeir Ásgeirsson:

Eins og hæstv. dómsmrh. gat um, verður innan skamms lagt fram frv. í Ed., sem fjallar um ungmennafræðsluna í kaupstöðum landsins, þar á meðal í Reykjavík. Nú er um tvennt að velja í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Annaðhvort verður að taka Reykjavík út úr hinu frv., eða taka unglingafræðsluna úr samskólafrv. En það er auðvelt fyrir þá nefnd, sem fær málið til meðferðar, að ráða fram úr þessum vanda, og skiptir ekki öllu máli, hvort ráðið er tekið.

Þó að nú verði séð fyrir ungmennafræðslu í Reykjavík með þeim hætti, sem lagt verður til í stjfrv., er samt eftir eitt atriði, sem ákvæði hinna almennu unglingafræðslulaga ná ekki til, og það er húsnæðismál nokkurra skyldra skóla hér í Reykjavík. Það er óhjákvæmilegt að byggja yfir nokkra skóla, sem hér eru reknir, og einkum þess vegna hefir mér alltaf litizt vel á þá hugmynd, að sameina í eina heild sem flesta eða jafnvel alla hærri skóla Reykjavíkur, ekki í eina byggingu, heldur í eina þyrpingu, svo þeir geti notið hver annars um marga hluti. Mér virðist það vera jafnsjálfsagt og að safna öllum skrifstofum ríkisins saman í eina byggingu. En það er örðugra að fá samkomulag í þessum efnum en mörgum öðrum, af því að fyrst og fremst þarf að ákveða, í hvaða hlutfalli kostnaðinum skuli skipt á milli einstakra félaga, bæjarfélags og ríkissjóðs. Þetta á einkum við um verzlunarskólann, ekki sízt af því að samvinnuskólinn er ekki talinn í frv., og ég get trúað því, að bezt væri málinu til framgangs að fella burt úr samsteypunni alla verzlunarfræðslu.

Annar aðalköstur við samskólahugmyndina er sá, að skólarnir geta notið kennslu sömu sérfræðinganna. Sumir skólarnir eru of litlir til þess að sérfræðingar geti við einn slíkan skóla haft nægilega kennslu, en af því leiðir, að sérfróðir menn eru látnir kenna greinar, sem þeir eru oft og tíðum fávísir um og hafa engan áhuga á. Ef skólarnir eru aftur á móti nálægt hver öðrum, eða jafnvel í sömu byggingunni, verður miklu hægara um vik bæði um kennsluna sjálfa og ýms tæki og áhöld, sem skólarnir hefðu sameiginlegan aðgang að.

Stofnkostnaði unglingaskóla í kaupstöðum er þegar ákveðið að skipta á milli ríkis og bæjar í hlutfallinu 2:3. — 3/5 hluta á viðkomandi bæjarsjóður að greiða, en ríkissjóður 2/5 hluta, hvort sem þetta frv. eða Ed.-frv. stj. er lagt til grundvallar. Um rekstrarkostnaðinn eru hinsvegar skiptar skoðanir. Í þessu frv. er ætlazt til, að ríkissjóður beri ¾ hluta af öllum kennaralaunum, en í Ed.-frv. er svo ákveðið, að ríkissjóður greiði vissan kennslustyrk á hvern nemanda. Mér virðist nú gilda einu, hvorri reglunni er fylgt. Venjulegast mun á Norðurlöndum, að kostnaðinum af unglingafræðslu sé skipt til helminga á milli bæjarsjóðs og ríkissjóðs. Og það mun láta nærri, að ¾ hlutar allra kennaralauna verði helmingur alls rekstrarkostnaðarins.

Ég hygg, að aðalástæðan fyrir því, að þessu máli hefir verið þunglega tekið, sé sú, að verzlunarskólinn og iðnskólinn eru teknir inn í frv. Það er auðvitað rétt og sanngjarnt að láta bæjarfélag Reykjavíkur bera hluta af kostnaðinum af sinni eigin iðnfræðslu, en einhvern styrk ætti þó ríkið að leggja fram vegna utanbæjarnemenda. Ég drap á það áðan, hvaða leiðir ég gæti hugsað mér, að farnar yrðu í sambandi við verzlunarskólann, sem sé annaðhvort að hafa hann alls ekki með í frv., eða að öðrum kosti að setja samvinnuskólann fullkomlega jafnfætis honum um styrkveitingu. — Það halda því margir fram, að einn skóli geti fyllilega annað verzlunarfræðslunni í landinu, og það kann rétt að vera. En við þurfum að taka tillit til þess, hvernig rás viðburðanna hefir verið, og hér hefir þróunin verið sú, að eðlilegt er, að verzlunarmenn hafi sinn skóla og samvinnumenn sinn skóla. Það er svo í öllum löndum, þar sem menn skiptast í harðvítuga pólitíska flokka um trúmál, verzlunarmál o. fl., að skólahaldi verður að haga nokkuð eftir því. Ég vil því brýna það fyrir hv. flm. þessa frv., að það er engin sanngirni að amast við því, að samvinnuskólinn fái sömu réttindi og verzlunarskólinn. Ég mun eins og áður fylgja þessu frv., með þeirri breyt., sem ég hefi talað um, sem sé að taka almennu ungmennafræðsluna út úr frv. og láta Ed.-frv. gilda um hana. Og ég er sannfærður um, að hvort sem frv. verður að þessu sinni samþykkt eða fellt, mun svo fara, að ýmsir skólar, sem nú eru því nær húsnæðislausir og sundurlausir, verða á sinni tíð sambyggðir og samstarfandi. Það er næstum eðlisnauðsyn og hlýtur að verða miklu ódýrara og haganlegra en það fyrirkomulag, sem við búum við nú.