16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (985)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Ingvar Pálmason:

Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni. — Hv. þm. Snæf. vildi ekki kannast við það, að þetta mál væri illa upplýst. Ég man nú svo langt, að þegar við höfðum til meðferðar frv. um hafnargerð á Skagaströnd, sem var hér á tveim þingum, hvoru eftir annað, þá þurfti sjútvn. Nd. að hafa það í tvo mánuði á fyrra þinginu, en í fullan mánuð á hinu, og ég verð að segja það, að þá voru ólík vinnubrögð við það frv. ellegar þau, sem nú hafa verið við þessi mál; veit ég þó ekki betur en að þeir, sem nú standa fastast með þessum málum, væru á móti því.

Hv. þm. sagði, að það væri enginn skaði skeður, þó að þessi frv. væru samþ., því að það yrði ekkert fé veitt í fjárl. til þessara mannvirkja. Ég veit það, en er þá mikill skaði skeður, þótt okkur þm., sem ekki er vel kunnugt um þessi mál, gefist kostur á að safna upplýsingum, því að þótt ýmsir hv. þm. komi hér með stuttar lýsingar og fullyrðingar, þá nægir mér það ekki sem fullgildar upplýsingar.

Hv. þm. sagði líka, að það væri engin þörf á því, að allar þessar hafnir yrðu byggðar í einu; það gæti komið að góðu liði, þótt það yrði ekki fyrr en smátt og smátt. Ég skal ekkert dæma um það; ég sagði einmitt, að það, sem ég segði, væri byggt á litlum upplýsingum. Það getur vel verið, að ég kæmist að annari niðurstöðu, ef mér gæfist kostur á að rannsaka málið.

Þá virtist mér hv. 5. landsk. vilja beina að mér svipuðu og kom fram í báðum ræðum hv. þm. Snæf., að ég sýndi þessum málum óvild. Ég veit ekki, hvað um það skal segja, en af því að hv. 5. landsk. minntist á frv. um hafnargerð á Skagaströnd, sem ég hefi lýst yfir um, að hefði verið betur upplýst, þá vil ég spyrja um, hvort það hafi verið af óvild gagnvart því máli, sem þeir þá greiddu atkv. á móti því. Það er á sama hátt um þetta, að það er talið af óvild gegn málinu, að ég geng ekki hispurslaust með því.

Þá sagði hv. þm., að ef ég hefði haft eins mikinn áhuga fyrir framgangi þessa máls eins og tóbakseinkasölunni, þá hefði málið horft öðruvísi við. Já, það má vel vera, en þar er nú svo mikill munur á; ég hefi fyrir löngu gert mér það fyllilega ljóst, en þegar ég þykist viss um, að hér sé verið að starfa til eins mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóð og almenning eins og þar, þá fylgi ég þessu máli. En úr því að við minnumst á tóbakseinkasöluna, þá vildi ég beina því til hv. 5. landsk., hvort hann vildi nú ekki ganga að tóbakseinkasölunni með mér, því að þá gæti vel verið, að hann fengi um 200 þús. kr. í ríkissjóð til þess að verja til hafnargerðar á Sauðárkróki.

Ég verð að segja það um þessi hafnarmál, að ég býst ekki við að geta fylgt þeim á þessu þingi, því að ég hygg, að þingið verði varla teygt það lengi héðan af, að málin verði nægilega upplýst, en hitt er ég fús til að ganga inn á, ef það gæti orðið samkomulagsatriði að koma á tóbakseinkasölunni, að verja þá fyrsta ágóðanum af henni til þessarar hafnargerðar.