30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (1005)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Frsm. (Páll Hermannson):

Það er flestum landsmönnum kunnugt, að sjúkdómar, sauðfjársjúkdómar, hafa borizt hingað fyrir tveim öldum, og hafa þeir gert landsmönnum meira tjón en flest annað og, sem að líkindum lætur, hafa Íslendingar verið hræddir við að flytja til landsins erlent sauðfé. Það, sem af er þessari öld, hafa verið uppi allháværar raddir um að flytja til landsins sauðfé í sérstöku augnamiði, ekki til kynbóta, heldur til einblendingsblöndunar og bóta á sláturfénu. Hingað til hefir verið svo mikil mótspyrna gegn þessum innflutningi, að leyfi til hans hefir aldrei fengizt.

Þeir, sem hafa beitt sér móti þessu, hafa aðallega sett fyrir sig tvær ástæður; í fyrsta lagi óttast þeir, að ekki lánist að sporna við því, að erlendir sauðfjársjúkdómar flytjist hingað; í öðru lagi óttast þeir ekki síður, að landsmenn kynnu ekki með þessa fjárblöndun að fara, að þeim litist vel á einblendingana og þeir væru látnir lifa; en reyndin er, að slík kynblöndun gerir ekkert gagn, en venjulega það gagnstæða og getur orðið að mesta óliði.

Ég veit ekki til, að nokkurntíma hafi verið komið lagi á þetta innflutningsmál, en nú hefir ríkisstj. lagt fyrir Alþ. frv., sem heimilar innflutning á sauðfé. Þetta frv. er í 4 köflum. 1. kafli er um að veita heimild til innflutnings, og ýmsar varúðarráðstafanir í sambandi við hann o. fl. 2, kafli er um sótthættuna, eftir að féð er komið hingað, og þær ráðstafanir, sem gera þarf til , að fyrirbyggja, að sjúkdómarnir geti leynzt og borizt út. 3. kafli er um einblendingsrækt, þá blöndun, sem á eingöngu að vera einblendingsblöndun, þannig, að blendingar verði ekki látnir lifa, nema sauðir eða geldingar. — 4. kafli er um það, að ætlazt er til, að fjárkynið verði hreinræktað, ef tilraunin þykir gefast vel, og landsmönnum síðan seldir hrútar. Landbn. hefir íhugað rækilega þetta frv., enda hefir hún líklegast haft nægan tíma til þess, og n. hefir komið sér saman um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Hinsvegar ber n. fram breytingar við frv., og eru sumar þeirra, og þá sérstaklega sú fyrsta, allverulegar. Er rétt að geta þess strax um 1. brtt., sem leggur til, að einnig verði heimilaður innflutningur á þýzku karakulafé, að um þessa brtt. er ekki fullt samkomulag í n. Hv. 2. landsk. er þeirri brtt. ekki samþykkur, og veit ég, að hann muni sjálfur gera grein fyrir sínum ástæðum.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að flutt verði til Íslands brezkt holdafjárkyn, í því augnamiði að framleiða bæði stærra, þyngra og sérstaklega verðmeira sláturfé en hingað til hefir þekkzt hér. Útlend reynsla bendir til, að þetta mætti takast hér. Hún sýnir, að með því að blanda þessum bráðþroska fjárkynjum við önnur seinþroskaðri en þolnari og hraustari, má auka mjög verðmæti sláturfjár. Þetta kemur í ljós í Englandi; þegar bráðþroska holdafé er blandað við svarthöfðafé, þá fæst stundum tvöfalt og jafnvel þrefalt meira fyrir sláturlömbin en annars. Maður skyldi ekki láta sér detta í hug samskonar hlutföll her, þótt ísl. fjárkyni verði blandað við bráðþroska holdafjárkyn frá Englandi, en þó má búast við talsverðum tekjuauka, sérstaklega í sambandi við útflutt kælt og fryst kjöt, því að þessi fjárstofn gefur af sér kjöt sem líkast því, sem Bretar óska eftir, en þeim kvað ekki líka sem bezt okkar kjöt, eins og það er nú.

Í sambandi við þessa innflutningstilraun á brezku, bráðþroska holdafé, berum við tveir nm. fram brtt. þess efnis, að leyfður sé líka innflutningur á þýzku karakulafé, sem hefir sérstakan eiginleika í sambandi við framleiðslu skinna. Þetta fé mun aðallega eiga heima sunnan til í álfunni, Þýzkalandi og Suður-Evrópu. Okkur er sagt, að við merkan landbúnaðarháskóla í Halle á Þýzkalandi sé þessi fjárstofn ræktaður með mikilli nákvæmni og einna bezt; þessi fjárstofn hefir þann eiginleika, að skinnið af lömbunum nýbornum er sérstaklega verðmætt sem tízkuvara, og auk þess, að kostirnir í fjárkyninu eru ríkjandi, ganga í ættir við einblendingsblöndun; afkvæmið í 1. lið líkist alltaf föðurnum, sé hann karakulahrútur.

Sérstaklega var það sauðfjárræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, hr. Páll Zóphóníasson, sem ól á því við n., að hún gerði þá brtt. við þetta frv., að leyfður yrði innflutningur á þessu fé, og benti hann á, að árlega færist mikill hluti lamba sem unglömb, einkanlega við sjávarsíðuna, þar sem um fjöruskjögur er að ræða. En með því að nota karakulahrúta, mætti gera sér allt að því eins mikið verðmæti úr því lambi, sem dæi sem unglamb, og því, sem lifði, og stundum jafnvel meira.

Okkur tveimur nm. þótti rétt, eftir ákvæðinu, að gefa ríkisstj. jafnframt heimild til innflutnings á þessu fé sem hinu, sem áður er getið um.

Við gerum okkur vonir um, að þegar ríkisstj. einni er gefin heimild til innflutnings og getur notað alla þá krafta, sem fyrir hendi eru, til að forðast sjúkdómana, þá sé ekki meiri hætta á, að tjón hlytist af þessum innflutningi en gæti átt sér stað um annan innflutning. Við viljum í öðru lagi vænta þess, að landsmenn séu orðnir svo þroskaðir og skilji það vel þetta mál, að ef tilraunin heppnast vel og reynist framkvæmanleg og árangurinn sæmilegur, þá verði í náinni framtíð nógir menn, sem trúandi væri til að fara með slíka kynblöndun. — Nefndin er öll sammála um að mæla með frv., en einn nm. (JBald) er ósamþykkur sumum brtt.

1. brtt. er um það, að jafnframt því, sem 1. gr. heimilar innflutning á brezku holdafé, verði heimilaður innflutningur á þessu þýzka karakulafé. Ég hefi áður gert grein fyrir þessari brtt.

Með 2. brtt. við 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að flutt verði inn sérstakt fjárkyn, Oxfordshiredown og Leicester. Okkur þótti eðlilegra að tilgreina aðeins tegund fjárins, en ekki sérstök kyn og leggjum til, að í frvgr. verði ákveðið, að þetta skuli vera sauðfé með ákveðnum einkennum, bráðþroska holdafé.

3. og 4. brtt. eru aðeins orðabreyting ár, sem stafa af tillögunni um innflutning á karakulafé. Ég geri ráð fyrir, að ef till. um innflutning á karakulafé er felld, þá ættu 3. og 4. brtt. að vera teknar aftur — Í 5. gr. frv. er ákveðið að taka ákveðinn stað til sóttkvíunar og einangrunar. N. þótti heppilegra að binda þetta ekki, heldur gefa aðeins heimild, sem væri það rýmri, að hún dygði til að hafa við hendina þ að land, sem þörf væri á. — Í 6. gr. er gert ráð fyrir að hafa féð í sóttkví í 2 ár. Dýralæknir benti okkur n.mönnum á, að ekki væri hægt að ákveða fyrirfram neina tímalengd; reynslan sker úr því, hvað tíminn ætti að vera langur í sóttkví. Í 7. brtt. leggjum við til, að 7. gr. falli burt. Efni hennar er í greinunum á undan, einkum eftir að þær hafa tekið þeim breytingum, sem við ætlumst til, að á þeim verði gerðar. 8. brtt. er afleiðing af því, sem á undan er komið, en b-liður nemur burtu það ákvæði í 11. gr., að þær tilraunir, sem kynnu að verða gerðar, meðan féð er í sóttkví, verði sérstaklega miðaður við það, að ær verði fengnar úr öllum landsfjórðungum. Þetta er óþarft og fremur óheppilegt lagaákvæði.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta nú, en vera má, að eitthvað hafi gleymzt, sem ég vildi minnast á, og geri ég það þá síðar.