30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

13. mál, tilbúinn áburður

Pétur Ottesen:

Mótmæli hv. þm. Húnv. gegn þessu frv. byggðust á því einkum, að yfirleitt séu ekki gerðar ráðstafanir til þess að gera aðstöðumun þeirra, sem langt eiga að flytja eða skammt, minni en hann er nú. Ég vil benda hv. þm. 5, að þetta er alls ekki aðalatriðið í málinu, heldur hitt, að með þessu frv. er verið að greiða fyrir mönnum um notkun tilbúins áburðar í þágu aukinnar jarðræktar í landinu. Hér er því fyrst og fremst um stuðning við jarðræktina að ræða. Með því að greiða einungis flutningskostnað á áburðinum til landsins, kemur flutningsstyrkurinn mjög ójafnt niður; þeir, sem búa við kaupstaði eða hafnir, fá greiddan allan flutningskostnaðinn, en hinir, sem búa lengra burtu, í mikilli fjarlægð frá þeim stöðum, sem áburðurinn er lagður á land, fá ekki greiddan nema lítinn hluta af þeim raunverulega flutningskostnaði. Víða er það svo, að flutningskostnaður áburðarins frá útlöndum til hafnar hér er ekki nema lítill hluti af flutningskostnaðinum frá höfn og heim til notenda. Það er því nokkurnveginn auðsætt réttlætismál, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að þessi styrkur komi sem jafnast niður að tiltölu og sem bezt að notum, og með það fyrir augum er þetta frv. flutt. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. V: Húnv. að blanda hér öðru óskyldu inn i. Mér er ekki heldur kunnugt um, að úthlutun styrksins hafi valdið sérstökum erfiðleikum, og ég sé enga ástæðu til þess að ætla slíkt, þótt þetta frv. yrði að lögum. Að styrkurinn mundi valda sundrung og óánægju, er fjarri öllu viti. Hinsvegar verður að taka nokkurt tillit til þess, að fram er komin áskorun frá nýafstöðnu búnaðarþingi um að láta þetta mál ganga fram, enda er full ástæða til að ætla, að vilji bænda almennt liggi að baki þessum till., og er það mjög að vonum. Það á vitaskuld við engin rök að styðjast, að það verði svo torvelt að skipta styrknum niður, að það eigi fyrir þá sök á hverfa frá þessu sjálfsagða fyrirkomulagi.

Annars er það um okkur hv. þm. V.-Húnv. að segja, að við búum báðir nálægt höfnum, og við megum því í rauninni vera ánægðir með gildandi lög hvað snertir okkur sjálfa. En ég vil segja hv. þm. það, að við megum ekki kippa okkur upp við það, þótt okkar hlutur verði eitthvað minni fyrir það, að landflutningarnir verði eitthvað styrktir líka, og við megum alls ekki vera á móti málinu fyrir þá sök. Við verðum að líta á þörf þeirra, sem erfitt eiga um flutninga. Við verðum að hafa það hugfast, að með þessu erum við að styðja að aukinni túnrækt og nýyrkju í landinu.