04.03.1931
Efri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (1039)

24. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Jón Jónsson):

Menntmn. hefir athugað þetta frv. og komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé fyllilega þess vert, að það verði leitt í lög. Það hefir að geyma ýms nánari ákvæði um þetta efni en í núgildandi lögum er, og að sumu leyti er það breyt. áa þeim lögum, sem gilda nú í þessu efni, það má heita þjóðarsómi, að kirkjugörðum sé haldið vel við og betur en átt hefir sér stað hingað til, og að því munu þessar breyt. stuðla, ef þær komast í framkvæmd. Ég skal þá að nokkru rekja þau ákvæði, sem hér á að breyta frá því, sem hingað til hefir verið.

Fyrst er það, að hver maður eigi rétt til legstaðar í þeirri sókn, sem hann er búsettur í, og líka í þeim kirkjugarði, sem hann í lifanda lífi hefir óskað eftir að vera grafinn í, en eftir þeim lögum, sem gilda um þetta nú, sem mun vera Kristinréttur Árna biskups, þá áttu menn ekki rétt til að vera grafnir í sinni sókn, ef þeir önduðust utan sóknar.

Meginbreytingin frá núgildandi lögum liggur þó ekki í þessu, heldur er hún viðvíkjandi því ákvæði, sem er í núgildandi lögum, þar sem ákveðið er, að kirkjugarisarnir skuli vera eingöngu safnaðarmál. Safnaðarstj. áttu að sjá um að koma þeim upp , og einnig að útvega kirkjugarðsstæðið. Kostnaðinum átti síðan að jafna niður sem öðrum safnaðargjöldum. Nú á að gera breyt. hér á. Sveitarfélögunum er gert að skyldu að leggja til kirkjugarðsstæðið, þó svo, að þær kvaðir, sem kunna að vera á jörðum og lóðum, þar sem kirkjugarðar eru, haldist óbreyttar. Jafnframt þessu er það ákvæði tekið upp, að gjöldum viðvíkjandi kirkjugörðum verði jafnað niður á sama hátt sem útsvörum, eftir efnum manna og ástæðum, en ekki sem persónugjaldi, eins og verið hefir um öll sóknargjöld. Þetta er ef til vill stærsta breytingin.

Þá er ákvæði um það, að þegar nýr kirkjugarður er byggður eða gamall stækkaður, skuli leita álits héraðslæknis viðvíkjandi því og fáa vottorð hans um það, að kirkjugarðsstæðið sé valið samkv. heilbrigðisreglum. Sömuleiðis á að gera uppdrátt af kirkjugarðsstæðinu, sem biskup og kirkjumálaráðuneytið samþykkir. Sama skylda er viðvíkjandi þeim görðum, sem nú eru notaðir. Af þeim á að gera uppdrátt og senda hann til biskups og kirkjumálaráðuneytisins.

Þá er í frv. ákvæði um grafkapellur. Sóknarnefnd þarf ekki að leyfa þær nema gegn ákveðnu gjaldi. Getur hún og sett ákvæði um það, hvernig þeim skuli fyrir komið.

Þá er ákvæði um líkbrennsluna. Ef menn vilja, geta þeir látið grafa duftið í kirkjugarði eða grafhvelfingu. Annars eru lög um líkbrennslu frá 1915 látin standa óbreytt.

Þá er svo kveðið á, að skógræktarstjórn landsins sé skylt að láta af hendi ókeypis trjáplöntur til að prýða með kirkjugarða, sem má búast við, að meira verði gert að hér eftir en hingað til.

Heimilt er mönnum að stofna legstaðasjóð og tryggja sér með því viðhald á legstað sínum eða vandamanna sinna. Sjóði þessa skal fela á hönd sóknarnefnd, og er hún þá skyld til að halda legstöðunum við.

Sóknarnefnd er heimilt, að fengnu samþykki safnaðar- og héraðsfundar, að koma á samþykkt, sem ákveður, að legkaup skuli greiða.

Þá er ákvæði um heimagrafreiti. Þeir eru leyfðir með nánari ákvörðun, helzt því, að sett sé trygging fyrir því, að þeim sé haldið sæmilega við.

Loks er um grafreiti utanþjóðkirkjusafnaða, sem hafa sérstakan grafreit fyrir sig. Þeir skulu vera lausir við öll gjöld til grafreita þjóðkirkjunnar. Í því sambandi vil ég geta þess, að n. fannst það álitamál, hvort ekki væri rétt að veita þessum sérstöku söfnuðum rétt til að fá ókeypis kirkjugarðsstæði og önnur þau fríðindi, sem ákveðin eru í þessu frv. til handa þjóðkirkjusöfnuðunum. Í því skyni flutti hún brtt. á þskj. 72. En eftir nánari upplýsingar, sem n. fékk frá safnaðarstjórninni hér í bænum, vill hún taka þetta aftur til frekari athugunar, og tekur því brtt. aftur til 3. umr.

Af öllu þessu vona ég, að hv. dm. sé það ljóst, að í frv. eru ýmis ítarlegri ákvæði en áður voru í þessu efni og stuðla að því, að betri hirða verði á kirkjugörðum en verið hefir. Leggur n. því til, að frv. verði samþ.