30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (1009)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Pétur Magnússon:

Ég stend ekki upp af því, að ég ætli að bæta um neitt af því, sem hv. frsm. sagði. En það var eitt atriði í ræðu hv. 2. landsk., sem mér virtist hann ekki ganga svo inn á, sem ég tel ástæðu til. Það var út af innflutningi á karakulafénu.

Hv. þm. sagði, eins og rétt er, að verðmæti skinnanna í venjulegu árferði sé milli 10 og 20 kr. Að vísu er það lágmarksverð, eftir því sem ráðunauturinn skýrði okkur frá. Þetta segir hann, að séu ekki meiri afurðir eftir ána en það sem hún gefur af sér, með því að selja lömbin að haustlagi. En hér hleypur hann yfir það, að með innflutningi á karakulafé er um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú, að skera lömbin á vorin nýfædd, og yrði það gert, svo framarlega sem skinnin standa í þau verði, auk þess sem lömbin, sem deyja strax eftir burðinn, gefa með þessu afurðir. Ef skinnaverðið er hinsvegar lagt, mundu lömbin sett á og slátrað að hausti. Og eftir þeim upplýsingum, sem ráðunauturinn gaf n., á að mega gera ráð fyrir, að kroppþungi einblendingsdilka af þessu kyni verði nálega sá sami og nú er. Þetta stendur því þannig fyrir mér, að hér sé verið að minnka áhættuna frá því, sem nú er, þótt ef til vill sé rétt, að skinnaverðið sé talsverðum verðsveiflum háð. En þá er á það að líta, að hér standa tvær leiðir opnar, skinnin, þegar verðið er gott á þeim, og kjötið, þegar skinnin falla í verði.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um lengd sóttvarnartímans, fæ ég ekki séð, að Alþingi hafi betri aðstöðu til þess að skera úr um, hve langur tíminn skuli vera, heldur en stj. eftir á með aðstoð dýralæknis og annara, sem helzt hafa vit á. Það má telja óöruggt, hverjir sem stj. skipa, að gætt verði frekustu varúðar sem unnt er, og því er engin ástæða til þess að lögbinda sóttvarnartímann.