11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (923)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Hannes Jónsson:

* Hv. 1. þm. Skagf. spurði mig að því, hvort ég vildi ekki bíða með að ræða um þetta mál þar til það væri flutt í fjárl. og þykir mér vænt um þau ummæli hans, því að þá get ég máske vænzt stuðnings frá hv. þm. við kosningar, en það hefir mér þótt frekar ólíklegt til þessa. (MG: Kannske hv. þm. hafi haldið að ég mundi bjóða mig fram á móti honum?). Nei, því miður átti ég ekki von á því, en hinsvegar geri ég ráð fyrir, að ég myndi viss á þing, ef hv. þm. legðist á eitt með mér. — Hv. þm. lét það mjög í veðri vaka, að hann vildi ekki draga úr framfarahug héraða, en það vildi ég gera, og væri ég því hinn magnaðasti afturhaldsmaður. Afturhald og íhald hefir oft verið talið eitt og hið sama, og ég hygg, að hv. þm. hafi í það minnsta á þinginu 1924 ekki álitið það skömm fyrir sig að teljast til íhaldsins. Að því leyti er ég íhaldsmaður, að ég vil ekki verja fé ríkissjóðs þannig, að því sé stofnað í hættu, og ég hygg, að það mætti verja því miklu betur en hér er gert.

Mér finnst það einnig dálítið einkennilegt, að samkv. þessu frv. á héraðið að leggja tiltölulega miklu minna fram en þau héruð, sem aðeins hafa ráðizt í bryggjugerð, en ég fæ ekki skilið, í hverju það liggur. Mér virðist það algerlega óréttmætt, að svona mikill munur skuli ger á þessu tvennu, nema það sé meiningin hjá hv. fjvn. að stöðva bryggjugerðir með þessum ákvæðum. Ég er þó ekki að ásaka hv. 1. þm. Skagf. fyrir tvöfeldni í þessum sökum, enda hefi ég aðeins sagt það, að hann vildi ekki, að þau héruð, sem réðust í bryggjugerðir, væru styrkt eins og hin, sem vildu fá hafnir. Það álít ég alveg rangt, því að með því móti er verið að gera þeim hærra undir höfði, sem gera miklar kröfur, heldur en hinum, sem láta sér nægja með lítið. T. d. hefði Hvammstangi getað farið fram á styrk til hafnargerðar og hafið verkið án þess að ljúka því, og hefði þó ekki verið hægt að liggja þeim á hálsi fyrir það, ef þeir hefðu getað sýnt fram á, til hvers féð hefði verið notað. Við þessu hefði ekkert verið að segja og það hefði verið hliðstætt því, þegar sett var inn í hafnarlög Skagastrandar í fyrra, að það mætti byrja á verkinu, þótt það yrði ekki framkvæmt til fullnustu. Við þessar umr. hefir verið minnzt á það, að svipaðar ástæður lægju fyrir hafnargerð á Skagaströnd og Sauðárkróki, en ég verð að álíta, að það sé ekki rétt. Það kom fram í umr. í fyrra, að á Skagaströnd kæmi það oft fyrir, að ekki væri hægt að afgreiða skipin, svo að þau yrðu að sigla burt við svo búið. Yrðu þau þá að skilja vörurnar eftir á næstu höfnum, en það væri mjög bagalegt fyrir hlutaðeigendur. Þetta hygg ég, að hafi ekki komið fyrir á Sauðárkróki. Ég held, að sjaldan komi þau veður á Skagafirði, að skipum verði ókleift að athafna sig öðruhvoru megin við fjörðinn, að austan eða vestan. Það verður því ekki líku máli að gegna um Skagafjörð og Húnaflóa. Ég benti á áðan, að Skagaströnd er bezt fallin allra hafna þar norður frá til þess að taka við síldveiðum. (Forseti: Þetta átti aðeins að vera stutt aths.) Já, en ég vona, að hæstv. forseti misvirði það ekki, þótt hún verði í lengra lagi, því að ég mun ekki biðja um að fá að gera aðra aths.

Hv. 2. þm. Skagf. þarf ég ekki að svara frekar. Hann sagði, að það væru þrjú grundvallaratriði, sem mæltu með hafnargerð á Sauðárkróki og enn stæðu óhrakin. Ég hefi þegar bent á um eitt atriðið, að ef till. meiri hl. n. verða samþ., þá er þar með loku fyrir það skotið, að nokkuð verði úr framkvæmdum. — Í öðru lagi sagði hv. þm., að það væri ekki nægilegt, þó að skip geti athafnað sig t. d. á Hofsósi, ef það gæti það ekki um leið á Sauðárkróki. Ef það á að vera viðunandi fyrir Húnvetninga, að skip losi á Skagaströnd fyrir allar hafnir við Húnaflóa, þá ætti það því síður að vera tilfinnanlegt fyrir Skagfirðinga, þótt skip losi á Hofsósi í stað Sauðárkróks, enda kemur slíkt örsjaldan fyrir.

Það hefir verið talað um vegalengdir á landi í sambandi við þessar umr. Ég býst nú við, að hv. þm. myndi þykja það ærið langar leiðir, ef flytja ætti vörur frá t. d. Hólmavík alla leið austur að Skagaströnd. En við þetta er það að athuga, að slíkir landflutningar tíðkast alls ekki, því að undir slíkum tilfellum er beðið næstu skipsferðar og vörurnar fluttar á þann hátt.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ég mætti ekki vera það barn að halda, að allir þeir, sem skrifuðu undir nál. án fyrirvara, væru sammála í öllum atriðum. Ja, ég er nú að vísu ekki eins gamall og hv. þm., en samt sem áður hélt ég, að „Spegillinn“ einn hefði rétt til þess að gera mig að barni, en ekki hv. 2. þm. Skagf. Annars ætla ég ekki að taka þetta illa upp fyrir hv. þm. (Forseti: Hefir ekki hv. þm. senn lokið máli sínu?). Jú, ég er nú rétt að enda.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði ennfremur, að ég hefði neitað, að höfn á Skagaströnd væri stefnumál stj. Ég hefi ekkert sagt ákveðið um þetta atriði. Stj. vildi að vísu leggja þetta fram, en þess ber að gæta, að höfnin á Skagaströnd er alveg sérstaklega álitleg, svo að það er vel forsvaranlegt af Alþingi og ríkisstj. að styrkja það mannvirki ríflegar en mörg önnur. Frá því í fyrstu, er farið var að rannsaka hafnarstæði hér á landi, hefir hafnarstæðið á Skagaströnd verið talið eitt hið allra bezta, að dómi verkfræðinga. (Forseti: Er nú ekki aths. lokið?). Jú sama sem, en ef hæstv. forseti sviptir mig orðinu, mun ég beygja mig fyrir því, en annars þurfti ég að segja ýmislegt fleira. (Forseti: Aths. hv. þm. er hér með lokið, en hann getur væntanlega fengið að gera aths. síðar). Jæja, þá er að taka því.