09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (1124)

6. mál, tollalög

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég mun eigi fara að ræða almenn ágreiningsatriði; þau eru margrædd áður. Meiri hl. fjhn. hefir tekið ákveðna afstöðu í þessum málum.

Vitanlega er það aðalatriðið, hvort hér sé um nauðsynjavörutoll að ræða eða ekki. Fyrst þegar farið var að leggja toll á íslenzkar innflutningsvörur, þá voru þessar vörur settar á bekk með vínföngum og tóbaki, sem sýnir ótvírætt, að þá var litið svo á, að þetta væri munaðarvörutollur. Og alla tíð hefir þessi tollur verið nefndur munaðrvörutollur. Í þá daga var þó innflutningur og neyzla á þessum vörum ekki nema lítið brot af því, sem nú er orðið. Því frekar má neyzla þessara vara að réttu heita munaðarneyzla, sem hún er orðin óhóflegri. Hinsvegar nemur tollurinn ekki hárri upphæð, ef ekki er neytt meira en hóf er að. Ég held, að ekki þurfi annað en að líta inn í kaffihúsin hér í bænum til að sannfærast um, að menn noti þessar vörur til munaðar og nautna langtum meira en hóf er að, og sama má að vísu segja um neyzlu í heimahúsum. Þó að sykurtollurinn sé að vísu þar, þá er hann samt jafnhár nú og hann var fyrir stríð.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði síðast í ræðu sinni, að hér væri um það að ræða, hvort menn vildu heldur afla ríkissjóði tekna með tolli á þessum vörum en með einkasölu á tóbaki og eldspýtum, þá get ég svarað því fyrir mitt leyti, að ég er því fylgjandi, að ríkið afli tekna með einkasölu á tóbaki. En um það er of snemmt að ræða fyrr en það mál er komið í höfn. Þá gæti verið um það að ræða, að þessir tollar lækkuðu eitthvað. En mér þykir of snemmt að ákveða það fyrr en þær till. hafa verið samþ. og vissa er fyrir því, að ríkissjóður fái þær tekjur, sem einkasalan getur gefið.