30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

13. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Það er óþarfi að gera þetta að hitamáli, eins og nú virðast allar horfur á. Ég get tekið undir það með hv. þm. V.-Húnv., að með þessu frv. er langt frá fengið fullt réttlæti í úthlutun slíks styrks, en hitt er efamal, að nær verði komizt hinu rétta. Og með þessu frv. er mjög létt undir með þeim bændum, sem lengst eiga að flytja, t. d. bændum á Suðurlandsundirlendinu, og þegar hinsvegar er á það litið, að samkomulag varð um þetta á síðasta búnaðarþingi, þá ættum við að geta sætt okkur við að afgreiða málið í þessari mynd, en láta gamlar væringar í þessu máli falla niður. Ég held, að þessi lausn málsins verði í alla staði talin forsvaranleg og viðunanleg, en ef aðrar leiðir kynnu að finnast heppilegri, þá er sjálfsagt að athuga þær og breyta frv. með tilliti til þess, ef mönnum þykir það betur fara.