19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1931

Hákon Kristófersson:

Ég á að þessu sinni tvær örlitlar brtt. á þskj. 302. Aðra þeirra, sem er undir XXIV. lið, flutti ég með hv. þm.. V.-Sk. Ég skal viðurkenna, að það er oft erfitt að flytja brtt., sem fara fram á styrk, og þá erfiðast, ef það eru styrkir til einstaklinga. Hæstv. fjmrh. sagði í dag, að flestar ef ekki allar þær till., sem fyrir lægju á þskj. 302, mundu þm. flytja að gamni sínu. Það er mjög óþarft og óviðkunnanlegt, að getsakir komi úr þeirri átt um það, hvaða tilhneigingar liggi bak við till. einstakra þm. Það er ekkert við því að segja, þó að brtt. séu felldar. En hitt, að stj. taki sér dómsvald yfir athöfnum þingmanna og slái því föstu, að þær komi af hinum eða öðrum miður viðeigandi ástæðum, sýnir bezt hvaða stórmenni það eru, sem við eigum nú í stj. á landi hér.

Fyrri till. mín fer fram á að veita síra Árna Þórarinssyni á Stóra-Hrauni 2.000 kr., eða til vara 1.500 kr., til ritstarfa. Þetta er háaldraður heiðursmaður, nú kominn á áttunda áratug, og mundi helzt hafa kosið að láta af embætti nú strax. Þegar menn hafa þjónað eins lengi og hann, eða full 45 ár, ætti þjóðfélagið að vera þess megnugt að geta leyst þá frá embættisstörfum, án þess að láta þá missa nokkurs í af launum sínum, svo að þeir gætu í ró og næði notið seinustu áranna á þann hátt, er þeir hefðu mesta ánægju af, og notið þó verðugrar hvíldar eftir langt og vel unnið starf. Ég býst við, að allir hv. þm. þekki þennan mann, annaðhvort af kynningu við hann sjálfan eða af orðapori. Það er á allra orði, hvað snilldarlega hann kann að segja frá, hvort sem er það, sem hann hefir sjálfur séð og heyrt, eða heyri frá annara vörum. Og full ástæða er til að treysta því, að honum láti ekki verr að segja frá í riti en ræðu. Hann á í fórum sínum ógrynni af þjóðlegum fróðleik, sem hann hefir að sér viðað um langt æfiskeið. Allir ættu að vita, hver munur er á verðmæti frumsagna og þeirra fræða, sem týnd eru saman úr bókum. Frumsagnir eru t. d. Íslendingasögurnar og aðrar slíkar frásagnir úr lífinu sjálfu. Það eru slíkar sagnir, sem hafa þótt svo merkilegar, að þær hafa t. d. verið sýndar á sjónleikum bæði utan lands og innan. En það er einmitt slíkt verðmæti, er hann á í fórum sínum í svo ríkum mæli. Ég trúi ekki; að hægt sé að telja því fé illa varið, sem veitt væri þessum ágæta fróðleiksmanni síðustu ár æfinnar, til þess að veita öðrum af nægtabrunni sínum.

Ég leyfi mér að lesa upp ummæli frá Sigurði Nordal, þessum heiðursmanni viðkomandi:

„Það er öllum kunnugt, sem nokkuð þekkja til síra Árna Þórarinssonar prófasts á Stóra-Hrauni, að hann er allra manna skemmtilegastur í viðræðum. Fer þar saman víðtækur fróðleikur, glögg athugun, hugsanafjör og frásagnarlist. Hefi ég oft hugsað um, hvílíkur skaði það væri, ef engar minjar sæjust eftir slíka hæfileika í bókmenntum vorum. Nú er mér tjáð, að síra Árni sæki um styrk til ritstarfa, til þess að skrásetja eitthvað af endurminningum sínu og öðrum fróðleik. Mér er sérstaklega ljúft að gefa þessari umsókn hans hin beztu meðmæli mín, ekki einungis fyrir fróðleik prófasts né fyrir langt embættisstarf, sem aðrir eru færari til að meta en ég, heldur einkanlega vegna þeirra ritstarfa, sem ég vona að honum endist tími til að inna af hendi“.

Vitanlega eru orð þessa merka fræðimanns mikið þyngri á metunum en það, sem ég læt um málið falla, og bið ég hv. þm. að athuga það, þegar þeir fara að meta þessa till. mína. Ég skal viðurkenna, að það getur e. t. v. verið þröngt fyrir dyrum ríkissjóðs, og ég er sízt að átelja, þó að farið sé varlega með fé hans. En hvað sem maður lítur í kringum sig, verð ég að segja, að mjög orki tvímælis, hvort þeirrar varúðar sé gætt eins vel og okkur þm. er bent á af hálfu hæstv. fjmrh., að við skulum gæta hennar. Hversu mikill sparnaðarhugur sem í hv. þingmönnum er, þá má hann ekki verða svo mikill, að hann geri skaða.

Spor, sem miða að aukinni menningu og menntun, verða ekki metin í hundruðum króna.

Ég læt þá útrætt um þessa till. Ég legg hana á vald hv. deildar og treysti, að hún sýni sanngirni þessum háaldraða heiðursmanni, eins og henni þykir viðeigandi, þegar hann á áttunda áratugi leitar eftir þessum örlitla styrk. (BÁ: Og er það víst, að hann lifi ekki nema 2–3 ár ennþá?) Hv. þm. Mýr. spyr, hvort það sé víst, að hann lifi ekki nema 2 eða 3 ár. Ég veit ekki af hverju þm. spyr. (Rödd: Já, á hvaða reikningum byggist það?). Og það var einhver, sem tók undir þetta hinum megin. Ég var ekki að slá fram neinu vissu. Ég sagði þetta aðeins lauslega, eftir því sem hægt er að geta sér til eftir gangi lífsins. Þessir hv. þm. geta farið í svo föst faðmlög sem þeir vilja, til að gera „grín“ að þessum ummælum mínum. Þeir hafa lengi faðmast og mega lengi faðmast áfram; ég hygg, að þeir ... (ÓTh: Ekki fer hv. þm. Mýr. að faðma þessa kámugu vergangsmenn). Nú, ég skal ekki fara inn á það. Í þörf er þrællinn þekkastur. Svo getur þörfin orðið mikil, að kámið verði þá ekki sýnilegt. (MJ: Hann kemur þá bara í sápuna á eftir). Ég var ekki að meina neitt til sérstakra manna. (Forseti: Ekki samtal). Ég vildi aðeins skýra þetta fyrir hæstv. forseta, því að mér sýndist hann líklegur til að slá í bjölluna. (Forseti: Ekki gagnvart hv. þm., heldur af því, að aðrir glepja mál hans). Það gleður mig að heyra.

Þá á ég aðra lítilfjörlega till. við 18. gr. II. i. Þar er misritun: „200“ fyrir 300 kr. Ég vona, að hægt sé að leiðrétta hana. Annars ætlaði ég ekki að tala mikið um þessa till. Ég læt hv. dm. um það, hvað þeir gera við hana. Hún skýrir sig sjálf. Aðeins get ég sagt, að þar er mjög erfiður efnahagur fyrir hendi. Ég læt svo úttalað um þessar brtt. mínar. Og ég vil ekki gera mig að neinum dómara um, hvað aðrar brtt. eigi mikinn rétt á sér. Það er eins og gerist og gengur, að sínum augum lítur hver á silfrið, og virðist nægja, að hver þm. sýni skoðun sína með atkv. sínu.