12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (1023)

22. mál, bókhald

Pétur Magnússon:

Þó ég hafi skrifað athugasemdalaust undir nál., gerði ég það talsvert hikandi, því ég er í efa um, hvort ekki er of langt gengið í þessu frv. í því að skylda menn til að hafa bókhald. það er ljóst, að margir þeirra, sem gerðir eru bókhaldsskyldir samkv. þessu frv., eru ekki færir um að annast það sjálfir og þó sízt, ef um tvöfalt bókhald er að ræða. Yrðu þeir því að kaupa til þess menn, og væri það dálítill aukakostnaður fyrir þá.

En það, sem gerði það að verkum, að ég vildi ekki gera þetta að ágreiningsatriði í n., eru undanþáguákvæði 4. gr. frv., en þar segir, að lögreglustjórum sé heimilt að veita smáatvinnurekendum undanþágu til allt að 5 ára í senn frá því að færa bækur sínar eftir reglum tvöfaldrar bókfærslu. Ég stóð einmitt aðallega upp til þess að vekja athygli á, að í umr. um málið í n. var gengið út frá því sem sjálfsögðu, að þessu undanþáguákvæði yrði frjálslega beitt. Og ég vildi láta þetta koma hér fram, til þess að lögreglustjórar viti, út frá hverju er gengið við setningu þessara laga.

Þá vildi ég skýra frá því, að ég lagði það til í n., að þetta frv. væri sent iðnráðinu til umsagnar, en samnm. mínir gátu ekki séð ástæðu til þess. Ég tel þetta heldur verr farið, því að mínu áliti ætti þó frekar að vera til gagns en ógagns, að fulltrúar þeirra stétta, sem frv. varðar mestu, fái að segja álit sitt um það. En úr þessu má ef til vill bæta ennþá, milli 2. og 3. umr., ef hv. samnm. mínir vilja fallast á það.