11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (918)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Magnús Guðmundsson:

Ég vil að nýju taka það fram, að hér er ekki um neitt fjárframlag að ræða. Þetta er alveg eins og með símaheimildirnar, sem venja hefir verið, að samþ. væru fyrirfram, án þess nokkuð hafi verið rætt um útgjöld fyrr en síðar í fjárlögum. Ég hélt því, að hv. þm. V.-Húnv. gæti setið á sér með að deila um fjárframlög, þangað til slíkt kæmi fram í fjárl. einhverntíma síðar. — Ég vil, að frv. þetta nái fram að ganga, svo Skagfirðingar viti ákveðið, að hverju þeir hafa að ganga, og geti á þeim grundvelli hafið undirbúning um fjáröflun. En slíkt er ekki hægt fyrr en lög hafa verið samþ. og þeir kostir, sem ríkið setur fyrir hafnargerðinni, kunnir.

Hv. þm. sagði, að ekki væri heppilegt, að Alþingi væri að ota héruðum út í svona framkvæmdir. Um slíkt er ekki að ræða, heldur er verið að gera að vilja héraðsbúa sjálfra. Og ég held, að það sé engin ástæða til þess, að Alþingi eða einstakir þm. séu að reyna að draga úr þeim áhuga, sem fram kemur heima fyrir í héruðunum. Ef frv. þetta verður samþ. eins og það var borið fram, þá veit ég, að strax verður hafinn undirbúningur í Skagafirði til framkvæmda málsins. Og ég veit, að Skagfirðingar rjúka ekki út í neinar framkvæmdir fyrri en þeir hafa möguleika til að koma þeim í gegn. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að það séu fáar eða engar sýslur varfærnari en Skagfirðingar. Hv. þm. taldi, að um ókleifan kostnað væri að ræða fyrir héraðið. En hann miðar sitt álit eingöngu við það, sem er, en athugar ekki þá möguleika til meiri tekna og betri afkomu, sem ný höfn skapar. Þegar höfnin hér í Reykjavík var byggð, þá voru líka til afturhaldsseggir, sem sögðu, að slík milljónaframkvæmd væri Reykjavík algerlega ofvaxin. En nú vitum við það af reynslunni, að höfnin hefir verið einhver mesta lyftistöng fyrir framkvæmdir höfuðstaðarins og skapað margvíslega möguleika. — Þegar vegurinn var lagður austur yfir fjall, kom fram bænarskrá um, að hætt væri við lagninguna, sem talið var að mundi drepa fólkið vegna kostnaðar. Á hverjum tíma er því nóg af afturhaldsseggjum, sem álíta allar framkvæmdir til niðurdreps fyrir þau héruð, sem eiga við þær að búa.

Nú er það hv. þm. V.-Húnv., sem segir þetta sama. (SE: Hann vill drepa banka og lækka laun kennara!). Hans heróp er: Gerið ekki neitt, látið allt sitja við sama! Hv. þm. telur, að ábyrgðir þær, sem ríkissjóður er í, séu orðnar hættulegar. Um það sama hefir oft verið talað áður hér á Alþ. Og ég man þá tíð, að er til úrslita kom um það, hvort ríkið vildi heldur taka á sig greiðslu vegna Vestmannaeyja eða selja þær, að þá var sá kosturinn tekinn af Alþ., að ríkið ætti heldur Vestmannaeyjar. Tek ég þetta fram vegna þeirra ummæla, sem fallið hafa um Vestmannaeyjar.

Hv. 3. þm. Reykv. tók til máls og mælti með frv., og er ég honum þakklátur fyrir. Hann hefir verið í hafnarnefnd hér í mörg ár, er útgerðarmaður og því gagnkunnugur þessum málum öllum. Ég legg því miklu meira upp úr því, sem hann segir um þessa hluti, en því, sem hv. þm. V.-Húnv. ber hér fram.

Þá er það hv. 4. þm. Reykv., sem ég vil segja nokkur orð við. Ég skal ekki fara neitt út í það, sem sagt hefir verið um lestur frv. hjá sjútvn. Ég hélt þó, að n. hefði lesið frv. í fyrra. Og auk þess má lesa frv. annarsstaðar en á nefndarfundi. Hv. þm. sagði, að þar sem hér væri ekki um nein fjárframlög að ræða, þá yrðu þetta bara pappírslög. Þetta er ekki rétt. Ef frv. verður gert að lögum, þá vita héraðsbúar, að hverju þeir eiga að ganga, og geta á þeim grundvelli hafizt handa um undirbúning verksins. Hinsvegar er það tilgangslaust að hefja undirbúning, áður en vitað er um stuðning Alþingis.

Mér kom það nokkuð undarlega fyrir að heyra hv. þm. tala af kulda til þessa máls. Ég man þó svo langt, að á fundi á Sauðárkróki í fyrra var því haldið fram við okkur þm. kjördæmisins, að jafnaðarmenn hefðu brennandi áhuga fyrir þessu áhugamáli Skagfirðinga. Mér finnst nú, sem sá brennandi áhugi hafi nokkuð kulnað út hjá hv. þm. (SÁÓ). Og ég vil lofa hv. þm. því, að ég skal trúlega flytja hans ummæli í þessu máli norður. — Hv. þm. sagði, að það væri ekki meining n. að heimta, að Skagfirðingar legðu fram peninga strax, heldur að þeir gætu sýnt, að þeir gætu fengið lán á eigin ábyrgð. En hvernig heldur hv. þm., að hægt sé að leggja fram sönnun fyrir því, að hægt sé að fá lán eftir svo og svo mörg ár? Annaðhvort verða það að vera beinharðir peningar, eða þetta er bára vitleysa. (SÁÓ: Getur héraðið ekki tekið lán?). Jú, en ekki sýnt, að það geti fengið lán eftir mörg ár. Og mér er það velljóst, að slík framkvæmd sem þessi verður ekki gerð á einu ári. — Hv. þm. hélt því fram, að héraðið ætti eins hægt með að fá lán eins og ríkið. En hann er þar bara í mótsögn við reynsluna.

Svo kom hv. þm. með þær ágætu upplýsingar, að stundum væri hægt að skipa upp á Hofsósi, Kolkuósi eða Haganesvík, þótt ófært væri að skipa upp á Sauðárkróki. Ég hélt nú reyndar, að flestir Skagfirðingar hafi vitað þetta, og því verið óþarft að segja þeim það. En hvers vegna á þá ekki að segja hið sama við Akurnesinga? Það má eins benda þeim á, að hægt sé að skipa upp í Reykjavík. Eða þá við Keflvíkinga eða Eyrbekkinga, að þeir geti notað Reykjvík? (SÁÓ: Þetta er ekki sambærilegt!). Jú, það er einmitt sambærilegt. Það er dagleið með lest milli Hofsóss og Sauðárkróks, líkt og er héðan til Eyrarbakka. Ég er hræddur um, að þegar álit hv. þm. berst norður, þá verði litið svo á, að hann hafi ekki athugað málið mikið og verði því varla talinn dómbær um það.