11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (917)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Sigurjón Á. Ólafsson:

Mönnum hefir orðið næsta tíðrætt um nál. þau frá sjútvn., sem hér liggja fyrir, um hafnargerð á Sauðárkróki og tvær aðrar hafnargerðir, sem einnig eru á dagskrá í dag á eftir þessari. Frv. þessi eru öll svo nátengd hvert öðru, að ekkert skilur á milli. Ef málið ætti að ræðast á breiðum grundvelli, þyrfti því að taka þau öll til meðferðar í einu. En þar sem það er aðeins frv. um hafnargerð á Sauðárkróki, sem hér liggur fyrir að sinni, mun ég reyna að halda mér aðallega að því. Það vil ég þó taka fram, að samþykkt eins frv. í sjútvn. byggist á afstöðunni til hinna, því að þörfin er mjög álíka á öllum þessum stöðum, og því ekki hægt að gera upp á milli þeirra.

Skal ég þá snúa mér að því að skýra frá afgreiðslu málsins í n. Það er sjaldan nema hálfsögð sagan, þegar einn segir frá. (MG: Það eru nú tveir búnir að segja þessa sögu). Jæja, það verður þá hlutverk þess þriðja að koma sannleikskórónunni á frásögn þeirra. — Eins og nál. ber með sér, hefir afgreiðsla málsins í sjútvn. orðið með dálítið sérstökum hætti. Það mun nú vera venja í nefndum að lesa frv. rækilega yfir og sjá, hvað má lagfæra í þeim, áður en tekið er til ákvarðana. Það var ekki gert í sjútvn. um þetta mál, og var það fært til, að þetta mál hafi legið hér fyrir í fyrra og þá verið rækilega athugað, heldur kom fram till. um það á fyrsta fundinum, sem hafði hafnargerðamálið til athugunar, að vísa þessum frv. öllum til stj. En sú till. varð brátt úr sögunni, því að hún fékk ekki nema tvö atkv. með sér, tveir voru á móti henni, en einn greiddi ekki atkv., og var það ég. Eins og sjá má á bókun n., lýsti ég yfir því, að ég gæti ekki. greitt atkv. um málið alveg óathugað, og satt að segja áleit ég sjútvn. ósamboðið að afgreiða málið svo flausturslega. En nú skal ég einnig upplýsa annað, sem ekki var bókað. — Það er það, að till. á þskj. 236 eru alls ekki eins fráleitar hv. minni hl. eins og hann vill nú láta líta út fyrir. Hv. form. sjútvn. hafði eitthvað verið að tæpa á þeim till., sem nú eru bornar fram af meiri hl. n. Þá gengu þeir hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. G.-K. á hv. formann og margþýfguðu hann um, hvort hann vildi fylgja þeim um þessar brtt., en þá var það hv. form., sem dró sig inn í hýði sitt. (ÓTh: Mér sýnist þetta vera hallmæli um hv. form., en ekki um okkur). Þetta er satt frá skýrt. — Síðan rýkur hv. minni hl. af fundi, án þess að málið sé nokkuð rætt. Og ég verð að bæta því við um hv. 2. þm. G.-K., að hann hefir komið á fundi sjútvn. í vetur eins og þegar kría sezt á stein, heimtað þetta frv. fram og hitt frv. fram, frá engu mátt ganga nema hálfköruðu. Nefndin hefir átt að hoppa inn á hitt og þetta alveg eftir geðþótta hans. En sem betur fer er sjútvn. Nd. ekki svo skipuð, að hún láti hv. 2. þm. G.-K. ráða störfum sínum.

Þá vil ég víkja að stefnu þeirri, er fram kemur í nál. Það er rétt, að á þingi í fyrra var ekki almennt samkomulag um tillögurnar. Ég hafði þá fyrirvara og kom með brtt. Gat ég ekki fallizt á þessa nýju leið, að ríkið legði fram 2/5 hluta kostnaðar. Ég sá það, að fljótt mundi fyllast sá mælir, sem geta ríkissjóðs leyfir, ef hann ætti að bera svo mikinn hluta kostnaðarins af hafnargerðum. Kröfurnar um framlag til hafnarberða berast svo víða að, og er erfitt að gera upp á milli þeirra. Og þar sem hér er aðeins um heimildarlög að ræða, sem verða að bíða framkvæmdar unz fjárlagaveiting kemur til, var það mín skoðun, að til lítils væri að hrúga upp slíkum pappírslögum, sem litlar horfur væru um framkvæmd á í fyrirsjáanlegri framtíð. — Gamla reglan um framlag til hafnargerða var sú, að ríkissjóður legði til ¼, sem síðar hækkaði upp í 1/3, og í fyrra var samþ. að leggja 2/5 til hafnargerðar á Skagaströnd. Var það fóðrað með því af forvígismönnum málsins, að hér væri um lendingarbót að ræða jafnframt. Ég var þessu raunar ekki sammála, en þó mun hafa farið svo að lokum, að upp úr frv. mun sennilega aldrei hafast meira en lendingarbót á þessum stað, eins og hv. 2. þm. Skagf. benti á á sínum tíma — En þegar framlagið úr ríkissjóði er orðið svona hátt, fer það að verða getu hans ofvaxið. Í þeim þrem frv., sem hér liggja fyrir, er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram nærri 900 þús. kr. og ábyrgist rösklega 1 millj. króna lán. Þetta eru nú ekki svo ýkjaháar upphæðir, einar út af fyrir sig. En hv. 1. þm. S.-M. hefir bent á það, hversu mikið af ábyrgðum nú er komið á könnu ríkissjóðs, og það gerir mann deigan við að halda áfram á þessari braut. Enda mun það ekki fjarri sanni, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að allar þessar ábyrgðir séu teknar að spilla lánstrausti ríkisins. — (JJós: Þessi hv. þm. á sjálfur till. um nýja ábyrgðarheimild fyrir Alþingi). Til þess verður hann að svara sjálfur.

Það má segja, að nokkur stefnubreyt. hafi orðið hjá mér í þessu máli frá því í fyrra, þar sem ég tek nú þátt í að bera fram þá till., að ríkissjóður ábyrgist aðeins helming lána þeirra, sem viðkomandi hafnarsjóðir kunna að þurfa að taka. Það hefir verið sagt, að þetta þýddi það, að engar framkvæmdir gætu orðið um hafnargerðir. Ég vil nú rengja þessa skoðun. Það er mín hyggja, að ef viðkomandi kauptún og sýslufélög leggjast á eitt, þá eigi þau alveg eins hægt með að fá þennan hluta lánsins upp á eigin spýtur, eins og þótt ríkisábyrgð væri. Því að það er alls ekki heimtað eftir till. meiri hl., að framlag hafnarsjóðsins komi í beinhörðum peningum frá hlutaðeigendum sjálfum, heldur mega þeir alveg eins útvega féð að láni. Það er mín spá, að þessi lög verði ekki framar eintóm pappírslög, ef farið er að till. meiri hl., heldur verði þá víða um land undinn bráður bugur að framkvæmdum á þessu sviði.

Hv. 2. þm. Skagf. benti á margt um nauðsyn þessa máls, og dettur mér ekki í hug að þrátta við hann um það. Mér er fyllilega ljós þýðing hafnargerða.

Þó er vitanlega munur á þörfinni á ýmsum stöðum. Fram til þessa hefir það verið síður að leggja ekki í fyrirtæki eins og hafnargerðir fyrr en svo margir menn hafa safnazt saman á þeim stað, þar sem í þær er ráðizt, að öruggt megi teljast um fjárhagsafkomu fyrirtækisins. Ég efast nú stórlega um, að 600 manns sé nægur fjöldi til þess að ávaxta aðra eins upphæð og hér á að leggja í hafnarmannvirki. (JS: Heldur hv. þm., að Skagfirðingar séu ekki fleiri? — PO: Hann heldur að fólksfjöldinn í Skagafirði sé á 7. hundrað). Ég segi, að venjan hafi verið þessi, að láta fólkið fyrst hópast saman, og leggja síðan í mannvirkin á eftir. En hér er farið fram á að snúa þessu við, og byggja fyrst höfnina. Ég skal nú ekki segja, að út af fyrir sig sé neitt á móti þessari reglu. Það gerir staðinn byggilegri og betra að setjast þar að, og hlýtur að hafa það í för með sér, að fólkið hópast þangað. Þó að þetta hafi ýmsa kosti, sýnist mér það vera nokkuð varhugavert frá sjónarmiði bóndans, og illt fyrir þjóðarheildina, ef byggja á á sjávarútveginum einum saman. Þótt það sé góð atvinnugrein, koma þó fyrir ár og ár öðruhverju, sem útvegurinn ber sig illa. (JJós: Ekki fyrir útgerðarmenn, eftir skoðun hv. þm.). Það virðist nú sjaldan kreppa að í þeirra búi, þótt aðrir svelti. — En sé litið á þetta mál frá sjónarmiði bænda í Skagafirði sérstaklega, þá er það auðvitað rétt, að þeir þurfa einhvern stað, þar sem þeir geta komið burtu afurðum sínum. En ég vil í því sambandi minna á, að í Skagafirði eru fleiri hafnir en aðeins Sauðárkrókur, Grafarós, Hofsós og Kolkuós eru allt góðar hafnir í flestum áttum, og má hafna sig í einhverri þeirra, þegar ekki er hægt að komast á Sauðárkrók. Skagafjörður er því ekki líkt því eins illa settur og t. d. Húnaflói norðanverður. Þegar Borðeyri sleppir eru yfirleitt afleitar hafnir við Húnaflóa og mikill hluti héraðsins er mjög illa settur um útflutningshafnir. Því er alveg ósambærileg þörfin á þessum tveim stöðum, þótt hinu verði að sjálfsögðu ekki mótmælt, að gott sé að fá aukin lífsþægindi fyrir þá, sem þar búa.

Mismunurinn á till. meiri og minni hl. sjútvn. um þetta mál er kannske ekki ýkjamikill í augum sumra hv. þdm., þar sem við í meiri hl. viljum, að ríkissjóður leggi fram bæði allmikla fjárhæð og ábyrgð á verulegum hluta kostnaðarins. Þó er það svo, að á þessum þrem hafnargerðum munar það nálægt 500 þús. kr., ef teknar eru saman ábyrgðirnar og framlögin.

Á það hefir verið bent, að stefna sú, er fram kemur hjá hv. fjvn. um styrk til lendingarbóta, er ekki með öllu óskyld till. okkar. Þar er um allríflegt framlag að ræða, en enga ábyrgðarheimild. En oft er ekki svo sérlega mikill munur á lendingarbótum og hafnargerð. Hv. 2. þm. G.-K. sækir t. d. um styrk til bryggjugerðar í Keflavík. Það yrði talið falla undir lendingarbætur, svo að aðeins getur orðið um styrk að ræða, en enga ábyrgð. Samt kemur þessi. bryggja í stað hafnar í Keflavík. (PO: Segir hv. þm., að bryggjan komi í stað hafnar?). Já, það er ætlazt til, að hægt verði að afgreiða þar stór skip. (PO: Bryggja í stað hafnar!??). Já, þetta er engin fjarstæða, því að þarna verður öruggt, nema kannske í einni átt. — Hv. fjvn. ber einnig fram till. um ýmsar meiri háttar bryggjugerðir, sem svipað er um að segja og ég sagði um Keflavík. (MG: Þetta er allt til umr. á morgun). Að vísu, en það er rétt að benda á það hér, að þegar kostnaðurinn við lendingarbætur er farinn að skipta tugum þús. króna, er ekki svo mikill munur á þeim og hafnargerðum.

Ég get nú farið að stytta mál mitt, þar sem ég get búizt við nægum tækifærum til að taka aftur til máls um þau þrjú hafnargerðarfrv., er hér liggja fyrir hv. deild. Má búast við, að hver flm. reyni allt til að koma sínu fram, svo að hann geti flaggað því framan í hv. kjósendur þegar heim kemur. Er það ekki nema mannlegt af hverjum einum að toga skækilinn fyrir sitt kjördæmi. En það vill þá stundum fara svo, að ekki er gáð að getu ríkissjóðs sem skyldi, og er það hlutverk hins háa. Alþingis að sjá fyrir því, að engum líðist að ganga of langt.