30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (1010)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Jón Baldvinsson:

Það ber nú ekki svo mikið á milli mín og hv. meiri hl. n. Ég held, að ég hafi bent á þetta sama, sem hv. 4. landsk. minntist á, um áhættuna af því að geyma lömbin til hausts. Þar er nokkur áhætta. En þess ber að gæta, ekki sízt við skinnaverzlunina, að þegar vara stendur í þau verði, þá eru svo margir, sem verða til þess að framleiða hana, að sjaldan líður langur tími, þangað til hún fellur. Hér eru menn heldur fljótir til að hagnýta sér nýjungar, og mundi þetta því hafa töluverð áhrif á verð á skinnum, ef margir bændur notuðu sér þetta. En þótt hægt væri að fá þetta umtalaða verð fyrir skinn af hverju lambi, þá verður það ekki meira en úr dilkunum, þótt eitthvað drepist á vorin og ekki kæmi allt af fjalli á haustin, þar sem viðurkennt er, að dilkar af karakulafé eru heldur rýrari en dilkar af okkar fé, og það þarf ekki að muna ákaflega miklu á hvern dilk, til að það verði töluverð fjárhæð.

Þessar tvær leiðir, sem hv. 4. landsk. talaði um, eru því ekki sérlega glæsilegar. Ég tel því athugavert af þinginu að ganga út á þá braut að svo stöddu, en vil sjá fyrst, hvernig fer um innflutning á fé af holdafjárkyni. Svo er þess að gæta, að dýralæknir taldi meiri hættu af innflutningi þessa fjár. Menn hafa verið hræddir við innflutning á búfénaði og óttast, að hann kynni að flytja hingað skaðvæna sýki, sem hér yrði svo landlæg. Við höfum fyrir hér á landi kláðann, sem landið virðist aldrei ætla að losna við, þrátt fyrir allar þær ráðstafanir, sem hið opinbera hefir gert. Menn virðast hafa verið heldur trassafengnir við að reyna að útrýma honum, og kæmi hingað ný sýki með innflutningi þessa sauðfjár, er hætt við, að hún yrði hér líka landlæg.

Mönnum þættu það þungar búsifjar, ef hér kæmi upp sýki, svo að þyrfti að skera bústofn bænda á grunuðu svæðunum. En þetta er að sjálfsögðu það, sem taka þarf með í reikninginn, þegar um er að ræða innflutning á lifandi fé. — Þetta verður ekki deilumál af minni hálfu, en ég álít ekki rétt að ganga lengra en ég hefi áður sagt.