04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (1119)

6. mál, tollalög

Jóhann Jósefsson:

Ég ætla ekki að blanda mér inn í deilur milli þeirra manna, sem sæti áttu í mþn. í tolla- og skattamálum. Ég vildi aðeins leiðrétta ummáli hv. þm. Ísaf. um stefnuskrá félags ungra sjálfstæðismann, að þar stæði, að þeir vildu hækka óbeina skatta, sem kæmi niður á neyzluvörum, og ætluðu að ná takmarki sínu með samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Það er sjálfsagt stefnuskrá félagsins Heimdalls, sem hv. þm. á við. En þótt stefnuskráin sé ýtarleg, er ekki vikið einu einasta orði að þessu, að ungir sjálfstæðismenn vilji skattleggja neyzluvörur, né neina vörutegund sérstaklega. Ég vildi leiðrétta þessi ummæli, þó að hér sé raunar ekki um neitt saknæmt að ræða, þó að þetta hefði staðið í stefnuskránni eða eitthvað, sem hv. þm. hefði getað lagt út þannig, en ummælin eru óviðkunnanleg, þegar þau eiga sér engan stað. Hv. þm. þyrfti að kynna sér stefnuskrána betur en í þetta sinn, áður en hann talar næst um stefnuskrár eldri og yngri sjálfstæðismanna.