11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (916)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Ólafsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. V.-Húnv. — Það skein út úr orðum hans, að ef þetta frv. yrði samþ., yrði það til þess, að aðrar framkvæmdir ríkissjóðs yrðu að sitja á hakanum. Þar er því til að svara, að þegar um það er að ræða, að einhverju fé úr ríkissjóði sé varið til framkvæmda, lítur þingið alltaf á þá hlið málsins, sem snýr að velferð þjóðarinnar. Þingið lítur á það, hve mikið þær framkvæmdir, sem féð á að fara til, geta orðið til að lyfta undir hag þjóðarinnar. Nú er það svo með þær framkvæmdir, sem að sjónum lúta, að þar er tvennskonar hagsmuna að gæta, bæði fyrir hérað það, sem þær snerta helzt, og svo landið. Þá eru það auðvitað fyrst og fremst fiskiveiðarnar, sem dæmt er eftir, því að þær eru svo mikils verðar. Ég man ekki betur en á síðasta þingi, þegar verið var að tala um hafnargerð á Skagaströnd, væri það tekið réttilega fram, að hún væri nauðsynleg vegna þess, hvað góð fiskimið væru á flóanum. Á Sauðárkróki er líkt ástatt. Þar er erfitt að stunda útgerð, af því höfnina vantar. Þetta þykist ég vita, að hv. meiri hl. n. hafi tekið til greina, og ég vona, að hann skilji, að hér er að ræða um bæði aukna möguleika til fiskiveiða og bættar samgöngur. Ég vona, að hv. 4. þm. Reykv. hafi skilið þetta vel. Það var alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri sama og að kveða þessar framkvæmdir niður, að ætla viðkomandi héraði að leggja 2/3 til þeirra, og lánið þar að auki svo lágt. Ég skal nefna það til samanburðar, að þegar byrjað var fyrst á hafnargerð hér í Reykjavík, sem mátti þá heita öflugur bær, hefði það verið ókleift nema með aðstoð ríkissjóðs með ábyrgð.

Ríkissjóður verður að taka þarna á sig ábyrgð og meta, hvað hátt lán má bjóða héraðinu, því að ekki má ganga þar of langt, og ekki má leggja í meira en það getur staðið straum af. Þinginu er engin vorkunn, þegar til framkvæmdanna kemur, að meta, hvort viðkomandi hérað hefir ráð á þessu ellegar ekki.

En það er alveg víst, að með þessu móti, þ. e. ef ríkið ætlar aðeins að leggja fram 1/3 hluta, er þetta gert ómögulegt með öllu. Mér þætti miklu betur ráðið, að ríkissjóði væri heimilt að ganga í hærri ábyrgðir fyrir hlutaðeigandi héruð, hvað sem svo væri um framlagið frá ríkinu. Því að það veltur ekki á svo ýkjamiklu, ef á annað borð þykir fært að ráðast í byggingu hafnarmannvirkja. En hitt veltur á mestu, hvort ríkissjóður sér sér fært að leggja fram ábyrgðir fyrir því fé, sem taka þarf að láni í þessu skyni.

Till. hv. meiri hl. er því sama sem að ráða af dögum hugmyndina um hafnargerð á þeim stöðum, sem hér um ræðir. Ef haft verður það fyrirkomulag, sem hv. meiri hl. stingur upp á, verður um ófyrirsjáanlegan tíma ómögulegt að ráðast í slík fyrirtæki á þessum stöðum.

Þótt hér sé talað um það, að ríkissjóður sé í miklum ábyrgðum, þá er það mín skoðun, að engan þurfi að iðra að hafa gengið í þær. Svo mörgu góðu hefir verið til leiðar komið með hjálp þeirra. Þegar ráðast á í stórvirki eins og rafmagnsvirkjanir, hafnargerðir o. fl., verður ríkissjóður að ljá nafn sitt til ábyrgðar, til þess að nægilegt fé fáist. Vitanlega verður það hverju sinni að vera gert að vel yfirlögðu ráði um það, hvort rétt sé að ráðast í þetta fyrirtæki. Öðru máli er að gegna um smærri framkvæmdir, eins og t. d. bryggjugerðir. Má ætla, að viðkomandi staður geti jafnaðarlega útvegað fé til þeirra í landinu sjálfu, en það á ekki við um hafnargerðir. Lánsstofnanir innanlands hafa ekki nægilegt fé til að leggja í slíkt, og því verður að leita lána erlendis. En þá er ríkisábyrgð nauðsynleg.

Ég er óánægður með það, að hv. meiri hl. vill hér fara að leggja inn á nýja braut, sem er sama og að kveða niður allar framkvæmdir í þessa átt, hversu nauðsynlegar sem þær eru.