16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (995)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Steinsson):

Hv. þm. Ak. vildi halda því fram, að óhyggilegt væri að leggja í þau mannvirki, sem hér er um að ræða, af því að viðkomandi héruð hefðu ekki fé í sjóði til að byrja með, og því væri rétt að samþ. brtt. þær, sem hann hefði borið fram.

En allflestar hafnir, sem risið hafa upp á síðari árum, hafa ekkert fé átt í sjóði nema Hafnarfjörður; hann mun vera eina undantekningin. Við skulum t. d. hugsa okkur Vestmannaeyjar og hvernig farið hefði um byggingu hafnarinnar þar, ef átt hefði að bíða þangað til svo og svo mikið fé væri til í sjóði. En einmitt vegna þess, að ráðizt var í að byggja höfnina í Vestmannaeyjum, hefir útvegur þar blómgazt svo hin síðari árin, að hann mun þar einna mestur orðinn á vertíðinni. Löggjafarvaldið verður að ganga á undan og hjálpa héruðunum til þess að koma upp þeim mannvirkjum, sem auka velmegun manna og þjóðarinnar yfir höfuð. Þess vegna er það ekki rétt hjá hv. þm. Ak. að heimta af héruðunum, að þau eigi digra sjóði áður en byrjað er á jafnnauðsynlegum mannvirkjum og hafnargerðir eru. Héruðin eru þess alls ekki megnug. Mér þótti leitt, að hv. þm. Ak. skyldi ekki sjá sér fært að taka aftur brtt., en hitt gladdi mig þó jafnframt, að hann lofaði að fylgja frv. út úr hv. d., þó að brtt. hans yrðu felldar.

Hv. 2. þm. S.-M. get ég svarað með fáum orðum, enda voru rök hans heldur léttvæg, er hann færði gegn frv. Hann hélt því fram, að mismunandi rík þörf væri fyrir hafnargerð á þessum stöðum, og rökin voru þau, að frá Akranesi og Dalvík væri víða hægt að leita lands, þegar ólendandi væri á báðum þessum stöðum. En með hafnargerð er ekki eingöngu verið að hugsa um lendingu skipa, heldur eru þær byggðar með það fyrir augum aðallega að auka framleiðsluna og glæða athafnalíf manna á þeim stöðum. Þó að sjómenn frá Dalvík geti leitað næstu hafna við Eyjafjörð og Akurnesingar náð til hafnarinnar í Reykjavík, þegar í nauðirnar rekur, þá verður það ekki til að hjálpa viðkomandi kauptúnum til þess að efla atvinnu sína, fjölga fólki o. m. fl., sem slíkum mannvirkjum er samfara. Ég vona því, að hv. 2. þm. S.-M. sjái og kannist við, að þetta eru engin rök í málinu. Hann sagði líka, að mál þessi væru illa upplýst og ekki verið hirt um að afla þeirra upplýsinga sem skyldi. Ég kannast alls ekki við, að svo sé. Það hefir verið leitað upplýsinga vitamálastjóra, eins og venja er um þessi mál. —

Hv. 2. þm. S.-M. sagði líka, að það væri ekki langur tími, sem þessari hv. d. væri ætlaður til að afgreiða þessi mál. Þetta er að vísu rétt, en þó er þessi tími svo langur, að ef áhugi hv. þm. væri jafnmikill fyrir þessum málum eins og tóbakseinkasölunni, er við vorum nú að afgreiða til 3. umr., þá væri ekkert auðveldara en að afgreiða málin í dag.

Þá kvartaði hann um, að ekkert fé væri veitt til þessara mannvirkja í fjárl. og engu safnað af viðkomandi héruðum, og þess vegna væri ekki rétt að samþ. frv. nú. En eins og ég hefi sýnt fram á áður, mundi dragast óþarflega lengi að byrja á þessum mannvirkjum, ef bíða ætti eftir því. En ef lög eru sett um þetta, má búast við, að því fyrr verði veitt fjárframlög þangað. Og á meðan ríkið ekki hjálpar, verður ekkert hægt að gera.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ef þessi frv. yrðu samþ. nú, mundi ekki verða hjá því komizt að sinna samskonar beiðnum annarsstaðar frá. Ég sé ekkert á móti því; það er vaknaður — sem betur fer — almennur áhugi fyrir því á síðari árum að fjölga höfnum, og tel ég ekki líklegt, að hlaupið verði í gönur um þær framkvæmdir, því að alltaf þarf að áætla um kostnaðinn í hvert sinn í fjárl.

Hann vildi líka fullyrða, að svo hagaði til á öllum þessum stöðum, að byggja þyrfti hverja höfn í einu. En ég held, að þetta sé ekki rétt og að hafnargerðin geti komið að gagni, þó að byggt væri smátt og smátt. A. m. k. hefi ég fyrir satt, að bæði á Sauðárkróki og Akranesi gæti hafnargerð komið að gagni, þó að ekki sé allt byggt í einu. (IP: Ekki á einum degi!). Og ekki á einu ári eða tveim, eða hvað hefir hv. 2. þm. S.-M. fyrir sér í því, að hafnir þessar þurfi að byggja í einu?

Hv. 2. þm. S.-M. hefir engin rök borið fram í máli þessu, og verð ég því að ætla, að það sé af óvild sprottið til þessara staða, og engu öðru, að hann vill koma frv. þessum fyrir kattarnef.