11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (915)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Hannes Jónsson:

* Hv. 1. þm. Skagf. tók það fram, að með þessu frv. væri ekki farið fram á fjárframlag úr ríkissjóði til þessa fyrirtækis, heldur væri það áætlun um það, hvað gera skyldi í nánustu framtíð. En ef ekki yrði ráðizt í þetta mannvirki — við skulum segja í næstu 5 ár, hvers vegna er þá svo nauðsynlegt að setja lög um þetta nú? Gæti það ekki beðið í nokkur ár, og þangað til líkur væru til þess, að hægt væri að útvega fé í þessu augnamiði ?

Bæði 1. og 2. þm. Skagf. flytja frv. um stórmikil fjárframlög til raforkuveitna í sveitum. Á þá að setja það mál á hakann til þess, að hægt sé að koma þessu hafnarmáli í framkvæmd? Á að ganga á framkvæmdir í atvinnumálum til þess að koma á höfn á Sauðárkróki, Akranesi og víðar, eftir því sem menn óska eftir?

Hv. 1. þm. Skagf. segir, að lítið sé upp úr því að leggja, sem ég segi um hafnarbætur eða lendingarbætur á Skagaströnd. Þó komst hv. þm. svo að orði í sambandi við þá brtt., sem hann flutti í fyrra, að þar vekti fyrir honum svipað og mér, en ég hafði tekið fram, hvað ég áleit um það, að óvíst væri, að Austur-Húnavatnssýsla hugsaði meira um hafnir en að fá lendingarbætur. Ég er einmitt viss um, að þrátt fyrir þann mikla styrk og þau lán, sem þeir eiga nú að fá eftir lögum, sé mikið vafamál, að þeir láti sér detta í hug stórfelld hafnarmannvirki næstu 10–20 ár.

Hv. þm. var undrandi yfir því, að ég skyldi vilja gerast fjárráðamaður héraðanna þar fyrir norðan. Ég held nú, að þm. séu að nokkru leyti fjárráðamenn þjóðarinnar. Ég er ekki viss um, að það sé svo heppilegt að gera miklar framkvæmdir í einstökum héruðum með því að taka ábyrgð á kostnaðinum. Það verður oft til þess, að þessi vissu héruð geta ekki risið undir kostnaði þeim, sem leiðir af framkvæmdunum.

Hér hefði verið betra að gera það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði hér á þingi, að nota Suðurland sem nokkurskonar tilraunadýr í ýmsum framkvæmdum.

Það væri ef til vill hreinlegast, að ríkissjóður legði fram sem lán það fé, sem þyrfti til slíkra hafna, sem hér ræðir um. En það væri samt sem áður ekki rétt. Þó að einstöku héruð gætu klofið þann kostnað, þá gætu fámenn héruð það alls ekki. Væri því fé miklu betur varið til að gera lendingarbætur víðsvegar í kringum land, vegna þess, að strendur Íslands eru mjög langar, samanborið við fólksfjölda, og hljóta því að vera víða ófullkomnar hafnir.

Ég ætla svo ekki að gera fleiri aths. við ræðu hv. 1. þm. Skagf. Ég tel mig hafa fyllsta rétt til að benda á hættu þá, sem af þessum framkvæmdum getur stafað, ekki eingöngu fyrir ríkissjóð, heldur líka fyrir héruð landsins. Það getur vel komið fyrir og hefir gert það, að fallið hafa á ríkissjóð ábyrgðir í einstökum héruðum á landinu.