20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Ólafsson:

Ég hefi hér nokkrar brtt., sem flestar eru mjög smávægilegar, en eins og hv. þdm. verður ljóst, þegar þeir líta á þær á þskj. 302, þá eru þær því þýðingarmeiri, sem þær eru smærri.

Fyrsta till. mín er undir XXII. lið, til Skáksambands Íslands 2.000 kr. styrkur, og til vara 1.500 kr. Þetta félag hefir eins og kunnugt er haft styrk í fjárl. undanfarin ár, 1.500 kr., en hefir nú ekki verið tekið upp í þetta sinn, þrátt fyrir það, þótt allir viðurkenni, að þetta íþróttafélag, eins og fjöldamörg önnur íþróttafélög hjá okkur, hafi orðið til þess að bera hróður okkar Íslendinga út yfir pollinn með einna mestum glanz, með viðurkenningu fyrir íþrótt sína.

Nú er Skáksambandi Íslands boðið að senda 5 menn á þýzkt taflmót, en þeir mega ekki senda færri en 5. Af þessu stafar töluverður kostnaður, og er áætlað, að það muni kosta þá 500–600 kr. Ef gera má sér jafngóðar vonir um þessa för og viðureign þeirra við taflmenn á þessu móti eins og þeir hafa áður reynzt, sýnist mér ekki til mikils mælzt, þótt þessir 5 menn, sem sendir eru fyrir félagsins hönd, væru styrktir með þessari fjárhæð.

Ég vona þess vegna, að þar sem Alþingi hefir tekið vel og að maklegleikum ýmsum fjárbeiðnum frá íþróttafélögum, þá verði auðfenginn hjá hv. d. styrkur til þessarar farar, sem búast má við, að verði til frægðar.

Þá hefi ég flutt till. XXXI, ásamt hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Reykv. Það er styrkur til Jónu Guðbjartsdóttur, til framhaldsnáms í bókverzlunarfræðum í Englandi og Frakklandi, 2.000 kr., og til vara 1.500 kr.

Það er um þetta að segja, að það mun vera í fyrsta skipti, sem sótt hefir verið um slíkan styrk sem þennan, og það er áreiðanlega, hvað þessa stúlku snertir, full ástæða til þess að styrkja hana til þessa náms. Þar að auki hefir hún lagt mikla stund á þetta hér, þar sem hún var allmörg ár í bókaverzlun hér á landi. Síðan hefir hún verið ytra 1927 og 1928 og stundað þar nám við skóla í Leipzig. Kennarar hennar þar hafa eindregið ráðið henni til þess að leita sér frekari fræðslu í þessum efnum og stunda framhaldsnám í Frakklandi og Englandi. En til þess að hún geti gert þetta, er efnahagurinn svo, að henni er það ókleift, nema hjálp komi einhversstaðar að.

Ég býst við, að þar sem ekki er nokkur maður hér á landi, sem hefir kynnt sér þetta til hlítar, til þess að setja upp og standa fyrir slíkri verzlun og viðskiptum, þá sé öllum hv. þdm. ljóst, að hér er um töluverða nauðsyn að ræða. Jafnmiklum bókamönnum og Íslendingar hafa yfirleitt verið ríður vitanlega ekki á litlu að hafa góðar leiðbeiningar um kaup á útlendum bókum. Og með þessu ætti að vera fengin allmikil trygging fyrir því, að meira flyttist af nytsömum bókum, en minna af þeim lakari, heldur en verið hefir.

Þessi stúlka hefir meðmæli frá allmörgum menntamönnum hér í bæ; þar á meðal vil ég nefna prófessor Sigurð Nordal og Þorstein Gíslason ritstjóra, sem báðir telja mikla nauðsyn á því, að þessi styrkur sé veittur.

Þá höfum við hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Ísaf. till. um, að Fanney Jónsdóttur sé veittur styrkur til þess að ljúka teiknikennaranámi í Kaupmannahöfn. Þessi stúlka hefir stundað nám þar áður í teikniskóla og hefir þaðan allra bezta vitnisburð. Nú langar hana til þess að fullkomna sig í þessu og undirbúa sig undir teiknikennslu yfirleitt, en vantar algerlega til þess fjárhagslegan stuðning. Okkur flm. þessarar till. hafði því dottið í hug, að það væri eins og fyrri daginn lítið að flýja, nema til Alþingis, sem ég verð að segja, að oft hefir hlaupið drengilega undir bagga með slíku fólki, þegar því hefir legið mikið á. Stúlka þessi er efnalaus og hefir engan þann, er hún geti snúið sér að, til þess að ljúka þessu námi, en það vakti einmitt fyrir henni að ljúka því einhverntíma seinna á þessu ári, ef hún hefði ekki orðið að hætta vegna fjárskorts.

Það er óþarfi fyrir mig að minnast á till. okkar hv. þm. Borgf. um að hækka styrkinn til Stórstúkunnar, af því að nú hefir hv. fjvn. tekið svo prýðilega í þetta mál, að við teljum okkur sigurinn vísan. En rétt er í þessu sambandi að minna á það, að síðasta árs hagnaður af vínverzluninni mun hafa numið 1 millj. kr. Eftir þessum tólum að dæma, sýnist ekki til of mikils mælzt, þó að varið sé 12 þús. kr. til þess að vinna ofurlítið á móti þessari miklu brúkun á þessari vöru og til að halda áfram starfsemi, sem ég tel hafa verið mjög siðbætandi hér og komið miklu góðu til leiðar. En þar sem þessu er tekið svo vel, þarf ekki frekari ummæla við.

Þá höfum við hv. 1. þm. Reykv. borið fram till. um styrk til elliheimilisins „Grundar“. Hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Reykv. hafa talað svo vel fyrir þessu máli, að óþarfi er fyrir mig að bæta þar nokkru við. Sérstaklega vil ég leggja áherzlu á það, að hér er á ferðinni eitt af mestu mannúðarmálum, sem Alþingi hefir haft til meðferðar. Hér er verið að hlynna að þeim þjónum þjóðarinnar, sem hafa slitið kröftum sínum út fyrir hana, og gera þeim æfikvöldið bjartara en verið hefir frá byggingu þessa lands. Þetta er að vísu ekki mikil fjárhæð, borið saman við þann kostnað, sem þetta risafyrirtæki hefir í fór með sér. En það er þá aðeins til að láta sjá, að Alþingi viðurkenni þá viðleitni, sem einstakir dugnaðarmenn sýna, til þess að koma málefnin fram, sem eru í þessa átt, og launi starf þeirra manna, sem árum saman hafa lagt á sig mikla erfiðismuni, til þess að koma upp heimili, sem hlýtur að verða til sæmdar í hvers manns augum. Þess vegna er það í raun réttri ekki með öllu skammlaust fyrir Alþingi að vilja ekki líta á þetta með sanngirnisaugum, þar sem ekki ræðir um stærri upphæð, og í eitt skipti fyrir öll.

Ég held, að ég hafi þá lýst þeim till., sem ég er við bundinn. En ég get ekki látið hjá líða að minnast ofurlítið á eina till., nr. LI., frá hv. þm. Ísaf., hv. 1. þm. Árn. og fleirum. Hún er um það, að styrkurinn til Eimskipafélagsins skuli ganga til hlutabréfakaupa. Ég skal játa, að ég er þessu ekki svo kunnugur sem skyldi, til þess að geta dæmt um það. En svo mikið þori ég að segja, að félagið hefir verið styrkt vegna þess, að það hefir tekið á sig að snúast kringum land inn á hverja smáhöfn með ærnum kostnaði. (HG: Það er strandferðastyrkurinn). Það er að vísu rétt, en hann hefir ekki verið nærri nógur til að vega upp á móti þeim halla, sem félagið hefir beðið af því að binda sig við smáhafnirnar, í staðinn fyrir að hafa það eins og Sameinaða gufuskipafél. og Bergenska, að fara aðeins á þær hafnir, þar sem nóg er um flutning. Ég er viss um, að Eimskipafélagið væri miklu betur stætt, ef það hefði aldrei fengið þennan styrk og ekki þurft að koma nálægt ríkisstjórninni um nokkurn styrk. Ég er sannfærður um, að ef þetta væri tekið upp, að láta styrkinn ganga til hlutabréfakaupa, þá yrði það að sjálfsögðu til þess, að fél. sigldi aðeins á þær hafnir, sem gefa flesta peninga, og hirti ekkert um, hvað landsmönnum væri fyrir beztu. Ég er hræddur um, að einhver víkin verði óhirt, ef nú á að kippa þessum styrk burtu.

Þegar hv. þm. Ísaf. er að telja fram, hvað Eimskipafél. hafi fengið frá ríkissjóði, þá eru það smámunir á móti þeim óþægindum, sem félagið hefir haft af þessu. Vegna þess að félagið er bundið við flestar smávíkur landsins, hafa hin útlendu félög stillt svo til, að þau hafa hraðferðir kringum land, og taka oft mest af farþegum og flutningi. Og það vita allir, að þessar hraðferðir, sem Eimskipafél. hefir ekki haft efni á að inna af hendi, hafa orðið til þess að gleypa frá því. En hvað er það á svo margra ára tímabili, þótt það sé kringum millj. kr., sem félagið hefir fengið, þegar það er borið saman við allan þann rekstrarkostnað, sem félagið hefir haft. Í hlutfalli við það er þessi styrkur aðeins smáræði. Þetta sýnir líka, að það á engan rétt á sér sem hlutafé, því þetta er mest fé, sem félagið hefir fengið fyrir að inna af hendi störf, sem öðrum hefir ekki þótt borga sig. Ég vil aðeins benda á það, að hér er um það að ræða, hvort félagið sé skuldbundið til að starfa í þágu hvers einstaks viðkomustaðar á landinu eða það fari að reka félagsskapinn eingöngu í því augnamiði að hagnast af honum. Þetta mundi hafa það í för með sér, að félagið mundi hætta þeim störfum, sem tap verður á. En það yrði til þess að útiloka smáhafnirnar frá öllum samgöngum, í stað þess að hingað til hefir verið reynt að hlúa að þeim.