28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (1070)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að sér þætti lítið gagn að þessum heimildum, en ég vil minna á, að hann hefir bæði í fyrra og í vetur borið fram frv., sem er skylt þessu, nefnilega frv. til hafnarlaga fyrir Sauðarkrók. Fyrst er byrjað að samþ. hafnarlögin; fyrst er slegið föstu að reisa bygginguna, en síðan verða menn að bíða svo og svo lengi eftir framlagi ríkissjóðs, eins og það er veitt í fjárl.

Hv. þm. sagði, að sér þætti kátlegt, að ekki mætti byrja fyrr en 1934, en mér er þetta ekkert kappsmál, og væri ekkert á móti því, þó ártalið væri flutt fram, en ég býst við því, að töluverðan undirbúning þurfi á þessu máli, sem tæki tíma; en ég játa það með hv. þm., að samningar við Rvík þurfi ekki að taka svo langan tíma; að þessu standa allar deildir háskólans, sem hafa gert sínar kröfur, en þær kröfur verða að minnka eða breytast að einhverju leyti, og nýir liðir að bætast við, sem ekki eru þarna nefndir.

Hv. þm. talaði um það, að Danir eru að reisa háskóla í Árósum. Þeir eru auðvitað ríkari en við, en þó hefir þessi háskóli þurft margra ára undirbúning. Ég hefi myndir og teikningar af því, hvernig skipulagið á að vera, og er kunnugt um, að þessa þjóð hefir tekið nokkuð mörg ár að undirbúa skipulag þessa menningarverks.

Þá spurði hv. þm., hvenær ég heldi, að byrjað yrði á Stúdentagarðinum, en byggingarnefnd hefir ekki talað neitt við mig um þetta síðasta árið, og held ég það stafi af því, að málið var vel undirbúið, búið að gera teikningar og grafa grunninn, en svo kemur sú stefnubreyting, að þeir vilja ekki byggja á sínum gamla stað. Þess vegna hefi ég sett það inn í þetta frv., að Stúdentagarðurinn gæti fengið lóð við háskólann, ef forstöðunefnd vildi. Ég held, að ef þetta væri gert, þá væri Stúdentagarðsmálinu hrint áfram, því stúdentar hafa töluvert fé og loforð um víst framlag úr ríkissjóði, þegar þeir vilja byggja. Ég get vel hugsað mér, að fyrr yrði byrjað á þessu, en býst við, að landinu þætti erfitt að leggja sinn hluta í málið á næstu missirum, en held, að hjá forráðamönnum stúdenta séu skiptar skoðanir um planið. Sumir vilja hafa eina byggingu, en aðrir Stúdentagarðsvinir vilja hafa 4 minni hús; þetta hefir ekki verið afgert enn.

Að síðustu minnti hv. þm. mig á það, að við einhverja aðra byggingu hafi ég viljað sjá teikninguna, þetta getur vel verið, ég man það ekki lengur, en það er öðru máli að gegna um minni byggingar, sem hægt er að teikna fyrirfram en það er enginn maður á Íslandi, sem getur sagt um, hvernig háskólinn muni líta út, og um slíka byggingu tekur það mikinn tíma. Það tók mikinn tíma að byggja Landsspítalann, sem er sú byggingin, sem helzt er sambærileg.