09.03.1931
Efri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (1083)

102. mál, myntlög

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. hafði einu sinni tækifæri til þess, þegar hann réð miklu hér á landi, að leysa gengismalið á þann hátt, sem hann seinna hefir látið í ljós, að hann vildi að það yrði leyst. En það er síður en svo, að hann notaði það tækifæri; þvert á móti hefir hv. þm. játað, að hann hafi stöðvað gengishækkunina 1925. Því að það er vitanlegt, að þegar hún var stöðvuð, var ísl. krónan þó komin talsvert hærra en hún er nú, eða var það a. m. k. í nokkra daga; en síðan var hún færð niður aftur, þannig að sterlingspundið hækkaði upp í það, sem það hefir setið í síðan, 22,15 kr.

Það getur verið, að hækkun hefði valdið talsverðum erfiðleikum í bili, en ég efast ekki um, að þeir mörgu kostir, sem fylgja því, að halda peningunum uppi, hefðu seinna bætt úr því. M. a. telja menn það einna mestan kost við að hafa krónuna í gullgildi, að hágengislöndin fái meira og betra verð fyrir sínar vörur. Þetta kom líka fram í umr. hér og annarsstaðar um gengismálið, og ætla ég ekki að fara frekar út í það.

Um þetta frv., sem hæstv. stj. leggur fyrir þingið, ætla ég ekkert að segja að svo stöddu, því að ég mun fá tækifæri til þess að athuga það í n., sem væntanlega verður fjhn., og verður þar tekin afstaða til þeirra frv. beggja, sem fram eru komin í þessu máli.

En það er sjálfsagt að gera einhverjar fleiri ráðstafanir heldur en beint að samþykkja þetta frv., ráðstafanir, sem kannske verður dálítið erfitt að framkvæma í slíku ári, sem nú er. Það gerði því ef til vill ekki svo mikið til, þó að þetta raunverulega ástand héldist í eitt ár í viðbót, enda sé ég ekki, að það hafi hamlað því, að ríkissjóður hafi getað fengið þau lán, sem þingið hefir falið stj. að útvega. Það hefir oft heyrzt klingja sem röksemd fyrir festingu krónunnar, að þegar föst löggjöf væri komin á um það, mundi auðveldara um lán. Ríkisstj. hefir nú getað fengið lán, og þó að það sé ekki með svo góðum kjörum, sem æskilegt hefði verið, þá er ég ekki viss um, að þetta hefði breytzt mikið, þó að búið hefði verið að festa.

Þessar aths. vildi ég láta fylgja frv. En viðvíkjandi ummælum hæstv. ráðh., að engin trygging væri fyrir því, að ekki yrði stýft síðar, þótt það væri látið ógert nú, þá er það sama tryggingin og fyrir því, að henni verði haldið í 83 aurum, ef nú verður stýft, en um það ræður mestu afkoma þjóðarinnar.

Þetta frv. gefur mér ekki tilefni til frekari aths. nú, en ég býst við að láta það afskiptalaust, þótt frv. fari til 2 umr. og nefndar.