04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (1134)

8. mál, vitagjald

Jóhann Jósefsson:

Á síðasta þingi var, eins og hv. þdm. er kunnugt, komið fram með till. til þál. um miðunarvita frá sjútvn. þessarar deildar, og hljóðaði hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta rannsókn fram fara um hentuga staði og stærð miðunarvita á ströndum landsins og undirbúa framhaldandi byggingu þeirra ásamt vantandi ljósvitum, svo sem fært þykir og vitagjald hrekkur til, meðan á byggingu stendur“.

Það varð að samkomulagi á 85. fundi þessarar deildar, að till. var ekki borin undir atkv., með því að hæstv. atvmrh. lofaði að taka vilja n. til greina jafnt og ef till. hefði verið samþ. af deildinni. Hann hefir líka gert það og skipað n. til að rannsaka þessi mál. Áttu sæti í henni Pálmi Loftsson útgerðarstjóri ríkisins, Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, Guðmundur Jónsson skipstjóri og Kristján Bergsson forseti Fiskifélags Íslands, og auk þess var Th. Krabbe vitamálastjóri að sjálfsögðu í nefndinni, og var hann formaður hennar.

Þessi n. hefir nú lokið störfum og gert till. í frv. formi viðvíkjandi þessum málum, sem þál. snýst um. En nú ber svo við, að hæstv. stj. leggur hér fram frv. það um vitagjald, sem hér er á dagskrá, en hefir ekki lagt fyrir þingið það frv., sem mþn. samdi. Hinsvegar hefir vitamálastjóri sem formaður n. sent sjútvn. sitt álit og frv. n. Ég skal nú ekki segja, hvað fyrir þessu erindi n. liggur. Sjútvn. hefir ekki ennþá tekið afstöðu til frv. En mér þykir það hálfundarlegt, eins sammála og stj. og þing virtist í fyrra, að nú, þegar n. hefir verið sett til að athuga málið og hefir lokið verki sínu, þá skuli vera lagt fram annað frv. um nátengt mál, en ekki minnzt á frv. n. um þetta mikla áhugamáefni þingsins. Ég segi áhugamálefni, því að mjög sterkar raddir hafa komið um það, að í raun og veru ætti að verja öllu vitagjaldinu til að byggja nýja vita og halda þeim við.

Margir þm. hafa borið mikinn áhuga fyrir því, að reistir væru fleiri nýir vitar en átt hefir sér stað á undanförnum árum, og sérstaklega, að svokölluðum miðunarvitum væri komið upp. Og það var sérstaklega með þá fyrir augum, að sjútvn. fór fram á, að skipuð væri þessi n. skipstjóra og annara sérfróðra manna.

Hv. frsm. taldi, að hér væri ekki gerð önnur veruleg breyt. en sú, að gengisviðaukinn væri lögfestur. Eftir því ætti ekki frv. n. um vitamálin að þurfa að rekast neitt á þetta stjfrv. Ég minntist á, að það væri álit margra, að vitagjaldinu öllu bæri að verja til viðhalds og bygginga nýrra vita. Og því hefir líka verið haldið fram, að gjaldið væri svo hatt, að við gætum varla varið það fyrir erlendum skipaeigendum, nema því væri öllu varið til að auka öryggi skipanna. Ég er á þessari skoðun, og þegar ég athuga þetta frv., sem samið er af meiri hl. mþn. í tolla- og skattamálum, sé ég ekki betur en þeirri stefnu sé haldið fram og að með frv. sé því sem næst slegið föstu, að vitagjaldinu skuli varið til öryggis fyrir skipin, því að 1. gr. byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir hvert skip, sem hefir fullkomið þilfar eða gangvel og tekur höfn hér á landi eða haldið er úti frá landinu, skal greiða gjald til vita, sjómerkja og til mælinga siglingaleiðum“ o. s. frv. En í lögunum eins og þeim var seinast breytt 1911 er svo komizt að orði: „Skal greiða vitagjald“, og ekki sagt nánar, til hvers það gangi. Ég tel því, að með nafnbreyt. l. sé fallizt á þá almennu skoðun, að vitagjaldinu eigi að verja til byggingar og viðhalds vita og öðru þar að lútandi.

Ég drap áðan á frv. það, sem komið er frá mþn. eða vitamálaskrifstofunni og nú er komið til sjútvn. Ég get ekki séð neinn stefnumun í því og þessu frv. um ráðstöfun teknanna. Og þótt frv. það komi fram frá n., þá get ég ekki séð, að neinn árekstur þurfi að verða milli þess og þessa frv.