17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Hv. 4. landsk. sagði, að fátækir bændur mundu þurfa að fá sér lán annarsstaðar frá og að lánsfélögin mundu ekki nægja þeim. Þetta getur verið, en ég hygg þó, að lánsfélögin bæti mikið úr lánsþörf bænda, þó að þau ef til vill fullnægi henni ekki. Það má og vera, að aðrar lánsstofnanir dragi saman seglin, ef sveitabankarnir verða settir á stofn, enda kæmi það þá að minni sök. Annars mun það fara eftir veði og lánstrausti umsækjanda, hve mikið aðrar lánsstofnanir takmörkuðu lán við félagsmenn sveitabankanna.

Hv. 1. þm. G.-K. heldur því fram, að lánsfélögum í Danmörku sé ekki með landslögum fyrirskipað sama fyrirkomulag og hér er farið fram á, enda þótt þau hafi það. Þetta getur verið, en það hefir reynzt vel að hafa lánsfélögin í þessu sniði, og þar sem ætlazt er til, að ríkið veiti þeim ýms fríðindi, er ekki nema sjálfsagt, að ríkið setji sín skilyrði í staðinn. Og það er alls ekki rétt hjá hv. 1. þm. G.-K., að mönnum sé með l. skipað að langa í þessi félög, heldur er mönnum gefinn kostur á rekstrarlánum, ef þeir gangi í félögin. Þá held ég, að það sé ekki heldur rétt hjá hv. 1. þm. G.-K., að tómir fasteignaeigendur séu í dönsku félögunum. Ég held, að þar séu margir, sem enga fasteign eiga.

Um lögtaksréttinn er það að segja, að þetta er allt í svo smáum stíl, að ekki ætti að saka. Hv. 1. þm. G.-K. kallaði félögin sjálfur kríli. (BK: Það má lána allt að 4.000 kr.). Já, það eru nú öll ósköpin. Meira er það nú ekki.