16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (991)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Baldvinsson:

Það þykir mér undarleg kenning hjá hv. þm. Snæf., að samkomulagið um fundafrestun komi ekki þessu máli við. Þegar við í mínum flokki höfum unnið að því að koma málinu inn á þann grundvöll, að hægt sé að koma frv. fram, þá kemur það upp úr kafinu, að sjálfir flm. frv. hafa gengið að samkomulagi, sem gerir afgreiðslu málsins óhugsanlega á þessu þingi. Ég hefi ekki gert mig sekan um nein óheilindi í þessu máli, en þegar ég sé öll óheilindin hjá aðalforvígismönnunum, sem látast vera, þá getur hv. þm. Snæf. ekki búizt við, að ég og flokksmenn mínir teygjum okkur lengra til samkomulags heldur en gert er í brtt. hv. þm. Ak. Því að það verður að hafa í huga, hversu mikið fé líklegt er, að ríkissjóður geti lagt fram til hafnargerða á næstu árum. Í fyrra var samþ. frv. um hafnargerð á Skagaströnd, hér liggja fyrir 3 frv., um hafnargerðir á Sauðárkróki, Akranesi og Dalvík, og vitanlega eru margir aðrir staðir hér á landi, sem hafa sömu þörf og sama rétt til hafna. Og það er ekki nóg að samþykkja lög um hafnargerðir; á sínum tíma þarf að veita féð til þeirra í fjárl. Á næstu árum munu kröfurnar um framlög koma yfir Alþingi eins og skriða. Þegar sú skriða kemur, verða menn að hafa gert sér ljóst, hver á að vera hluti ríkissjóðs. Það, sem nú yrði samþ. í því efni, hlyti að verða til fordæmis. Fyrir þá sök viljum við jafnaðarmann nú gera þessa tilraun til samkomulags, sem hægt verði að byggja á framvegis. — Hv. þm. Snæf. segir, að ég vilji enga tilraun gera til að koma málinu fram, heldur varpar allri sinni áhyggju upp á mig. Hann virðist segja sem svo: Flm. frv. eru búnir að búa því gröf, og nú skora ég á 4. landsk. að bjarga því. — Ef hv. þm. Snæf. og flokksbræður hans kæra sig nokkuð um að koma málinu fram, geta þeir hæglega fengið það samþ. með þeim breyt., sem hv. þm. Ak. leggur til. Ef málið yrði þannig afgr. frá þessari hv. deild í kvöld, mætti vel taka það fyrir í hv. Nd. á laugardag og afgreiða það þaðan sem lög. Ég marka ekkert, þótt hv. 3. landsk. segi, að flm. frv. vilji ekki ganga að brtt. (JÞ: Þeir hafa sýnt það við atkvgr.). Það sannar ekkert, þótt þeir hafi þá viljað komast eins langt og þeir gátu. Þar fyrir kunna þeir að vilja sætta sig við minna nú.

Það er ekki rétt, sem hér hefir verið sagt, að jafnaðarmenn í Nd. hafi verið andvígir þessu máli. Þeir tveir flokksmenn, sem í þd. voru staddir, greiddu frv. atkv. bæði við 2. og 3. umr., og veittu því þannig fullkominn stuðning. Það er óréttmæt ásökun, að þeir hafi viljað bregða fæti fyrir málið, þótt þeir væru ekki sammála þeim grundvelli, sem í frv. var lagður fyrir framlögum úr ríkissjóði. Nú erum við jafnaðarmenn reiðubúnir til að veita öll þau afbrigði frá þingsköpum, sem í okkar valdi stendur, til þess að frv. geti náð fram að ganga fyrir þingfrestun. Og við erum einnig reiðubúnir til að sitja hér enn nokkra daga, til að geta látið frv. verða að lögum, ef ekki fást afbrigði. Þetta er málinu nægur stuðningur, ef hv. þm. Skagf. hafa ekki látið trossa sig saman við hæstv. stj. um að hætta nú þingstörfum.

Ég vil loks bæta því við, að þegar við jafnaðarmenn sáum, að farið var að draga saman með stóru flokkunum um að hroða af þinginu, þá gerði okkar flokksmaður í sjútvn. allt, sem hann gat, til að hraða málinu í n., svo að frv. gæti gengið fram, enda þótt það hefði skamma stund verið fyrir hv. Ed. Lýsi ég því allri sök á hendur flm. og „stuðningsmönnum“ málsins, ef það dagar nú uppi.