04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (1111)

6. mál, tollalög

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég hefi verið veikur undanfarna daga og því ekki getað tekið þátt í afgreiðslu þessa máls. En ég geri ráð fyrir, að það geri ekki svo mikið til, því að það mun fyrir löngu hafa verið ákveðið, hvernig það færi hér í þinginu. Í fyrra voru Framsóknarfl. og Sjálfstæðsfl. sammála á móti Alþýðufl. Er það einkennilegt, að í máli, sem mest er um deilt í heiminum, skuli 2 stærstu flokkarnir vera algerlega sammála, svo, að ekki gengur hnífur á milli. Það eru svo sem ekki mikil deilumál í landinu, þegar fulltrúar þessara flokka eru á eitt sáttir um það, hvernig fara eigi með fjármálin. nú eru þeir fallnir í faðma hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. N.--M. Við Alþýðflokksmenn látum okkur nægja að halda áfram stefnu okkar, að skattar fari eftir getu og gjaldþoli manna, en geti ekki verið ákveðnir eftir neyzlu á þessum og þessum vörutegundum. Ég hygg, að það muni verða barizt nú við næstu kosningar um þetta mál milli flokkanna, þó ekki milli Framsóknarfl. og Sjálfstæðisfl. Er þetta samband viðurstyggilegt. Að öðru leyti ætla ég ekki að tala um kaffi- og sykurtoll, en vona, að tækifæri gefist siðar til að tala um það.