16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (993)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 2. minni hl. (Erlingur Friðjónsson):

Það er rétt, að ég svari fyrst síðasta slagorði hv. þm. Snæf., að það sé eingöngu höfninni að þakka, að fiskútflutningur frá Vestmannaeyjum hefir áttfaldast á síðustu 15 árum eða svo. Þó að þetta megi þakka höfninni að nokkru leyti, getur hv. þm. ekki haldið því fram, að þetta sé eingöngu af hennar völdum. Vélbátaútvegurinn var ekki kominn á nærri eins hátt stig 1914 eins og nú, og aflaaukningin í Vestmannaeyjum er mest framförum hans að þakka. Hv. sessunautur minn bendir mér á, að einnig var allt annað verðlag 1914 en nú er, og gerir það mikinn mismun.

Út af fyrirspurn, sem hv. þm. Snæf. beindi til mín um það, hvort ég mundi greiða atkv. með frv. þegar brtt. mínar væru fallnar, þá vil ég taka fram, að ég mun gera það. Eins og ég hefi þegar skýrt frá, er ég hafnargerðum þessum fylgjandi og mun að sjálfsögðu beygja mig undir vilja hv. d., ef hún telur réttara að afgr. frv. án brtt. minna.