04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (1115)

6. mál, tollalög

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þótti hv. þm. Ísaf. helzt til grimmur, er hann vildi láta slátra þessu frv. nú þegar. Ég held, að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því, hver yrði afleiðingin af því, nefnilega, að þá yrðu tollarnir eins og þeir eru nú, það er að segja eins og þeir eru í frv.

Hv. þm. lýsti yfir því, að hann flytti sitt frv. gegn samvizkunnar mótmælum. Getur hann þá ekki ímyndað sér, að svo kunni að vera um fleiri en hann, og menn neyðist til að leggja annað til þessara mála en það, sem þeir hefðu helzt kosið? Það eru fleiri tillit, sem taka þarf á þessum málum, en hæð skattanna; það verður líka að sjá ríkinu fyrir tekjum, en það er skylda okkar alþm., og þess vegna megum við ekki festa augun á því eingöngu, er snýr að gjaldendunum. Úr því að hv. þm. Ísaf. verður að nauðga sinni samvizku í þessum efnum, þá má hann vel skilja það, að fleiri geta verið nauðbeygðir til hins sama. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hefði mikinn hug á því að lækka tollana, ef ég teldi það framkvæmanlegt, en ríkissjóðurinn þolir það ekki. (HG: Ef eitthvað kemur í staðinn). Það er ekki einhlítt að benda á tekjuskatt, eignarskatt og þvílíkt, því að það nægir ekki ríkinu nema í einstöku góðærum ef til vill. Og það er alveg vist, að ef hv. þm. Ísaf. og hans flokkur bæri ábyrgð á fjármálum landsins, þá þyrði hann ekki að bera fram slíka till. Það hefir sýnt sig, að jafnaðarmenn annara landa halda ekki fast í þau princip, sem þeir fylgdu áður í skattamálum, eftir að þeir komast til valda. Beygðir af nauðsyn hafa þeir orðið að þverbrjóta sín fyrri loforð og sínar meginreglur í skattamálum. Og ég get ekki séð, að ríkið þoli verulega lækkun tolla og skatta, eins og fjármálum þess er nú komið. (HG: Ef seð er fyrir öðru á móti). Ég kalla það ekki, þótt bent sé á að leggja mörg hundruð prócent toll á gull og gimsteina, sem flutt er inn í landið. Vitanlega er sjálfsagt að lækka tollana, ef það er unnt, en þess ber jafnframt að gæta, að okkar þjóðfélag er á því stigi, að brýn nauðsyn er á því að leggja sem mest í verklegar framkvæmdir og umbætur, og þess vegna verður að velja á milli, hvort leggja á höfuðaherzlu á verklegar framkvæmdir eða lækka tollana, sem hvorttveggja er nauðsynlegt og æskilegt, en ekki samrýmanlegt í senn. Það má vel vera, að sú stefna verði ofan á, að draga úr opinberum framkvæmdum í framtíðinni, en þá þótti mér undarlega við bregða, ef það yrðu jafnaðarmenn, sem réðu í landinu þá og tækju upp þá stefnu. Sjálfstæðismenn hafa sýnt það í verkinu, að þeir vilja lækka tolla og skatta, þegar tækifæri gefst til þess, og nægir að benda á lækkunina 1926, þegar núverandi sjálfstæðismenn fóru með völd.

Hv. þm. Ísaf. hefir gert mikið úr þessum 5 aura mun á sykurtollinum í hans frv. og frv. stjórnarinnar. Það munar að vísu dálitlu, 21/2 eyri á hverju pundi, en þó er það ekki meira en svo, að verðsveiflurnar frá ári til árs nema oft miklu meiru.

Það var helzt á hv. þm. að skilja, að honum stæði nokkur ógn af hinum myndarlega og sívaxandi félagsskap ungra sjálfstæðismanna hér í Reykjavík. Ég get vel skilið, að honum komi það ekki vel, enda býst ég við, að bað verði nokkur bið á því, að honum takist að veiða þessa ungu menn, sem bundizt hafa öflugum samtökum undir merki Sjálfstæðisflokksins.