16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (986)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Þorláksson:

Ég stend aðeins upp til þess að andmæla orðum hv. 4. landsk. um samkomulag á milli flm. þessa hafnarlagafrv. og mín annarsvegar, en hæstv. landsstj. hinsvegar um það, hvenær þingi skuli slitið.

Það vita allir, að nú er komið að páskum, og við höfum ekki sýnt annað en liðlegheit við að veita afbrigði til að koma fram málum, sem við vissum, að þingmeirihlutinn hefði á sínu valdi að koma fram. Við sáum ekki, að það væri neinn vinningur fyrir okkur að teygja þingið með því að synja um afbrigði, og mér finnst, að hv. 4. landsk. hafi verið með okkur í þessu öllu saman. En ég skil annað. Hv. þm. er nú hættur að hugsa um þingstörfin og er nú farinn að hugsa um þær kosningar, sem fram undan eru; hv. þm. gengur með vonda samvizku, og hans vonda samvizka knýr hann nú til að finna upp á þessu, til að víkja ábyrgðinni frá sér. En sannleikurinn er sá, að í Nd. báru þm. Alþýðuflokksins fram brtt. í eitthvað svipaða átt og hv. þm. Ak. Þessar brtt. voru felldar, og flokksmenn hv. 4. landsk. greiddu allir atkv. á móti frv. En við 3. umr. höfðu eitthvað tveir af þeim tekið sinnaskiptum og greitt atkv. með þessum frv.

Nú er það svo, að ef Alþýðuflokksmenn í Ed. hefðu veitt þessum málum fylgi sitt, þá er það alveg á valdi þeirra hv. 4. landsk. og hv. þm. Ak. að fá þessi lagafrv. afgr. frá þinginu, en það næst varla úr því, sem komið er, ef farið er að gera breytingar á frv. Það er náttúrlega ekki nema rétt, sem hv. 4. landsk. sagði, að bezt er, að skömmin skelli þar, sem hún á heima. Ef skömm er að því, að þetta frv. dagi uppi, þá skellur hún fyrst og fremst á þeim hv. 4. landsk. og flokksbróður hans, hv. þm. Ak, nema þeir hafi sinnaskipti í málinu nú þegar, en það er ég heldur vondaufur um, að þeir geri aftur. En ef þeir snúast á sveif með okkur sjálfstæðismönnum í þessu, geta hafnargerðafrv. vel orðið að l. í kvöld.