12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (1024)

22. mál, bókhald

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Það er rétt tekið fram hjá hv. 4. landsk. viðvíkjandi starfi n., að hann leit nokkuð öðrum augum á það en við hinir, hve langt skyldi ganga í því að skylda menn til að hafa tvöfalt bókhald. Vildi hv. 4. landsk. frekar draga úr ákvæðum frv., en skrifaði þó undir nál. fyrirvaralaust, svo að ekki er hægt annað að segja en að samkomulag hafi verið gott í n.

Hvað iðnráðinu viðvíkur, þá lagði hv. 4. landsk. ekki mikla áherzlu á, að frv. þetta væri borið undir það, fyrr en eftir það, að n. hafði skilað nál. sínu; þá lét hann það í ljós við mig, að hann óskaði eftir, að það væri gert. Annars má auðvitað gera það nú á milli 2. og 3. umr., ef samkomulag fæst um það í n. Annars fylgdi frv. þessu upphaflega nokkur grg. frá verzlunarráðinu. En það er efamál, hvort rétt er að bera frv. sem þetta undir aðra en þá, sem sérstaka þekkingu hafa á bókhaldi, og ef það er rétt, að iðnaðarmenn séu yfirleitt ekki vel að sér í bókfærslu, þá er tæplega ástæða til þess að bera frv. undir þá.

Annars hlýtur öllum að vera það ljóst, að því minna sem fyrirtækið er, því minni fyrirhöfn er að færa bækur samkv. því, sem fyrir er mælt í frv. Mun það því varla baka mönnum aukið erfiði svo neinu nemi. Og þó að menn þurfi eitthvað að læra til þess, þá er það varla svo mikið, að hver og einn geti ekki lagt það á sig.