04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (1139)

8. mál, vitagjald

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Mér skildist það á hv. þm. Borgf., að hann líti svo á, að n. hefði haft það fyrir augum að breyta allverulega til um ráðstöfun vitagjaldsins. Vegna þess skilnings vil ég upplýsa hv. þm. um það, að það var ekki meining n. að gera nokkrar verulegar breyt. á þeim ákvæðum, sem þar um giltu. Hið mismunandi orðalag í 1. „vitagjald“ og í frv. „gjald til vita“ þýðir eitt og hið sama. í frv. er aðeins bætt við því, að gjaldið er ætlað einnig til að standa straum af kostnaði til sjómerkja og mælinga á siglingaleiðum. Fyrirsögn þessa frv. er: „Um vitagjald o. fl.“. Er það gert til skýringar á því, að ekki er ætlazt til, að allt gjaldið gangi til vita. Í 2. gr. frv. segir, að gjaldið renni í ríkissjóð. Ef meiningin væri sú, að einskorða það, að gjald þetta rynni allt til vitanna, þá væri það látið renna í sérstakan sjóð, er kostnaður af byggingu og viðhaldi vitanna væri greiddur úr. En nú er það svo, að til þessa tíma hefir meira en öllu vitagjaldinu verið varið til kostnaðar við vita. Hafa því hvorki útlendingar né aðrir ástæðu til að kvarta yfir meðferð gjaldsins. Hitt hefir vitanlega ekkert að segja, þótt framkvæmdir einstakra ára verði mismunandi, stundum meiri, stundum minni en vitagjaldið. Það getur allt jafnað sig. Gjaldið rennur í ríkissjóð og er tekið úr honum aftur. Og framkvæmdirnar er ófært að hnitmiða svo, að tekjur og gjöld hvers árs standist nákvæmlega á.