24.01.1930
Efri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

5. mál, sveitabankar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ekki er þörf á að fylgja þessu frv. úr hlaði með löngu máli, þar sem það er borið fram óbreytt frá því frv., er lagt var fyrir hv. Nd. í fyrra. — Nd. tók frv. þetta til meðferðar á þinginu í fyrra og gerði á því nokkrar breyt., sem einkum stefndu að því, að draga úr sjálfstæði og starfsemi þessara stofnana. Vil ég mælast til þess, að þessi hv. deild afgreiði frv. fljótt og vel, þannig að það verði gert að lögum í sem líkastri mynd og það nú hefir, en færi það ekki í það horf, sem það var komið í í fyrra hjá meiri hl. landbn. Nd. og þeirri hv. deild.

Legg ég svo til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til landbn.