24.02.1931
Neðri deild: 8. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (1086)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Flm. (Halldór Stefánsson):

Við flm. þessa frv. höfum gert ítarlega grein fyrir þeim ástæðum, sem fyrir því eru, bæði fyrir hinum almennu ástæðum og eins ástæðum fyrir einstökum greinum frv.

Það, sem fyrir okkur vakir með þessu frv., er einkum það, að koma föstu skipulagi á um sléttun túnanna og að með því megi takast á tiltölulega stuttum tíma að gera öll tún landsins slétt og véltæk til heyskapar, og að bæta og auka jafnframt ræktaða landið, eftir því sem föng eru til og þörf er á á hverjum stað.

Aðaláherzluna viljum við leggja á það, að slétta túnin sjálf og bæta rækt þeirra, vegna þess að ætla má, að af hinum sléttu og vel ræktuðu túnum megi fá allt að því 1/3 meiri heyafla en fæst af þeim nú.

Ég býst nú við, að margir hugsi svo, að með stuðningi þeim, sem ræktunarlögin veita til túnbóta, sé ætlað að ná þessu sama takmarki og má vera, að svo sé, að sú hugsun liggi par að baki, þó ekki sé það berlega sagt. En sá annmarki er þar á, að á grundvelli jarðræktarlaganna hefir verið og hlýtur að verða unnið svo ósamstætt og skipulagslaust að þessu takmarki, að það hlýtur að eiga langt í land, að því verði náð.

Í grg. frv. er áætlað, að 3/5 hlutar af túnum í sveitum séu ennþá ósléttaðir. Þetta er aðeins áætlun eða ágizkun, því að um það eru engar skýrslur eða örugg vitneskja. Sé nú samt miðað við það og jafnframt við það, sem framkvæmt hefir verið í túnasléttun síðustu arin, — og það er ekki talið vera lítið, — þá tekur það með meðaltalsframkvæmdum tveggja síðustu ára á milli 30 og 40 ár að sletta þann hluta túna, sem ennþá er ósléttaður, og þá er takmarkið alltof fjarri. Auðvitað færi það einnig eftir framkvæmdinni, hversu mikil hún yrði, hvenær lokið verður við að sletta öll tún, en vegna betra skipulags, og ef þing og stj. vildu sýna fullan áhuga á því að vinna að þessu takmarki, en þó án allrar ofdirfsku í framkvæmdum, þá ætti eftir okkar áætlun um framkvæmdir að takast að vinna þetta verk allt á 10 árum, með því að láta 50 dráttarvélar vinna árlega. Og þó um leið að vinna jafnstórt óræktað land til viðbótar við það, sem sléttað væri í túnunum sjálfum. En ef túnin ein væru tekin fyrir, þá þyrfti vitanlega miklu styttri tíma með sömu framkvæmd, og auðvitað því lengri, sem stærra óræktað land yrði tekið til vinnslu auk túnasléttunarinnar.

Verið getur, að menn áliti, að dýrari verði framkvæmd á túnasléttun, ef farið yrði eftir því, sem hér er gert ráð fyrir. Við hyggjum þvert á móti, að framkvæmdir geti orðið ódýrari með þessu fyrirkomulagi, því að hér er ætlað að vinna samstætt og skipulega, eins og haganlegast er. sé aftur á móti eingöngu unnið á þeim grundvelli, sem þegar er lagður um þetta efni, þá er það undir getu og geðþekkni einstaklinganna komið, hversu mikið og skipulega verður unnið. Með þeim tilstyrk einum, sem jarðræktarlögin ákveða, geta þeir máttarminni síður notið sín, þótt þeir hefðu fullan vilja til, heldur en þeir, sem máttarmeiri eru, og dragast því aftur úr vegna getuleysis, en aðrir vegna áhugaleysis, sem kemur í sama stað niður. Ef t. d. hinir framtaksmeiri og áhugasamari búendur í einhverri sveit eða héraði fá sér dráttarvélar, þá verður sú niðurstaða þar, að á þeim jörðum verða túnin meira og minna alslétt, þó ef til vill án þess að höfuðtakmarkið náist til fulls, en aðrar jarðir verða eftir með meira og minna af þýfðum túnum, verkfærin ef til vill flutt burt og tækifærið liðið hjá.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að eftir ákvæðum þessa frv. er ekki ætlazt til, að nokkur sérstakur fjárstyrkur verði veittur í þessu skyni, því að fyrir það fé, sem ríkinu er ætlað að leggja til framkvæmdanna, á það að eignast tilsvarandi hluta í jörðunum og fá vexti þar af. Eigendum jarðanna er svo gefinn kostur á að kaupa þann hluta, ef heim eða þegar þeim þykir sér henta.

Annars er gerð nánari grein fyrir þessu í skýringunum við 10. gr., 6. tölulið.

Ég vil geta þess, að í frv. er lítilsháttar prentvilla, í 15. gr., tölulið 2. Á eftir orðunum „til varanlegrar grasræktar“ hefir fallið niður: og. Ég vil benda á þetta, til þess að menn hnjóti ekki um það.

Ég vil að lokum á ný vísa til grg. þeirrar, sem frv. fylgir. Þar höfum við gert svo ítarlega grein fyrir hugsun okkar í þessu máli, að ég tel ekki þörf á að orðlengja frekar um það á þessu stigi málsins.

Ég vil biðja alla þá, sem áhuga hafa fyrir þessu máli, að kynna sér sem bezt þær ástæður, sem eru fyrir frv., og sérstaklega vit ég mega vænta goðs af n. þeirri, sem væntanlega fær frv. til meðferðar. Ég tel sjálfsagt, að það verði landbn. og legg því til, að frv. verði vísað til hennar að þessari umr. lokinni.