11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (911)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég ætla ekki að fara að elta ólar við hv. frsm. minni hl., enda voru ummæli hans að mestu ádeilulaus, nema þau, er hann hafði um ágreining nefndarhlutanna, og þar skaut hann svo langt yfir markið, að hvergi kom nærri.

Ég mun ekki svara útúrsnúningum hv. þm. um bókunina, enda er það aukaatriði í málinu.

Mér finnst í raun og veru það vera mjög eðlileg krafa til þeirra héraða og bæja, sem að hafnarmannvirkjum standa, að þeir fórni einhverju verulegu til hafnarbóta. Það má ekki ætlast til, að ríkissjóður taki að sér allan slíkan vanda og ábyrgð, enda þykist ég vita, að það sé ekki fært að taka slíka ábyrgð í eins stórum mæli og áður hefir verið, og muni draga til þess, að það verði að takmarka slíkar ábyrgðir. Hefir það líka komið fyrir, eins og áður hefir sýnt verið, að þetta hefir verið misnotað. Ég hefi ekkert að athuga við það, sem hv. frsm. minni hl. sagði um þær sérstöku ástæður til þess, að byggja þyrfti höfn á Sauðárkróki; ég álít, að þar sem þessi staður hefir lengi beðið eftir hafnarbótum, þá eigi hann jafnvel að ganga fyrir ýmsum öðrum, sem hafa farið þess á leit að fá styrk í þeim tilgangi, og mér skilst, ef ég man rétt skýrslu þá, sem fylgdi málinu á síðasta þingi, að þetta verk geti komizt í framkvæmd með þeim atbeina ríkissjóðs, sem meiri hl. n. leggur til að veittur verði.