06.03.1931
Efri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (1044)

24. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. um kirkjugarða fékk svo góðar undirtektir við 2. umr., að það var samþ. eins og það lá fyrir. En út af aths., sem hv. þm. Snæf. kom fram með, hefir n. tekið eitt atriði til athugunar síðar, og það er það, sem minnzt er á í 25. gr. frv., hvað eigi að gera við gamla eða niðurlagða kirkjugarða, sem eyðzt hafa af uppblæstri. Til þess að ganga til samkomulags við hv. þm., hefir n. leyft sér að koma með brtt. á þskj. 99, svo að gr. verður nokkuð öðruvísi, þannig að sóknarnefndum er lögð á herðar rík skylda að tilkynna fornmenjaverði eða prófasti skemmdir á kirkjugörðum. Ég vona, að hv. þm. geti sætt sig við þessi málalok, sem gert er ráð fyrir.