20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Ég á hér eina brtt., nr. IV. á þskj. 302. Þar er farið fram á, að veittar verði 70 þús. kr. til Vesturlandsvegarins, í stað 40 þús. í frv. Ég flutti þessa sömu brtt. við síðustu umr. þessa máls, en tók hana þá aftur, með því að ég bjóst við, að það kæmu ef til vill ummæli frá stjórninni, sem gerðu það að verkum, að taka mætti hana aftur fyrir fullt og allt.

Ég skal geta þess að hæstv. forsrh. hefir ritað ýmsum mönnum í Dalasýslu bréf, sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta.

„Ég gríp tækifærið til þess að láta yður fá fregn af fyrirætlun ráðuneytisins viðvíkjandi vegagerðum um Dalasýslu og miðhluta Strandasýslu, til þess að flýta fyrir því, að þau héruð komist í bílvegasamband við Borgarfjörð. Bendingar um einstök atriði frá kunnugum mönnum myndu mér kærkomnar.

Fer hér á eftir orðrétt bréf, sem ég ritaði vegamálastjóranum um þetta í fyrradag:

„Í framhaldi af samtali við yður í gær, herra vegamálastjóri, er yður hér með tjáð, að ráðuneytið leggur mikla áherzlu á, að flýtt verði framkvæmdum um lagning Vesturlandsvegarins, frá Dalsmynni í Norðurárdal vestur í Dalasýslu, fyrir þær fjárveitingar, sem veittar eru þegar og væntanlega verða veittar síðar til þessa vegar, þannig að bílfært geti orðið úr Mýrasýslu vestur í Dali sumarið 1930, eða í síðasta lagi vorið 1931. Með þeim umbótum, sem gerðar hafa verið þegar og gerðar verða, ætti þá um leið að verða bílfær leið eftir endilangri Dalasýslu vestur í Gilsfjörð“.

Ég skal svo ekki lesa meira upp úr þessu bréfi. Hinn partur þess skiptir ekki máli um þennan veg.

Samkv. þessu bréfi hefir stjórnin gefið loforð um það, að þessum vegi skuli lokið ekki síðar en vorið 1931. Það mætti því kannske segja, að þar sem slíkt loforð liggur fyrir, sé ástæðulaust fyrir mig að koma hér fram með þessa hækkunartill. En vegamálastjóri hefir sagt svo í till. sínum til stj., að ef ljúka eigi við þennan veg í ár, sé nauðsynlegt að hækka þennan lið fjárl. um 30 þús. kr.

Mér til mikillar undrunar hefir hv. fjvn. gert það að sinni till. við 2. umr. þessa máls, að þessi liður verði lækkaður um 5.000 kr., í stað þess að taka þessar till. vegamálastjóra til greina, til þess að hæstv. stj. geti komið þessu í framkvæmd.

Þegar þessi till. kom fram, hafði ég enn ekki átt tal við hv. fjvn. Hún sýndi þó þá velvild að taka þessa till. aftur til þessarar umr. Ég treysti því, að þegar ég hafði lagt þetta mál fyrir hv. nefnd, svo að hún þekkti fyrirætlun hæstv. stj. í þessu máli, sem er svo greinileg, að veginum sé ekki lokið síðar en vorið 1931, vænti ég þess, að hv. fjvn. yrði með þessari till., til þess að nægilegt fé væri fyrir hendi til þess að efna loforð hæstv. stj. En ef hæstv. stj. sæi sér fært að koma veginum í framkvæmd án þess að fá heimild í fjárl. til þess, væri ég fús til að draga þessa till. til baka. Auðvitað getur orðið breyting á stjórninni, og þá gæti maður hugsað sér, að sú stj., sem þá tæki við, mundi ekki ljúka veginum nema heimild væri til þess í fjárl. En á þetta verður að hætta og mun ég draga till. til baka, ef nægilega skýr yfirlýsing kemur frá stjórninni.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér við 2. umr. þessa máls, að ég vil þakka hæstv. stj. þann velvilja, sem hún hefir sýnt mínu kjördæmi með því að gefa þá yfirlýsingu, sem ég hefi leyft mér að lesa hér upp. Því hvernig sem fer um mína till., verður að byggja á því loforði, sem hæstv. stj. hefir gefið kjósendum mínum um þennan veg. Það er því enginn vafi, að þessi vegur verður gerður á tilsettum tíma. Verði einhver brestur á þessu, eru það hrein loforðsbrigði hjá hæstv. stj. Ég dreg það ekki í vafa, að hæstv. stj. stendur við þetta loforð sitt, en ég hefi komið hér fram með þessa till. til þess að gera hæstv. stj. hægara fyrir að framkvæma þessa vegalagningu, sem allir vita, að nauðsynlegt er að komi sem fyrst. Ég hefi áður leitt rök að því hér, og er óþarfi að endurtaka þau. Raunverulega eru það engin aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, hvort veitt er nú eða síðar til þessa vegar. Og það er æskilegast fyrir héraðið, sem er svo að segja útilokað frá umheiminum, að sambandið komist á fyrr en síðar. Og velvilji hæstv. stj. sýnir, að þessi vegalagning muni komast á sem allra fyrst.

Sem betur fer eru þeir straumar uppi nú, að menn sjá svo að segja úr öllum áttum, hver nauðsyn það er að setja sveitirnar í samband við umheiminn. Þetta er svo, að það er reglulegt kapphlaup milli hinna stærri flokka í því að vinna sem mest að því að bæta úr þessari þörf og rétta sveitunum og landbúnaðinum hjálparhönd. Og þar sem þessir straumar eru nú svo sterkir og hafa svo mikil tök á okkar þingi, skyldi maður ætla, að þessar till., sem ég ber fram fyrir mitt kjördæmi, nái hér fram að ganga, þar sem það framar öllum öðrum kjördæmum á landinu er landbúnaðarkjördæmi, þar sem menn lifa á engu öðru en landbúnaði, og þar sem þeir menn, sem hafa sérþekkingu á þessu máli, eins og t. d. Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, segja þetta hérað eitt af þeim landbúnaðarhéruðum, sem hafa einna bezt skilyrði fyrir því, að landbúnaður geti þróazt þar og tekið miklum framförum. Ég vil ennfremur benda á það, að í þessu héraði er stöðugt að vaxa áhugi fyrir því að koma því í vegasamband við önnur héruð, og það sem allra fyrst. Það er lyftistöng þess, að framleiðsla þessa héraðs geti aukizt. Það má nefna sem dæmi, að á einni jörð í mínu kjördæmi, Hjarðarholti, er að öllu leyti rekinn fyrirmyndarlandbúnaður, og sjá allir, hvaða þýðingu það hefir. Auk þess eru ótal menn aðrir, sem hafa minna fé til umráða og geta ekki rekið atvinnu í eins stórum stíl, en hafa þó mikinn áhuga í þessu efni. Í mitt kjördæmi munu nú komnar 3 dráttarvélar, og lýsir það áhuganum.

Þar sem nú svo standa sakir, að þeir, sem sérþekkingu hafa á þessum málum, segja, að þetta hérað, Dalasýsla, sé eitt af þeim héruðum landsins, sem bezt skilyrði hafa til framfara, þá mætti ætla, að eyru manna væru opin fyrir réttmætum kröfum, er frá þessu héraði koma. Ég skal játa, að sá mikli velvilji, sem hefir sýnt sig viðvíkjandi vegalagningunni og ég minntist á áðan, er vottur um skilning á því, hvað þurfi að gera fyrir þetta hérað, sem hefir verið vanrækt svo mjög.

Það er ekki eingöngu í samgöngum, að þetta hérað er haft útundan. Því hefir líka verið haldið utan símasambands. Geta allir séð, hverja þýðingu það hafi fyrir hérað sem þetta. Ég hefi þess vegna leyft mér að bera hér fram brtt. IX. á þskj. 302, þar sem farið er fram á, að tillag til símalagninga hækki um 50 þús. kr. og sé því varið til að gera símalínu frá Dalsmynni að Búðardal.

Um þessa símalínu vil ég taka það fram, að hún er ein af þeim línum, sem landssímastjóri taldi rétt, að kæmu strax. Rökstuðningur hans er sá, að með því að leggja þessa línu sé opnað beint samband til Vesturlandsins og þess vegna muni þessi lína afla ríkissjóði mjög mikilla tekna. Það er því fengin trygging fyrir því, að verði hún lögð, getur hún aflað ríkissjóði tekna strax á næsta sumri. Auk þess myndu margir komast í símasamband, sem eiga nú langt til síma. Það er líka það, sem maður heyrir fyrst af öllu, þegar talað er um nýja símalagningu, hvað erfitt það er fyrir hérað að ná í lækni, ef sími er ekki við hendina.

Ef þessi upphæð verður samþ., er um leið séð fyrir auknu og betra sambandi við Vesturland og hefir auk þess miklar tekjur í för með sér fyrir ríkissjóð.

Þá er ennfremur farið fram á að veita 29 þús. kr. til þess að leggja símalínu frá Staðarfelli um Skarð að Stórholti.

Þessi héruð, sem þessi lína á að liggja um, eru nú alveg án síma. En það fer nú satt að segja að verða meira og meira óverjandi að halda slíkum héruðum fyrir utan símasamband. Ég vænti þess vegna, að hv. deild mæti þessum óskum, sem hér er farið fram á fyrir kjördæmi mitt, með fyllsta skilningi.

Ég þarf ekki að lýsa því, hvílíkt erfiði það er nú fyrir héraðið að komast í símasamband. En símasamband er samband við umheiminn. En ég vona, að hv. þdm. finni til þess ranglætis, sem þeir, sem standa fyrir utan símasamband, eru beittir. Því það er rangt að láta þessa menn taka þátt í kostnaðinum og láta þá ekki hafa nein ný samgöngutæki, sem skiptir þá þó svo miklu máli. En svo leita þessir menn úr sveitunum og streyma til kaupstaðanna. En hvernig er hægt að ætlast til, að sá straumur hætti, ef ekkert er gert til þess að skapa þægindi fyrir þessa menn, sem ekki eru landfræðilega afskekktir, heldur verða afskekktir vegna þess, að þeir fá ekki þetta samgöngutæki, sem þeir eiga kröfu til?

Þá á ég brtt. XLIX., við 18. gr., um að veita Guðrúnu Magnúsdóttur ljósmóður 200 kr. eftirlaun.

Þessi ljósmóðir gegndi starfi sínu í 10 ár, en varð þá að láta af því starfi sínu vegna sjúkleika, er hún bakaði sér á einni af embættisferðum sínum. Er hún enn veik og gengur örðugt með batann. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa litlu upphæð. Það eru svo mörg fordæmi þess, að slík eftirlaun hafa verið veitt, og á það eins við hér, því kona þessi hefir rækt starf sitt með mesta dugnaði. Og þar sem hún fékk þennan sjúkdóm er hún var að gegna skyldustörfum sínum, finnst mér eðlilegast, að henni verði veitt þessi litla upphæð.

Þá er hér loks brtt. IV. á þskj. 319, sem ég flyt ásamt hæstv. forseta þessarar deildar. Samkv. þessari till. er farið fram á að veita Stefáni frá Hvítadal 2.000 kr., í stað 1.000 kr., sem honum eru nú veittar samkv. 18. gr. fjárl. Það er nú í 3. skipti, sem ég leyfi mér að bera till. þessa efnis fram hér í þessari hv. deild. Í tvö undanfarin skipti hefir það verið samþ. hér í þessari hv. deild með yfirgnæfandi meiri hl., en hinsvegar hefir hv. Ed. ekki enn þá séð sér fært að samþ. þessa till., svo hún hefir verið felld þar.

Ég ætla ekki nú að fara að endurtaka þau ummæli öll, sem ég hefi fært fyrir því, að þessu ágæta skáldi okkar sé veittur þessi styrkur. Það væri algerlega óþarft, því hv. þdm. er það vel kunnugt, hversu margt fallegt liggur eftir hann og hversu miklir örðugleikar það hafa verið fyrir hann að brjótast áfram. Og ef nokkurt íslenzkt skáld hefir átt að berjast við fátækt, þá er það Stefán frá Hvítadal. Það hefir verið stöðug barátta við fátækt í sinni ömurlegustu mynd.

Ég vil geta þess, að Stefán í Hvítadal hefir nú með höndum mörg verkefni og sum þeirra stór. Og til þess að styðja að því, að þessi verkefni verði svo fullkomin, sem þau geta orðið, er full ástæða til þess að hækka styrkinn upp í 2.000 kr. í ár, svo að hann geti nú unnið að hinu ágæta starfi sínu fyrir bókmenntir þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu. En þess þykist ég fullviss, að ég þurfi ekki að bera hér fram meiri meðmæli með þessari till. minni. Hér í þessari deild hefir þessu máli jafnan verið tekið með fullum skilningi.