19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla að minnast á tvær eða þrjár till., sem ég er riðinn við. Fyrst er það XV. brtt. á þskj. 302, frá mér og hæstv. forsrh., um 1200 kr. styrk til stúdents, sem stundar heimspekinám í París. Hann er bláfátækur, en hefir notið styrks hjá manni, sem nú getur ekki hjálpað honum lengur, vegna þess, að hann hefir misst heilsuna. En pilturinn er mjög duglegur og áhugasamur og hefir nú barizt áfram við nám í 10 ár, en vantar nú eitt ár eða hálft annað til þess að gefa lokið prófi. Það er von, að hann taki sárt, ef hann þarf að hætta, svo nærri leiðarenda sem hann er kominn. Þessi till. er borin fram til að koma í veg fyrir það. Um þetta nám, heimspekina; er það að segja, að hér er til öflugur sjóður handa mönnum, sem vilja helga sig henni. En styrk úr honum fá þeir fyrst, er þeir hafa lokið prófi; þá fá þeir styrk til framhaldsnáms. Og því fylgir það skilyrði, að þeir riti síðar á íslenzku og verði þannig þjóð sinni að gagni. Þetta er önnur ástæða til að verða við þessari litlu beiðni.

Þá er XL. brtt. viðvíkjandi öðrum stúdent, Eiði Kvaran, sem talsvert öðruvísi stendur á um. Hann hefir lesið sögu og mannfræði í München. Hann hefir fengið tæringarsnert og er búinn að liggja alllengi, í sjúkrahúsi í Sviss og verður að liggja lengi enn. Ég fer fram á, að honum sé veittur 1.500 kr. styrkur af því fé, sem ætlað er til berklavarna samkv. lögum frá 1921. Hæstv. stj. er ekki heimilt að borga þetta af því fé, nema hún fái heimild til þess, af því að maðurinn liggur ekki í sjúkrahúsi innanlands. En ef þessi stúdent fær ekki neinn styrk, liggur tæpast annað fyrir en að flýja heim. Og þá lendir kostnaðurinn á því opinbera. Því er stungið upp á, að honum séu greiddar 5 kr. fyrir hvern legudag. Það er sama og greitt er hér á Vífilsstöðum; þó má þetta ekki fara yfir 1.500 kr.

Ég bið hv. þdm. að athuga, að dvölin í sjúkrahúsinu í Sviss er miklu dýrari en hér. Þar verður að greiða 290 kr. á mánuði í legukostnað, en hér heima um 150 kr. Með þessu væri því aðeins létt undir með aðstandendum, en ekki greiddur allur kostnaður. Svipaðar till. hafa verið samþ. hér, um það að greiða kostnað, þó að menn liggi ekki í sjúkrahúsi. En það ætti ekki að spilla fyrir, þó að þessi maður sé í sjúkrahúsi erlendis.

Vafasamt er, að hann þýddi heimflutning, a. m. k. er líklegt, að hann þyrfti þá að liggja lengur. Mér sýnist sanngjarnast, og í rauninni að öllum líkum hagur fyrir ríkissjóð, að veita þennan styrk, ef borið er saman við það, að þessi maður kæmi heim til að liggja hér í sjúkrahúsi.

Þá átti ég eftir að minnast fáum orðum á brtt. XXXV, sem hv. samþm. minn (JS) er flm. að, því að hann er nú fjarverandi. Það eru 50 þús. kr. til raforkuveitu um Skagafjörð. Við 2. umr. var felld hér till. um meiri framlög í þessu skyni og ennfremur heimild fyrir stj. að ábyrgjast lán til fyrirtækisins. En nú förum við ekki fram á neina heimild til ábyrgðar í þetta skipti, Og hinsvegar höfum við lækkað upphæð styrksins. Ég skal hreinskilnislega segja, hver ástæðan er.

Við viljum fá yfirlýsingu þingsins um, hvort það vilji styrkja þetta fyrirtæki. Ef þingið sýnir ekki neinn vilja í þessu efni, óttumst við, að Sauðárkrókur fari að fást við sérvirkjun á lítilli á þar í nándinni. Þá væri þar með fyrirbyggt, að sveitirnar þar nyrðra gætu notið góðs af. Það verður allt of dýrt fyrir þær sveitir, sem hlut eiga að máli; að koma upp rafveitu einar saman. Ég fékk í gær að sitja á fundi hjá hv. fjhn., þar sem þetta mál bar á góma. Það voru, að því er mér skildist, hennar till., að nú þegar á þessu þingi væri veitt eitthvert fé í þessu skyni. Mig minnir helzt, að hún nefndi 150–200 þús., án þess að nefna, til hvers það ætti að fara; það ætti að ganga í sjóð, sem síðar yrði ráðstafað af Alþingi. Ég skal ekki segja, hvað ofan á kann að verða. En verði eitthvað slíkt ofan á, t. d. í Ed., því að fyrr getur það ekki orðið, þar sem þetta er 3. umr. fjárl. hér í deild, þá vil ég fyrir mitt leyti ganga inn á, að þetta verði fellt, en önnur fjárveiting komi í staðinn. En mér þykir viðurhlutamikið að reyna ekki þessa leið fyrir hönd Skagfirðinga, af því að ég óttast, eins og ég sagði áðan, að Sauðárkróksbúar fari að verða bráðlátir í þessu efni. Raftæki þeirra eru að verða ónýt, og ef þeir sjá, að ríkið muni ekki vilja hjálpa, hugsa þeir sér að virkja sjálfir út af fyrir sig.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa till., a. m. k. ekki fyrr en ég hefi heyrt undirtektir hv. fjvn.