28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (1069)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Guðmundsson:

Mér kemur það næsta undarlega fyrir sjónir og skil ekki, hvaða þýðingu það hefir að setja lög, sem heimila næstu þingum að veita fé í eitthvert ákveðið fyrirtæki. Það hefir verið svo, að hvert þing hefir veitt fé úr ríkissjóði eftir sínu höfði, án þess að spyrja um það, hvað önnur þing kunna að hafa álitið um þau efni.

Þetta frv. virðist mér því, að ákveði ekki annað en það, að ekki skuli byrjað á háskólabyggingunni fyrr en 1934, og mér finnst það ekki sízt athugavert í þessu sambandi, að einn af flokksmönnum hæstv. dómsmrh. í Ed. hefir viljað skjóta málinu á lengri frest en þetta.

Hæstv. ráðh. hefir talað um húsnæðisleysi háskólans og viðurkennt nauðsyn þessa máls, en ég get ekki skilið, að þörf sé á svo löngum undirbúningstíma, sem hann vill vera láta eftir frv. Samningarnir við bæjarstj. Rvíkur um lóð fyrir skólann þurfa áreiðanlega ekki að taka langan tíma, því það er fyrirfram vitað, að bæjarstj. er samvinnufús í þessu máli og hefir gefið vilyrði fyrir ágætri lóð.

Hinsvegar gæti það einmitt dregið úr bæjarstj. Rvíkur, ef ríkið vildi endilega fresta framkvæmdum að sinni.

Ég skil það vel, að eins og nú er komið, sé ekki hægt að ákveða að byrja nú þegar, en að þurfi að ákveða, að ekki megi byggja fyrr en 1934, það skil ég ekki.

Annars væri gaman að rifja upp gömul ummæli hæstv. ráðh. um heimild stj. fyrir byggingum. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að tala um það, en vil minna á, að hæstv. ráðh. sagði er hann var í stjórnarandstöðu, að það væri mesta goðgá af nokkurri stj. að leyfa sér að leggja fyrir þingið frv. um opinberar byggingar, þar sem ekki væri nákvæm teikning og kostnaðaráætlun fyrir hendi. Hann er horfinn frá þeirri skoðun nú, og er það gott, því hún er röng.

En út af því, sem hann sagði um Stúdentagarðinn, vil ég spyrja, hvenær byrjað verði á honum, veit ég, að stúdentum er það mikið áhugamál, að hafizt verði handa í því efni sem fyrst.