16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (982)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jónas Kristjánsson:

* Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð í þessum málum, og þá helzt um það, sem mér er næst, en það er hafnargerðin á Sauðárkróki.

Hv. 2. þm. S.-M. gat ekki fallizt á þessi frv. af því, að ef byrjað væri að samþykkja þau, þá væri hvergi numið staðar. En það er um þessi mál að segja, að það eru nauðsynjamál, sem ekki verður stanzað við fyrr en þeim er lokið á þeim stöðum, þar sem þeirra er mest þörf. Það er svipað með þau eins og vegina, ef ekki hefði mátt byrja á þeim af því að fleiri kæmu á eftir og gerðu samskonar kröfur. Nei, það verður að byrja þar, sem þörfin er mest, og halda svo áfram; það á alls ekki að nema staðar í þessu máli, heldur byrja á því og halda svo áfram eins og geta leyfir.

Hv. þm. vildi líka halda því fram, að mótþróinn gegn þessu máli stafaði ekki af neinni óvild. Getur verið, en heldur þykjumst við Skagfirðingar hafa orðið fyrir kulda hjá Framsóknarflokknum, sem hefir drepið hvert áhugamál okkar Skagfirðinga á fætur öðru. Þegar borið var fram frv. um rafveituna við Sauðá, þá var því reyndar borið við, að það væri okkur ofurefli, en það varð ekki sannað, að ekki yrði við það ráðið hvað efnahaginn snertir.

Framsóknarflokkurinn sá sér fært að samþykkja hafnargerð á Skagaströnd; var þó ekki eins eindreginn áhugi um það mál þar í héraðinu eins og hjá okkur í Skagafirði; það var meira að segja mjög misjafn áhugi um málið þar, af því að það var mikil byggð á Blönduósi, sem þá hlaut að leggjast niður. En í Skagafirði er ekki nema einn vilji um það, að nauðsynlegt sé að koma upp höfn á Sauðárkróki, fyrst og fremst vegna þess, að fjörðurinn er allur hafnlaus, en vaxandi útgerð á Sauðárkróki, en höfnin slæm. Ennfremur er komið upp frystihús þar, til að geta flutt út nýtt kjöt, en hvað lítið sem á bjátar, þá geta skipin tafizt þar. Oft er fjörðurinn fullur af síld, svo að skipin geta fyllt sig á fáum klukkustundum, og fara svo með allan feng sinn til Siglufjarðar. En ef höfn væri á Sauðárkróki, myndi það ekki aðeins verða þeim stað einum til hagsbóta, heldur öllum Skagafirði.

Hv. þm. Ak. fann það til, að ekki hefði þegar verið safnað fé til þessarar hafnargerðar. Það getur satt verið, en það eru fyrst möguleikar til þess, þegar maður veit, að höfnin muni komast upp, þá skapast möguleikar og tekjustofnar til að safna fé. Nei, ef áhuginn hefði verið hinn sami eins og t. d. á að koma upp tóbakseinkasölunni, þá er ég viss um, að þetta hefði gengið í gegn. En þegar sá galli er á, að áhuginn er minni fyrir þessu máli, af því að það stendur nær hugum andstæðinga Framsóknarflokksins heldur en tóbakseinkasalan, þá verður það að stranda; er það þó sýnt, að það frv. muni heldur verða til þess að rýra tekjurnar af þeirri sölu. Annars er ekki vert að lengja ræður um þetta mál úr hófi, þar sem svo er áliðið og ekki sennilegt, að frv. verði komið lengra á þessu þingi. Mun því lítið þýða að ræða það frekar en orðið er.