04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (1113)

6. mál, tollalög

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Mér kemur ekki á óvart, þótt hv. þm. Ísaf. sé ekki ánægður með afstöðu meiri hl. n. En ég sé ekki ástæðu til við þessa umr. að vera að halda hér uppi löngum almennum umræðum um tolla- og skattamál.

Ég vil þá byrja á, til þess að gleyma ekki að svara því, sem hann spurði um, hvort n. hygist ekki að afgreiða frv. hans um þetta sama efni. Ég hefi þegar áður getið þess, að með því að afgreiða þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá væri vitanlega með því tekin afstaða til hins málsins. Ég hefi eiginlega ekki getað gert mér ljóst, hvers vegna hv. þm. hefir borið till. sínar fram sem sérstakt frv., en ekki sem brtt. við þetta frv., því að málið liggur þannig fyrir, að það lá beint við fyrir hv. þm. að bera sínar till. í málinu fram sem brtt. við þetta frv. En vitanlega skal það vera óátalið af mér, hvaða leið hann hefir valið. Hv. þm. gat þess, að hann hefði orðið var við þær skoðanir hjá mér í einkasamtölum, að ég teldi hátollaðar vörur vel fallnar til einkasölu. Ég kannast við þetta og hefi synt það í verkinu með því að hafa orðið hv. þm. sammála um að bera fram frv. um einkasölu á tóbaki. En það vil ég taka fram jafnframt, að ég tel ekki allar hátollaðar vörur jafnvel fallnar til einkasölu.

Það kom fram hjá báðum þeim hv. þm. sem töluðu hér á eftir mér, að þeir væru óánægðir með, að ekki var fallizt á þeirra afstöðu í þessum málum. Eins og þeim hafi þurft að koma það svo á óvart! Ég held, að í rauninni hafi þeim ekki komið það svo á óvart eins og þeir lata. Hv. þm. Ísaf. hefir fengið allnáin kynni af mínum skoðunum í þessum efnum. Þetta lýsir því aðeins gremju þeirra yfir því að hafa ekki yfir skoðunum annara að ráða.

Út af ummælum þeirra um samvinnu Framsóknarfl. og Sjálfstæðisfl. í tolla- og skattamálum vil ég hjálpa upp á minni þeirra með því að benda þeim á, að við hv. þm. Ísaf. hofum þó orðið sammála um einstök frv. í skattamálum, sem ekki hafa aðrir orðið til þess að fallast á með okkur. Má þar nefna t. d. frv. um einkasölu á tóbaki, sem lá fyrir þinginu í fyrra. Þá skal ég geta þess, að ég hafði heiðurinn af því að afgreiða með hv. þm. Ísaf. eitt skattafrv., sem ekki hefir enn verið lagt fyrir Alþingi, en er í vörzlum. hæstv. stj. (MG: Hvaða frv. er það?). Það er frv. um verðhækkunarskatt. Annars þykir mér hv. þm. Ísaf. vera óþarflega gleyminn á það úr samvinnu okkar, sem var á betri veginn. Eins og ég hefi synt fram á, þá höfum við verið sammála í sumum þessum máum og í mörgum einstökum atriðum, og mætti hv. þm. minnast þess einnig.