24.03.1931
Efri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (1060)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Halldór Steinsson:

Þetta er eitt af þeim frv., sem má segja, að sé meinlaust og gagnslaust. Hér er verk, sem ekki á að framkvæmast fyrr en eftir nokkur ár. Ég álít, að þetta frv. sé alls ekki til þess, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að þoka málinu áfram. Það vita allir menn, að þetta kemur því aðeins til greina, að fé sé fyrir hendi. Við höfum nógu mörg dæmi um slík lög frá Alþingi, t. d. hafnarlög, sem nú eru búin að standa ein 10 –12 ár, án þess að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað. Og enn er nógur tími til að semja lög um þessa Háskólabyggingu, þó að það væri geymt, þangað til von er um, að fé sé fyrir hendi til framkvæmdanna. Það er svo mikill áhugi fyrir velgengni háskólans, að ekki er nokkur hætta á, að fylgið mundi þá vanta til þess að koma lögunum fram og koma á fót þessari stofnun. Ég verð að telja þetta frv. alveg þýðingarlaust og gagnslaust. En ég sé ekki ástæðu til að leggjast beint á móti því, að það sé athugað, þótt það nái skammt til að hrinda þessu máli í framkvæmd.