11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (912)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Sigurðsson:

Ég get þakkað hv. frsm. meiri hl. n. fyrir það, að hann viðurkennir þó, að það sé líklegast meiri þörf hafnarbóta á Sauðárkróki heldur en víðast annarsstaðar, en því miður getur þakklæti mitt ekki náð öllu lengra. Hv. meiri hl. n. leggur sem sé til að færa þann styrk, sem ríkissjóður á að veita, ekki einasta úr 2/5 ofan í 1/3, heldur líka að takmarka þá ábyrgð, sem ríkissjóður á að taka að sér og venjulegt er að sé fyrir hinum hluta kostnaðarins, við aðeins 1/3. Afleiðingin af þessu hlýtur óhjákvæmilega að verða sú, að þessi hafnarbót getur ekki komizt á, a. m. k. um langt skeið, og þær ástæður, sem til þess liggja, eru fyrst og fremst þær, að íbúar þessa kauptúns eru flest sveitamenn, fátækir menn, sem hafa setzt þarna að. Þeirra hlutverk hefir fyrst og fremst verið það, að koma upp skýli yfir höfuðið á sér, og það er engin von til þess, að kauptún, sem eru að smávaxa upp, hafi ástæður til að mynda sér hafnarsjóði, sem nemi hundruðum þúsunda, og það er heldur ekki þess að vænta, að þau geti af eigin rammleik leitað á erlenda markaði og fengið þar lán, en það má búast við, að þess muni þurfa. Það hefir reynzt svo, að jafnvel stærri bæjarfélög, eins og t. d. Akureyri og jafnvel Reykjavík, sem leitazt hafa fyrir um slíkt, hafa átt fullerfitt í þeim efnum.

Hv. frsm. meiri hl. skaut því inn í, að það væri Skagafjarðarsýsla, sem stæði þarna á bak við. Það er að vísu svo, en ég býst við, að það verði nokkuð erfitt að gera útlendingum skiljanlegt, hvers virði ábyrgð sýslunnar er; það eru aðeins þeir fáu útlendingar, sem eru kunnugir hér heima, sem kunna að meta það, en annars geri ég ráð fyrir, að það hafi ekkert að segja.

Hafnleysið, sem Sauðárkróksbúar hafa við að stríða, gerir það að verkum, að bátaútvegurinn getur ekki þrifizt þar í stórum stíl; bátum hefir fjölgað þar mjög mikið, en það er svo, að bátarnir, einkum hinir stærri, liggja þar undir stóráföllum sökum hafnleysis. Svo er þriðja ástæðan, sem gerir það að verkum, að ekki er auðgert fyrir slík kauptún að koma sér svo fyrir fjárhagslega, að þau geti uppfyllt þau skilyrði, sem hv. meiri hl. n. hefir sett, og það er það, að þar sem kaupstaðir með ágætum höfnum liggja skammt frá, þá er það svo, að þeir, eins og Siglufjörður og Akureyri, sjúga merg og blóð úr kauptúnum við Skagafjörð. Þar, sem góð eru hafnarskilyrði og fleiri möguleikar til ýmsra framkvæmda, verður það svo, að þangað leita duglegustu mennirnir og hverfa frá hinum lakari stöðum. Það gildir í þessu falli það sama og fyrir ýms fleiri kauptún, en allt þetta samanlagt hjálpast að því að gera það ókleift að uppfylla þau skilyrði, sem hv. meiri hl. hefir hugsað sér að setja, og ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að hv. meiri hl. n., sem ætti þó að vera kunnugt um þessa staðreynd, skuli hafa snúizt á þessa sveif.

Það eðlilegasta í þessu máli teldi ég það, að þingið sneri sér að því að styrkja ríflega eina höfn í hverju héraði, þar sem hafnleysi er fyrir, og að mínu áliti er þetta bókstaflega nauðsynlegt. Í fyrsta lagi er það svo, að ef þetta er gert, þá skapast aukin atvinna á Sauðárkróki og öðrum stöðum, þar sem líkt hagar til fyrir bátaútveg og fyrir aukinn smærri atvinnurekstur. Í öðru lagi með því að hjálpa til þess með ríflegum fjárframlögum og ábyrgðum, að hafnir geti komið upp við þessi hafnlausu héruð, er komið í veg fyrir það, að fólkið þyrpist úr þessum kauptúnum og óeðlilega mikið í kaupstaðina. Núna er það svo, að fólksstraumurinn er yfirgnæfandi í 4–5 kaupstaði á landinu. Þangað sækir fólkið, og eðlileg hækkun á verði á lóðum og löndum þessara staða og vaxandi dýrtíð þar verður bein afleiðing þessa aðstreymis fólks á fáa staði. Eins og okkur sveitamönnunum er kunnugt, streymir fólkið úr sveitunum, fer fyrst í kauptúnin og stanzar þar eitthvað í byrjun, en kauptúnið heldur fólkinu aðeins skamma stund, svo streymir það þaðan í kaupstaðina, og með þessu móti tapast fólkið héruðunum að fullu. Það er þó út af fyrir sig, þótt nokkuð af því fólki, sem vex upp í sveitunum, flyttist í kauptúnin í héraðinu, fengi sér þar atvinnu og stæði í sambandi við héraðið með að fá þar atvinnu, og í öðru lagi er það mikilsvert fyrir héraðið að njóta viðskipta alls þessa fólks, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af því, ef það sezt þarna að til fullnustu; við þurfum ekki annað en að benda á Eyjafjörð og Akureyri og bera aðstöðuna jafnframt saman við þá, sem er í Húnavatnssýslu og Skagafirði. Það er svo geysilegur munur á aðstöðu til markaðs o. fl., og dettur þó sjálfsagt varla nokkrum í hug að halda því fram, að Eyjafjörður sé meiri búsældarsveit heldur en Skagafjörður og Húnavatnssýsla. Nei, það er höfnin, sem þar er og á sinn mikla þátt í því, að ástandið er eins og það er.

Mér virðist líka af því, sem hæstv. stj. segir í ástæðunum fyrir frv. til hafnargerðar á Skagaströnd, að það muni eitthvað svipað hafa vakað fyrir henni, og vil ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkuð upp úr nefndri grg. Þar segir m. a.:

„Stjórnin er á þeirri skoðun, að það sé þýðingarmikið mál fyrir aðliggjandi héruð og landið í heild sinni, að góð höfn væri á hentugum stað við Húnaflóa austanverðan, sem nú er hafnlaus. Frá höfn á Skagaströnd mundi verða gott samband við héruðin í Húnavatnssýslu, þar sem nú er orðið mikið af bílfærum vegum. Og sem síldveiðahöfn mundi Skagaströnd sjálfsagt geta haft mikla þýðingu. Útflutningur á kjöti er einnig mikill úr Húnavatnssýslu, og yrði það til mikillar tryggingar fyrir kjötútflutninginn, einkum á frystu kjöti, að fá góða höfn á Skagaströnd“.

Þarna er verið að mæla fyrir því, að Húnaflói fái eina góða höfn, og það verð ég að segja, að mér finnst það í alla staði eðlilegt, enda tók þingið svo undir það mál, að það samþ. slíka hafnargerð og ákvað að veita sama fjárframlag til þeirrar hafnargerðar og við þm. Skagf. förum fram á, að veitt sé til hafnargerðar á Sauðárkróki. Eins og mörgum er kunnugt, er hér ekki um neitt nýtt mál að ræða. Ég vil minna á það í sambandi við hafnargerðina á Sauðárkróki, að hæstv. stj. bar fram frv. til 1. um hafnargerð á Skagaströnd, en þar var tillag ríkissjóðs ekki 2/5 kostnaðar, heldur helmingur, og það var heldur ekki ætlazt til, að ríkissjóður ábyrgist aðeins 1/3, eins og hv. meiri hl. leggur til, og heldur ekki ætlast hún til, að ríkissjóður ábyrgist ½ kostnaðar. Ríkið átti ekki að ábyrgjast 350 þús. kr., heldur átti viðlagasjóður að lána 350 þús. kr. til hafnargerðarinnar. Þetta eru till. stjórnarinnar í málinu. En þingið vildi ekki ganga svona langt og breytti þessu þannig, að framlagið yrði 2/5 og ábyrgð ríkissjóðs fyrir 3/5, en þetta er nákvæmlega það sama og við förum fram á. Eins og þegar hefir verið tekið fram, tók Nd. afstöðu til hafnarlaga fyrir Sauðárkrók á síðasta þingi, og það var samþ. með nafnakalli að verða við þessum óskum, með því að fella tillögu, sem fór fram á að hækka það tillag, sem Sauðárkrókur legði fram.

Mér verður þess vegna að spyrja: Hvað veldur þessum veðrabrigðum? Eru einhver þau sérstök skilyrði á Skagaströnd, sem ekki eru annarsstaðar og sem réttlæti það, að þeir eru settir við annað borð heldur en þau héruð, sem ekki er vitanlegt annað um en að þau hafi nákvæmlega sömu aðstöðu? Ég hefi þess vegna leyft mér að gera ofurlítinn samanburð á Skagaströnd og Sauðárkróki. Sá samanburður er í þrem liðum. Mannfjöldi á Skagaströnd mun vera 200 manns, eða tæplega það; það er ekki hægt að fá nákvæmt manntal þar, vegna þess að kauptúnið er ekki sérstakur hreppur. Mannfjöldi á Sauðárkróki var árið 1928 rúmlega 720 manns. Frá Skagaströnd gengu í sumar 10 mótorbátar, en 12 frá Sauðárkróki. Innfluttar vörur á Skagaströnd voru árið 1929 samtals fyrir 166 þús. kr., en á Sauðárkróki tæplega 900 þús. Og þótt við gerum ráð fyrir því, að höfn verði byggð á Skagaströnd og að þangað flytjist nær því helmingur af þeirri verzlun, sem nú er á Blönduósi, myndi umsetningin samt ekki verða meira en rúmlega ½ millj. kr. Af þessum samanburði og umr., sem urðu um Skagastrandarhöfnina, hlýtur öllum að verða það ljóst, að þar eru engar ástæður fyrir hendi, er réttlæti, að Skagaströnd sé tekin út úr, eins og nú á að gera, og að Sauðárkrókur á ekki síður rétt á að njóta þessa styrks eða stuðnings heldur en Skagaströnd.

Sú ástæða, sem sérstaklega var hampað í umr. í fyrra um Skagaströnd, var það, að Húnavatnssýsla væri hafnlaus og þess vegna nauðsynlegt fyrir hana að fá örugga höfn. Þessu skal ég manna sízt mæla á móti, en úr því að hér er viðurkennd þörf og réttur til hafnarbóta af þessum ástæðum, verður að viðurkenna, að Skagafjörður hafi sama rétt og kröfu á sama stuðningi og Skagaströnd.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í sinni ræðu, að handahóf hefði ráðið í þessum efnum, sem þó væri hættulegt, o. fl. þess háttar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að taka þykkjuna upp fyrir hæstv. stj., en mér finnst það meira en hlálegt af þessum hv. stjórnarstuðningsmanni að fara að tala um handahóf á frv., sem stj. hefir undirbúið og borið fram og gengið hefir í gegnum báðar þingdeildir og verið samþ. af honum. En það furðulega er, að nú fyrst kemur þessi hv. þm. auga á handahófið. Það er nú svo, að þetta er nálega einasta frv., sem flutt hefir verið um hafnargerð fyrir kauptún, og ég verð þess vegna að líta svo á, að þar sem þetta mál var það einasta af þeim, sem undirbúið hefir verið af stj., sé nokkuð langt gengið að kalla það handahóf, en okkar frv. er nákvæmlega sniðið eftir frv. um hafnargerð á Skagaströnd, þar sem ekki voru sérstakir staðhættir, sem gerðu afbrigði nauðsynleg. Ég vænti nú þess vegna, að þegar menn hafa athugað þetta mál og borið saman þær ástæður og þörf, sem færðar voru með frv. því, sem þingið samþ. í fyrra, og því, sem hér liggur fyrir, þá verði menn að viðurkenna, að það sé í alla staði réttmætt að samþ. þetta frv. og að það eigi fram að ganga.

Að endingu vil ég minna hv. þdm. á það, að hér er ekki einasta að ræða um það að skapa kauptúninu betri aðstöðu og aukin þægindi, heldur er líka um það að ræða að auka að miklum mun lífvænlega atvinnuvegi, sem margir hinna fátækari manna geta notfært sér, svo að þeir geti orðið sjálfstæðir atvinnurekendur. Í öðru lagi er það, að hafnargerð fyrir jafnstórt hérað og þarna er um að ræða hefir stórmikla þýðingu fyrir landbúnað héraðsins. Þetta er ekkert kauptúnamál; það er alveg jöfnum höndum stórmikið hagsmunamál fyrir bændur þessa héraðs, sem þarna eiga hlut að máli.