20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég á aðeins þrjár brtt. að þessu sinni, og þar af eru tvær smávægilegar. En áður en ég vík að þeim, vil ég drepa lítillega á annað atriði, sérstaklega í sambandi við tekjuáætlun fjárl. Ég hygg, að menn hafi ekki veitt því eftirtekt, að lögin um bráðabirgðaverðtoll falla úr gildi nú um áramótin næstu. Þennan toll hefir ríkisstj. áætlað l millj. og 500 þús. kr., en fjvn. hefir hækkað áætlunina upp í 1,7 millj. kr.

Hinsvegar hefi ég ekki orðið þess var, að neitt frv. lægi fyrir um framlenging þessara verðtollslaga. Þótti mér því rétt að minna hv. þdm. á þetta. Ekki af því, að ég vilji framlengja lögin, heldur til að minna á till. mínar um það, hvað koma skuli í stað verðtollsins.

Þá vil ég snúa mér að till. þeim, sem ég er flm. að. Þá er það fyrst XVIII. brtt. á þskj. 302, við 14. gr. Er hún um það, að veita kvenfélaginu „Ósk“ á Ísafirði 1.000 kr. styrk til vefstólakaupa. Þetta félag sótti um byggingarstyrk í fyrra og sömuleiðis nú við 2. umr., en var í hvorttveggja skipti synjað. Nú er félaginu ætlaður sami rekstrarstyrkur og að undanförnu í fjárl., en vegna þess að félagið varð að sleppa húsnæði, sem það hafði, og var synjað um aðstoð til þess að byggja, þá bakaði það því ákaflega mikil óþægindi og kostnað að þurfa að flytja skólann í ný húsakynni, sem leigð voru handa honum, og þrátt fyrir þann styrk, sem skólinn nýtur, bæði frá ríkinu, bæjarsjóði og sýslusjóði, þá hefir samt orðið stórkostlegur halli á rekstri hans, og svo mikill, að með öllu er óhugsandi, að félagið geti undir risið. Auk þess hefir skólinn keypt á þessu ári áhöld til vefnaðarkennslu; það eru átta vefstólar, og munu hafa kostað um 3.000 kr. Þetta var auðvitað alveg nauðsynlegt, því að vefnaður er einmitt einn meginþáttur húsmæðrafræðslunnar, auk matargerðar, hjúkrunar og fleiri þvílíkra starfa. Mér er kunnugt um, að hannyrðakennslan, sem skólinn veitir, hefir borið hinn glæsilegasta árangur; það eru ofnar allskonar ábreiður, gluggatjöld, veggtjöld og vefnaður af ýmsu tægi. Kann ég varla að telja upp þá mörgu fögru og ágætu muni, sem þar eru búnir til. Til vefnaðarkennslunnar dugir ekki minna en 8 vefstólar, til þess að ekki þurfi að vera fleiri en 4 stúlkur um hvern vefstól. Auk vefstólanna hefir skólinn keypt á þessu ári áhöld fyrir 800–1.000 kr., svo að alls nema áhaldakaup skólans um 4.000 kr. á þessu ári. Nú eru það tilmæli okkar; að ríkið styrki þessi kaup að einum þriðja hlut, sem er það sama og veitt er til iðnfræðslu karlmanna, en húsmæðrafræðslan er iðnfræðsla kvennanna og þess vegna ætti að láta sama yfir hvorttveggja ganga.

Þá kem ég að 45. brtt. á þskj. 302, um það, að veita gamalmennahæli Ísfirðinga 2.000 kr. rekstrarstyrk. — Mig furðar satt að segja stórlega á því, að hæstv. stj. skuli ekki hafa tekið þessa fjárveiting upp á fjárlagafrv. Þingið í fyrra samþykkti þessa fjárveiting með yfirgnæfandi atkvæðamun. Ísafjörður er eini kaupstaðurinn á landinu, sem hefir viðurkennt þá skyldu sína, að sjá gömlu og farlama fólki fyrir samastað í ellinni. Ég býst við, að hæstv. stj. þykist hafa numið þetta burt af fjárl. í sparnaðarskyni, en ríkissjóð munar ekkert um þessa upphæð. Hún er nánast viðurkenning þess, að hér sé rétt stefnt: að bæirnir komi sjálfir upp sameiginlegum heimilum fyrir aldurhnigið fólk, sem eru einstæðingar. Ég þykist vita, að þingið muni vera sjálfu sér samkvæmt, miðað við í fyrra, í þessu atriði, og þarf því ekki að fjölyrða um það. Þingið skildi þá þörf í fyrra; sem lá að baki þessari beiðni, og svo mun verða enn.

Meginþorri aldraðs fólks, sem ekki á nóg efni eða efnafólk að, á þess engan kost, að njóta ánægjulegra ellidaga, heldur verður það annaðhvort að hýrast eitt sér í lélegum, óvistlegum húsakynnum, eða þá að vera hjá vandalausum, og þá einatt sjálfu sér til leiðinda og öðrum til ama. Á elliheimilum getur þetta fólk hinsvegar notið ánægjunnar af samvistum við aðra, en um leið losnað við að verða öðrum til ama og óþæginda. Þetta er sú hlið, sem snýr að fólkinu. Svo er kostnaðarhlið málsins. Vistin á þessu gamalmennahæli er mjög ódýr að tiltölu. Þar búa bæði fátæklingar, sem greitt er fyrir af fátækrasjóði, og líka gamalt fólk, sem sjálft borgar með sér, af því það kýs helzt að dvelja þar með jafnöldrum sínum.

Þannig geri ég ráð fyrir, að það verði víðar, ef slík hæli eru byggð. Ég skal geta þess, að ég lít á þennan styrk miklu fremur sem viðurkenningu fyrir, að þarna er haldið inn á rétta braut, með því að bæjarfélagið reisi og reki slík hæli, heldur en sem fjárstyrk fyrir hælið sjálft:

Þá á ég hér till. LI. á sama þskj., þess efnis, að í stað þess að heimila ríkisstj. að veita Eimskipafélagi Íslands aukastyrk, allt að 85 þús. kr., þá sé henni heimilt að leggja fram til hlutabréfakaupa í sama félagi sömu upphæð, allt að 85 þús. kr. Ég flutti þessa brtt. við 2. umr. fjárl. í fyrra, og var hún þá felld með örlitlum atkvæðamun. Ég vil nú vænta þess, að hv. d. hendi slíkt ólán ekki aftur, að fella svo sjálfsagða till. Ég býst ekki við, að neinn ágreiningur sé hér í deildinni um að styrkja Eimskipafélagið, eftir því sem þörf er á. Það er eingöngu fyrirkomulagsatriði, á hvern hátt þennan styrk skuli veita, hvort það skuli gert með því að veita kvaðalausan styrk, eins og verið hefir, sem félagið geti ráðstafað eins og því sýnist, eða hvort ríkissjóður eigi að leggja þetta fram sem starfsfé handa félaginu, eins og hlutafé, með sömu réttindum og sömu skyldum. Ég tel þetta eðlilega leið. Eimskipafél. hefir oft skort og mun sennilega á næstu árum skorta starfsfé. Úr því er bætt með því, að ríkissjóður leggi það fram sem innskotsfé sitt í fél., sem viðbótarstarfsfé fyrir það.

Ég hefi tekið hér saman, hversu miklu nemur það fé, sem ríkissjóður hefir alls lagt Eimskipafél. frá byrjun og fram til ársloka 1929. Hlutafé, sem ríkissjóður tók strax í byrjun í fél., var 100 þús. kr., en allt hlutafé félagsins nam 1680 þús. kr., svo að það er ljóst, að ríkissjóður hefir svo lítinn hluta fjárins, að hann getur engu ráðið um stj. félagsins. Eimskipafélaginu hefir verið greitt fyrir strandferðir þau ár, sem Eimskipafél. hefir annazt þær að meira eða minna leyti, en það eru árin 1916, 1921–23, og 1925–'29. Á þessum árum hefir Eimskipafél. fengið samtals 562.325 kr. í strandferða,styrk, en auk þessa hefir það haft aukastyrk langflest árin, ég ætla öll, nema 1920–1923. Árin 1915–1919 nam þessi aukastyrkur úr ríkissjóði 40 þús. kr. á ári, en öll þessi ár greiðir fél, arð, 1915 4%, 1916 7%, 1917 7%, 1918 10% og 1919 10%. Síðan 1924 fær Eimskipafélagið enn þennan styrk úr ríkissjóði, og 1924–1927 nam hann þá 60 þús. kr. á ári. Ekkert af þessum árum greiðir Eimskipafél. neinn arð. 1928 er aukastyrkurinn hækkaður upp í 85 þús. kr., en eftir það ár greiðir Eimskipafélagið 4% í vexti. Sé þetta borið saman við aukastyrkinn, hefir hann þá því nær allur gengið til þess að greiða hluthöfum arð. Arður hluthafa nam tæpum 68 þús. kr. en aukastyrkurinn 85 þús. Árið 1929 fær fél. 85 þús. kr. umfram strandferðastyrkinn, 60 þús. kr. Alls hefir ríkissjóður lagt til fél. í aukastyrk 610 þús. kr. og í strandferðastyrk 562.325 þús. kr. árin 1915–1929. Sé hlutafé ríkissjóðs, 100 þús. kr., talið með, hefir hann lagt fram alls 1.272.325 kr. til félagsins. En ef frá er dreginn strandferðastyrkurinn, sem ekki er rétt að telja sem styrk til félagsins, er fjárframlag ríkissjóðs 710 þús. kr.

Auk þess hefir fél. síðan 1925 verið gert skattfrjálst að öllu leyti með lögum. Hversu miklu þær upphæðir nema, skal ég ekki um segja.

Ég lít svo á, að þær 610 þús. kr., sem ríkissjóður hefir lagt félaginu í aukastyrk, hefði verið langtum eðlilegra, að ríkið legði sem hlutafé, og hefði fengið rétt til umráða í fél. í réttu hlutfalli. Þá hefði styrknum ekki verið varið til að greiða hluthöfum arð, heldur orðið til þess að auka starfsfé félagsins. Það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. En mér finnst réttast, að Alþingi sjái nú að sér og taki upp þann háttinn, sem betri er.

Ég skal geta þess, að eftir því sem ég bezt veit, mun ríkissjóður hafa haft fullan atkvæðisrétt eftir krónutölu síns hlutafjár á aðalfundum félagsins, en ekki látnar gilda fyrir hlutafé hans þær takmarkanir, sem annars gilda um hlutafé Eimskipafélagsins. Þegar ég ber fram þessa brtt., geri ég ráð fyrir, að það haldist eins og verið hefir, að atkvæðamagn ríkissjóðs vegna hlutafjáreignar hans í fél., sé ekki háð þeim takmörkunum, sem gilda annars um hámark atkvæða, sem einn hluthafi getur haft.