04.03.1931
Efri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (1040)

24. mál, kirkjugarðar

Halldór Steinsson:

Við yfirlestur þessa frv. rak ég mig á ákvæði um niðurlagða kirkjugarða. Álít ég, að þar sé ákvæði, sem gengur ekki nógu langt. Í 23. gr. stendur, að þegar 20 ár eru liðin frá því að kirkjugarður hefir verið lagður niður. Þá sé heimilt að slétta yfir garðinn, ef safnaðarfundur og ráðuneytið samþykkir. Í sveitum er nú þegar búið að slétta yfir marga gamla kirkjugarða. Í sama kafla er það einnig ákveðið, hvernig verja skuli slíka garða fyrir skemmdum, sem á þeim kunna að verða. Það er aðallega 25. gr., sem mér finnst ekki ganga þar nógu langt og ekki ná því marki, sem ætlazt er til. Þar stendur svo, — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem sjór brýtur gamla kirkjugarða eða niðurlagður kirkjugarður eyðist af uppblæstri, svo að bein framliðinna koma í ljós, ber prófasti að tilkynna kirkjustjórninni það. Gerir hún fornmenjaverði aðvart, og getur hún þá með ráði hans gert þær ráðstafanir, sem þurfa þykir. Er sóknarnefnd þá skylt, ef þess er krafizt, að láta færa bein framliðinna til greftrunar í kirkjugarði sóknarinnar, á kostnað kirkjugarðsins“.

Framkvæmd á þessu finnst mér vera allt of vafstursmikil. Fyrst á að gera prófasti aðvart. Nú getur verið, að hann sé ekki nálægur. Síðan á hann að láta kirkjustj. vita um þetta og kirkjustj. á að gera fornmenjaverði aðvart. Allt þetta vafstur getur tekið framundir ár. Ég vék sérstaklega máls á þessu, af því að mér er kunnugt a. m. k. um tvo niðurlagða kirkjugarða, sem eru að eyðileggjast, bæði af uppblæstri og ágangi vatns. Ég veit til þess, að kirkjugarður, sem er úti á eyju og hefir verið lagður niður fyrir mörgum árum, hefir orðið fyrir svo miklum uppblæstri, að bein hafa komið þar upp úr svo að segja hverju leiði. Um þetta hefir ekkert verið hirt, svo að mér sé kunnugt, en útlendingar hafa flutt þaðan heila hestburði af beinum, sem þeir hafa fengið gefins eða með lágu verði.

Ég get bent á annað tilfelli þar vestra, ekki langt þar frá, sem ég á heima. Þar er kirkjugarður, sem var sléttaður út fyrir 10–12 árum, að mig minnir. Vatnsfall rennur þar rétt hjá bænum. Hefir myndazt þar bakki, þar sem garðurinn er, því að vatnið hefir grafið þar allmikið, svo að nú standa út úr bakkanum endar á 8 eða 9 líkkistum. Þetta særir ekki aðeins tilfinningar þeirra, sem eiga þarna jarðaða vini og vandamenn: það særir tilfinningar hvers manns, sem þetta sér. Síðast þegar ég reið þar um mátti sjá kistuendana út úr bakkanum og bein á við og dreif á eyrunum með ánni. Og vegna þess að engin lagaákvæði eru um það, hvernig að skuli fara í svona tilfellum, þá hefir sóknarnefndin og ábúandinn á þessari jörð verið að deila um það, hver bera skuli kostnaðinn við þetta. Slíkt má ekki eiga sér stað.

Ég get ekki séð, hvað fornmenjaverði kemur þetta mál við. Ég veit ekki, hvað það á að þýða að fara að gera honum aðvart, þó að úr jörðu komi bein manna, sem ef til vill hafa dáið fyrir aðeins 50 –60 árum. Þar getur ekki verið um neinar fornmenjar að ræða.

Þessi grein ætti að vera þannig, að sóknarnefndum væri gert að skyldu að koma beinum látinna manna í kirkjugarð undir eins og þau kæmu úr jörð. Ég vil sérstaklega beina því til hv. n., að hún athugi þessa gr. frv. og reyni að koma á öðruvísi skipulagi um niðurlagða kirkjugarða.