19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (1104)

6. mál, tollalög

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki blanda mér inn í deilu hæstv. fjmrh. og hv. þm. Ísaf., því að þar eigast þeir einir við, að ég hirði aldrei, þótt bitist nokkuð. Hv. þm. Ísaf. reis upp og veittist að frv., og bitnar það auðvitað sérstaklega á nefndinni, sem samið hefir frv. Hann dróttar því að nefndinni, að hún viti það rétta, þó að hún vilji ekki fara eftir því. Það er undarlegt, að hæstv. fjmrh. skyldi ekki svara öðru eins fyrir hennar hönd. (HStef: Nefndarmenn eru nú hérna ! ) . Ég býst við, að þetta, sem hv. þm. sagði, hafi verið svo gamall vísdómur, að menn. hafi ekki nennt að rifja upp þessi fyrstu atriði í barnalærdómnum, þetta um skatta og tolla. Auðvitað mætti lesa upp fræðin hérna, og hæstv. fjmrh. byrjaði á því. Það er fyrst t. d., að ríkissjóður, sem hefir nokkurn veginn jöfn gjöld frá ári til árs, verður að tryggja sér jafnar tekjur. Og það er ekki hægt, nema með því að leggja á það, sem menn verða að kaupa, hvernig sem lætur í ári. — Þetta er ekki skemmtilegt, en það er jafnsatt fyrir því. Og það er svo alkunnugt, að ekki ætti að þurfa að ræða um það.

En á tekju- og eignarskatti eru ýmsir gallar, og sá ekki minnstur, að erfitt er að framkvæma innheimtu hans réttlátlega. Mér finnst, að eins og lögin um tekju- og eignarskatt hafa verið framkvæmd hér á Íslandi, þá geti ég ekki sem þm. Reykv. annað en mótmælt því, að enn sé haldið áfram að heimta hann með fyllsta dugnaði hér í Reykjavík, en hvergi annarsstaðar. Ég held, að réttara væri að beina geiri sínum þangað, sem þörfin er meiri, úti um land, heldur en að hækka skatt, sem reynslan sýnir, að aðallega er innheimtur hér í bænum. Hlutfallið milli skattsins úr Reykjavík og öðrum landshlutum synir, að samræmi getur ekki verið. — Þessi galli mun lengi loða við skattinn, hvað erfitt er að fá hann réttan.

Annað er það, að í efnalitlu þjóðfélagi er ekki rétt að draga neitt úr kappi manna til að afla tekna og auka velmegun sína og þjóðarinnar. Hitt er rétt, að láta menn gjalda duglega af því, sem þeir vilja eyða. Mörg vara, sem menn þykjast þurfa að kaupa, getur bæði verið þörf og óþörf. Það fer eftir því, hvort hennar, er neytt í hófi eða óhófi, og um það eru menn sjálfráðir.

Hv. þm. Ísaf. varð æfur út af því, að hæstv. fjmrh. hafði minnzt á niðurfelling skatts. En það er öll ástæða til að fella niður nokkuð af tekjuskatti vegna þeirrar fjárkreppu, sem nú þegar þrengir að og hlýtur að haldast fyrst um sinn, þó að vonandi sé, að ekki verði mjög lengi. Afkoma framleiðenda hefir sjaldan verið verri, afurðir þeirra eru fallnar í verði og lítt seljanlegar, svo að enn er óséð um afleiðingarnar. Hvernig á að bregðast við þessu?— Það er ekki hægt betur en með því að létta af mönnum einhverju af byrðum. Stjórnin hefði átt að búa svo skynsamlega, að við mættum létta talsvert á atvinnuvegunum; hún hefði átt að geyma kornið frá góðu árunum eins og Jósep.

Mér þótti því vænt um, þegar hæstv. fjmrh. boðaði afnam 25% gengisviðaukans. En sá galli var á gjöf Njarðar, að þessi skattur á að koma fram í hækkunum skatta samkv. öðrum frv. Breytingin er þá ekki til neins annars en að festa þessa skatta um aldur og æfi. Eftir þessu frv. á að festa hækkunina í skatti, sem heyrir undir tollalögin, og um leið kemur annað frv., sem festir hækkun í öðrum tollalögum.

Þetta sýnir, hve fjármálastjórn landsins hefir verið herfileg undanfarið og hve illa slíkt ráðleysi kemur niður á atvinnuvegunum.

Í stað þess að geta nú létt undir með atvinnuvegunum og fellt niður þyngslabyrðar, sem á þeim liggja, eins og fyrrverandi stjórn gerði, þá eru þær byrðar margfaldaðar nú með auknum tollum og sköttum, þegar herðir að. (HJ: En fyrrv. stj. skilaði landsreikningnum með tekjuhalla). Það er að vísu rétt, en það er langtum betra að hafa óskert gjaldþol atvinnuveganna, þó að einhver halli kunni að vera á rekstri þjóðarbúsins eitt og eitt ár. Það er stórkostlega hættulegt fyrir atvinnuvegina, eins og horfurnar eru einmitt nú framundan, að hækka skatta og tolla. Að vísu er mér ekki fullljóst, hvað hækkunin muni nema á einstökum liðum gildandi tolllaga. En ég hefi fyrir satt, að tollhækkunin á salti muni nema um 100%, af kolum hefir hann hækkað allmikið og á sjófötum er mér sagt, að hækkunin muni nema um 1000 % .

Þetta sýnir því, að fjármálastjórn landsins hefir farið allt annað en vel úr hendi.

En þó er það langalvarlegasta í fjármálastjórn landsins ósagt enn, og það sannar betur en allt annað, hve stj. er Ósýnt um að fara með fjármálin. Þrátt fyrir það þó að undanfarið hafi verið einstök góðæri, og þó að allir skattar og tollar séu hækkaðir, þá er samt svo komið, eins og fjárlagafrv. ber með sér, að svo að segja allar verklegar framkvæmdir eru felldar niður. Nú var einmitt nauðsynlegt, að ríkissjóður hefði getað haldið áfram með sínar framkvæmdir, þegar atvinnuvegir þjóðarinnar eru ýmist lamaðir eða í rústum.

Ríkissjóður á að vera í hópi atvinnurekenda eins og seðlabanki meðal annara banka. Hann á að skrúfa að í góðærinu, — láta minna vinna, þegar nóg er um atvinnu og framkvæmdir þjóðarinnar — en eiga svo sín koffort full af fé til þess að hjálpa, þegar kreppan dynur yfir. (Forsrh.: Vill þá bankárráðsmaðurinn lækka vextina?). Það liggur ekki fyrir hér að ræða það mál. En vill hæstv. forsrh. mótmæla þeirri reglu um seðlabankana, sem ég var að lýsa?

Þegar atvinnurekendur hafa miklar framkvæmdir með höndum og krefjast mikils vinnuafls, þá á ríkissjóður ekki að keppa á móti þeim með enn meiri framkvæmdum og gera með því allt ómögulegt og lenda svo í tómu öngþveiti á eftir.

Fjárlagafrv. sýnir betur en allt annað, að fjármálastefna hæstv. stj. er þegar farin að hefna sín, eins og hún líka hlaut að gera fyrr eða síðar.