30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

13. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson:

Það er að vísu rétt, að þetta er mér ekkert kappsmal, hvorki til né frá, en hitt þótti mér rétt að benda á, að bæði eru miklir örðugleikar á framkvæmd frv., og svo er það á hinn boginn fremur lítið og óverulegt, sem vinnst. Fáir bændur taka meira en sem nemur 1/2–1 tn. af áburði á ári, svo að flutningsstyrkurinn mundi tæplega nema meðalbónda meira en svo sem 20 til 40 kr. um árið, og suma bændur miklu minna. Það skal játað, að þessi útreikningur á ekki við hvað Suðurlandsundirlendið snertir, en er fremur miðaður við aðra landshluta, t. d. Norðurland, þar sem víðast er fremur skammt upp frá höfnum. Þess vegna er hér almennt ekki um neitt stórræði að tefla, a. m. k. í samanburði við þann aðstöðumun, sem kemur fram í flutningum t. d. byggingarefnis; þar nemur flutningskostnaðurinn mörgum hundruðum króna, en þó er ekki hið minnsta tillit tekið til þess við lánveitingar úr byggingar- og landnámssjóði. En ef á að fara að upphefja þennan aðstöðumun, þá lægi miklu nær að byrja annarsstaðar, þar sem þörfin er meiri. Á hitt hefi ég einnig bent sem staðreynd, að niðurjöfnun styrksins er svo miklum vandkvæðum bundin, að engin von er til, að menn verði ánægðir. Er þá illa farið, ef ekki stærra mál en þetta á að verða til þess að koma á sundrung og reiptogi innan sveitanna, og virðist það í öllu falli mjög varhugavert að lögbinda möguleikana fyrir því, eins og þetta frv. miðar að. Þess vegna hefi ég ekki talið það ómaksins vert fyrir ríkisvaldið að fara að hlaupa í skrapana fyrir þá, sem verri aðstöðu hafa hvað flutninga snertir. Annars er mér þetta svo sem ekkert kappsmál; ég veit það fyrir víst, að mínir kjósendur eru yfirleitt þessu andvígir, og sama hygg ég, að megi segja um fjölda manna um allt land. Ég get viðurkennt, að gildandi lög um þetta efni eru mjög gölluð, og má vera, að till. n. miði að sumu leyti í rétta átt, en yfirleitt er ég mótfallinn þessari stefnu frv., af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar greint.