11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (1156)

8. mál, vitagjald

Jón Auðunn Jónsson:

Það kann að vera, að sumir líti svo á, að ekki sé rétt að fastbinda tekjur ríkisins til ákveðinna útgjalda um mörg ár í senn. En ég vil benda á, að slíkt hefir verið gert áður, t. d. með l. um bifreiðaskatt, með 1. um að 1/2% útflutningsgjalds gangi til Ræktunarsjóðs, og í enn fleiri tilfellum.

Það er lífsnauðsyn að koma máli því, er frv. ræðir um, í gott horf, að mæla upp siglingaleiðirnar og bæta vitakerfið. Eftir till. mþn. þeirrar, er fjallað hefir um þetta efni, þarf að verja til þess 21/2 millj. kr. á næstu 10 árum, og starfræksla vitanna og árlegt viðhald mun nema 300 þús. kr. Eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið, er alstaðar venja að leggja meira til vitamálanna úr ríkissjóði heldur en vitagjöldin gefa; að Spáni undanteknum. Vitagjaldið er eingöngu tekið af þeim, sem vitanna njóta, og mun stundum vera gengið fulllangt í að heimta það, t. d. þegar erlend skip koma hér inn á hafnir með sjúka menn. Útlendingar kvarta líka mikið undan því, hvað seint gangi að koma vitakerfinu hér í lag.

Ef vitamálin komast í það lag, sem þau þurfa að komast í, er enginn vafi á því, að af því leiðir beinan fjárhagslegan hagnað, t. d. í lækkun vátryggingariðgjalda. Mér finnst því alveg sjálfsagt, að allt það fé, sem ríkissjóður innheimtir sem vitagjöld, gangi til endurbóta á því sviði. Vona ég, að allir hv. þm. geti fallizt á það.