28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (1073)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Hannes Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. let í ljós ánægju sína yfir kapphlaupinu milli hæstv. Dómsmrh. og hv. 1. þm. Skagf. um að koma sem fyrst fram þessari háskólabyggingu. Ég verð að segja, að ég er ekki svo hrifinn af þessu kapphlaupi, og finnst mér, að þeir hefðu mátt líta betur fram fyrir fæturna á sér, áður en þeir geystust svo fast fram.

Mér skildist á hv. 1. þm. Reykv., að í frv., eins og það er, væri ekki það, sem fyrst og fremst lægi á að fá fram. Það, sem þyrfti að gera, væri að hefja undirbúning, og ég held, að ekki væri vanþörf á því, að hefja einhvern undirbúning á þessu máli, áður en sett eru lög um það, sem ekki eiga að koma til framkvæmda fyrr en eftir 3 ár. Ég hefði ekkert á móti því, að reynt væri t. d. að finna stað fyrir skólann, sem gæti orðið varanlegur samastaður fyrir hann. Ég held, að það hafi aldrei verið uppi föst skoðun um það, hvar hann á að standa. Og þó að í augnablikinu séu einhverjir, sem kunna að vera sammála um það, þá er ekki efi á því, að eins og þetta breyttist hér um árið, þá gæti alveg eins farið nú.

Ég held, að við ættum að gefa þeim, sem að háskólanum standa og þeim, sem fremstir standa í þessum málum hér í bænum, ennþá nokkurn tíma til þess að vinna að því að finna skólanum stað. Og svo er hinn undirbúningurinn, sem óneitanlega er æskilegt, að búið sé að framkvæma, og það er, hvernig þessi bygging á að vera, hvort kosta á til hennar 600 þús. kr. eða einni millj. eða kannske 2 millj. mér finnst ekki rétt að fara að semja lög um þetta, áður en menn eru bunir að koma sér saman um, hvar byggingin á að standa, hvernig hún á að vera og hversu miklu á til hennar að kosta.

Yfirleitt hefi ég ekki skilið það írafár hv. þm. að koma á lögum um framkvæmdir, sem bundnar eru því skilyrði, að einhverntíma kunni þær að verða teknar upp í fjárveitingar í fjárlögunum. ég held, að þetta sé ekki svo nauðsynlegt, þegar fyrirsjáanlegt er, að þetta verður ekki framkvæmt á næstu árum. En ef á annað borð á að fara að lögfesta þetta, þá vil ég láta þá skoðun mína í ljós, að ég vildi heldur færa framkvæmd málsins lengra fram í tímann heldur en færa hana nær. Þetta er vegna þess, að ég veit, að það verður mikið yfir 600 þús. kr., sem þessi bygging kemur til að kosta.

Ég vildi aðeins láta þessa skoðun í ljós við fyrstu umr. málsins, og ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, annaðhvort svæfi það, eða breyti því þannig, að það komi ekki til framkvæmda á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir í frv. Það þýðir ekki að vera að slá ryki í augun á sér með því að setja tölur á pappírinn, sem eru langt fyrir neðan það, sem bygging háskólans kostar.