24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (1032)

22. mál, bókhald

Benedikt Sveinsson [óyfirl.]:

Þetta frv. er eitt af þeim, sem miða að því, að bæta frágang á bókfærslu hjá allskonar viðskipatstofnunum og koma henni í það horf, að glöggt og auðvelt sé að sjá hag þeirra, hvenær sem er. Frv. miðar því í sjálfu sér í rétta att. En þótt svo sé, þá vildi ég samt mælast til þess, að sú hv. n., sem fær frv. til meðferðar, athugi það vel, hvort ekki er í frv. of mikið heimtað í einum rykk. Undir ákvæði frv. koma margskonar stofnanir og starfsemi, sem ekki hafa þekkt til þessa bókhalds áður. En nú verða þær skyldugar til þess, eins og frv. segir. Að koma þessu á í einum rykk held ég, að valdi vafningum og vandræðum þeirra, sem fyrir því verða. Þá mun það og valda ekki litlum aukakostnaði, því margir munu fyrst í stað verða að fá sér aðstoð, á meðan þeir kunna ekki sjálfir til þessarar bókfærslu.

Samkv. því, er ég hefi sagt, álít ég það því vera verkefni n. að ganga í gegnum 2. gr. frv. og taka út úr henni ýmsar tegundir af smærri atvinnurekstri, sem eru þess eðlis, að vart má koma við að hafa þá bókfærslu, sem í lagi megi teljast eftir ákvæðum þessa frv.

Íslendingar hafa á ýmsum sviðum orðið að feta sig smátt og smátt fram. ýms ábyrgðarfélög og tryggingarfélög hafa verið stofnuð og litlar kröfur gerðar til þeirra í byrjun. En svo hefir verið hert á kröfunum smátt og smátt. Er það að mínu viti rétt leið, þegar um nýbreytni, sem krefst þekkingar, er að ræða, að láta hana ekki vera mjög víðfeðma í byrjun, heldur mun rétt að færa hana út smátt og smátt, eftir því sem menn venjast henni og þekking manna eykst. Unga fólkið, sem meiri menntun fær, kemur líka smátt og smátt inn í þessa starfsemi, og til þess mætti gera fyllri kröfur. Og þá mætti bæta inn í l. því, sem nú gæti verið rétt að fella niður úr frv.

Ég er nú að vísu enginn fræðimaður á þessu sviði. En ég hefi orðið var við menn, sem fast við smáa afurðasölu og þess háttar. Þeir hafa enga bókfærslu þurft að hafa aðra en þá, að þeir hafa krotað í vasabókina sína. Ég veit, að þeir kvíða mjög þeirri flóknu bókfærslu, sem lögin fyrirskipa. Vil ég vænta þess, að hv. n. taki þetta mjög til athugunar.